5. fundur stjórnar

26.04.2011 16:00

Dagskrá:

1. Fundargerð síðasta fundar
2. Nefndafundir
- Vinna dagsins
- Áætlun - áfangaáætlun út maí - mat á heildartíma
- Fundargerðir almennt
- Opnir fundir - sbr. 9. gr. starfsreglna - sameiginlegur skilningur
3. Undirbúningur ráðsfunda á fimmtudögum
4. Fyrirkomulag næsta ráðsfundar og dagskrá hans
- Yfirlit frá hverri nefnd og umræður
- Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa
- Tillögur um breytingar á áfangaskjali
5. Önnur mál
- Erindi sem hafa borist stjórn
- Samskiptasáttmáli
6. Næsti stjórnarfundur

Fundargerð

5. fundur stjórnar - haldinn 26. apríl 2011, kl. 16.00, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs, Ari Teitsson varaformaður, Silja Bára Ómarsdóttir, formaður verkefnanefndar A, Vilhjálmur Þorsteinsson, varaformaður verkefnanefndar B og Pawel Bartoszek, formaður verkefnanefndar C.

Forföll hafði boðað Katrín Fjeldsted, formaður verkefnanefndar B.

Auk stjórnarfólks sátu fundinn varaformenn verkefndanefnda A og C, nánar tiltekið Örn Bárður Jónsson og Íris Lind Sæmundsdóttir.

Jafnframt sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Formaður boðaði til fundarins í lok síðasta stjórnarfundar fyrir páskafrí, nánar tiltekið 20. apríl, og sú fundarboðun var ítrekuð með tölvupósti 26. apríl.

Formaður setti fundinn og stýrði honum.

1. Fundargerð síðasta fundar

Fundargerð 4. stjórnarfundar lögð fram til kynningar.

2. Nefndarfundir dagsins

2.1 Vinna dagsins

Fyrirsvarsmenn nefnda gerðu grein fyrir umræðum og vinnu sem farið hefði þar fram og skipulagi áframhaldandi vinnu. Fram kom að nefnd A undirbýr nú þegar tillögu um breytingu á áfangaskjali að því er varðar aðfaraorð og staðsetningu mannréttindakafla.

2.2 Áætlun - áfangaáætlun út maí - mat á heildartíma

Rætt var um nauðsyn þess að setja upp verkefnaáætlun fyrir maí og júní, enda ráðinu naumt skammtaður tími. Hver nefnd þurfi að meta hvaða áföngum verði unnt að ná á a.m.k. næstu fjórum ráðsfundum. Drög að áætlun hverrar nefndar liggi fyrir á næsta stjórnarfundi.

2.3 Fundargerðir

Um fundargerðir er fjallað í 7. gr. starfsreglna. Því til viðbótar talin þörf á að fundargerðir nefnda séu samræmdar að efni og formi. Þar þurfi einnig að vera hægt að finna reifun á meginatriðum umræðna. Slíkar bókanir verði nokkuð almennar og einungis tengdar nafni fulltrúa þegar eftir því er óskað. Með þessu móti geti fulltrúar kynnt sér umfjöllun í þeim nefndum sem þeir eiga ekki sæti í.

2.4 Opnir fundir - sbr. 9. gr. starfsreglna - sameiginlegur skilningur

Stjórn hvatti almennt til þess að fundir nefnda væru opnir almenningi á sama hátt og ráðsfundir. Allir fundir nefnda eru opnir öllum fulltrúum, einnig þeim sem sæti eiga í öðrum nefndum.

Fjallað var sérstaklega um ákvæði starfsreglna og svokallaða „plenum" nefndafundi á miðvikudögum. Þessir fundir eru opnir almenningi þegar viðkomandi nefnd hefur tekið um það ákvörðun fyrir hádegi á þriðjudegi. Fundarboð og dagskrá skal birta á vef ráðsins, eigi síðar en daginn fyrir fund, sbr. 9. gr. starfsreglna. Sé nefndarfundur opinn almenningi er hann tekinn upp og hljóðritun gerð aðgengileg á vef ráðsins.

3. Undirbúningur ráðsfunda á fimmtudögum

Rætt var um hefðbundna vikudagskrá, svo sem hún hefur verið fyrirhuguð, nánar tiltekið svokallaðan sameiginlegan nefndarfund fyrir hádegi á fimmtudögum. Ákveðið að miða þar fremur við óformlegan fund í kaffistofu á milli 9.00 og 9.30. Með því móti gæfist fulltrúum betra ráðrúm til að undirbúa sig fyrir ráðsfund eftir hádegi sama dag.

4. Fyrirkomulag næsta ráðsfundar og dagskrá hans

4.1 Yfirlit frá hverri nefnd og umræður

Ákveðið var að á næsta ráðsfundi verði gerð grein fyrir verksviði hverrar nefndar og helstu áhersluatriðum. Með þessu móti komi skýrt fram hvernig efnisleg umfjöllun hafi farið af stað í öllum þremur nefndum Stjórnlagaráðs.

4.2 Áhersluatriði og stefnumörkun tiltekinna fulltrúa

Formaður mun kanna áhuga fulltrúa á að kynna áhersluatriði sín og stefnumörkun undir sérstökum lið í lok ráðsfunda. Ræðutími yrði u.þ.b. 10-15 mínútur.

4.3 Tillögur um breytingar á áfangaskjali

Samþykkt var að tillögur um breytingar á áfangaskjali, þegar þær liggja fyrir, þurfi að fylgja fundarboði ef þær eiga að geta fengið afgreiðslu á fundinum.

Í þeim tilvikum að tillaga fær samþykkt meirihluta fulltrúa á ráðsfundi leiðir hún til breytinga á áfangaskjali. Komi fram við hana efnislegar breytingartillögur sé eðlilegt að þeim verði vísað til viðkomandi nefndar og komi síðan aftur til umfjöllunar á ráðsfundi að fenginni umsögn þaðan.

Samþykkt var að kannaðir verði tæknilegir möguleikar á að varpa upp annars vegar texta til umfjöllunar og hins vegar ræðumanni á ráðsfundi. Þær tillögur sem til umfjöllunar eru á ráðsfundi hverju sinni eru aðgengilegar á vef ráðsins en hagræði væri að því að geta séð þær á skjánum ásamt ræðumanni.

5. Önnur mál

5.1 Erindi sem hafa borist stjórn

Stjórnlagaráði hafi borist erindi og búið að vísa þeim til viðeigandi nefnda að því marki sem efni erinda fellur undir málefnasvið nefnda A, B og C. Nokkur erindi heyra þeim ekki til og þarfnast nánari skoðunar. Formaður mun huga nánar að þeim, í samvinnu við starfsmenn.

Þá hafi stjórn borist fyrirspurn um möguleika Stjórnlagaráðs á að taka þátt í kostnaði við hugsanlegar ferðir fulltrúa á fundi sem þeim kann að verða boðið að taka þátt í. Óhjákvæmilegt talið að svara slíkum erindum á þá leið að Stjórnlagaráð hafi ekki möguleika á að taka þátt í slíkum kostnaði.

5.2 Samskiptasáttmáli

Lögð voru fram drög tæknistjóra að svokölluðum samskiptasáttmála fyrir vef Stjórnlagaráðs, sbr. fylgiskjal með fundargerð. Farið var yfir textann og gerðar nokkrar breytingar.

6. Næsti stjórnarfundur

Næsti fundur stjórnar verður haldinn þriðjudaginn 3. maí, kl. 13.00.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17.10.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.