1. fundur stjórnar

08.04.2011 14:40

Dagskrá:
  1. Verkaskipting - stjórn - starfsfólk - undirbúningsnefnd
  2. Fundir ráðsins á næstunni
  3. Önnur mál

Fundargerð

1. fundur stjórnar - haldinn 8. apríl 2011, kl. 14.40, í húsnæði Stjórnlagaráðs í Ofanleiti 2, Reykjavík.

Mætt voru: Salvör Nordal formaður og Ari Teitsson varaformaður. Auk þeirra sátu fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson framkvæmdastjóri og Sif Guðjónsdóttir aðallögfræðingur.

Salvör Nordal var kosin formaður Stjórnlagaráðs og Ari Teitsson varaformaður á fundi ráðsins í gær, 7. apríl. Formaður setti fundinn.

1. Verkaskipting - stjórn - starfsfólk - undirbúningsnefnd

Rætt var um að hafa fasta vikulega stjórnarfundi, meðal annars til að ákvarða dagskrá næsta ráðsfundar. Í þeirri undirbúningsvinnu fyrir starfsreglur Stjórnlagaráðs sem fram hefði farið væri gert ráð fyrir að í stjórn sætu einnig formenn nefnda. Mikilvægt væri að þeirri vinnu lyki sem fyrst og stjórn yrði fullmönnuð í samræmi við þau ákvæði starfsreglna sem samþykkt hlytu.

Framkvæmdastjóri og aðallögfræðingur verða starfsmenn stjórnar.

Á morgun verður haldinn sameiginlegur fundur starfsmanna og fulltrúa, þar sem farið verður yfir verkaskiptingu og ýmis hagnýt atriði.

2. Fundir ráðsins á næstunni

Farið var yfir skipulagið fram undan og starfsmönnum stjórnar falið að útbúa á þeim grundvelli dagskrá fyrir næstu tvær vinnuvikur, þ.e. dagana 11.-15. apríl og 18.-20. apríl. Í dagskránni felst áhersla stjórnar á að ljúka umfjöllun um og afgreiðslu á eftirtöldum atriðum fyrir páskafrí:

  • Starfsreglur.
  • Nefndir (fjöldi, málefnaskipting, formennska, varaformennska, önnur skipan fulltrúa).
  • Starfsáætlun (vinnuskipulag nefnda).

Til viðbótar við afgreiðslu á framangreindum atriðum verður á sama tímabili hafin efnisleg umfjöllun um skýrslu stjórnlaganefndar.

3. Önnur mál

  • Formaður fól nefndasviði (SG) eftirfarandi verkefni:
  • Hugmyndir um skiptingu málefna á milli þriggja nefnda.
  • Tillögur um fyrirkomulag við umfjöllun fulltrúa um skýrslu stjórnlaganefndar, svo sem með fyrirlesurum eða starfshópum.
  • Utanumhald um þær tillögur sem gert er ráð fyrir í starfsáætlun, útsending, dreifing á fundi og svo framvegis.

4. Næsti fundur

Gert ráð fyrir næsta fundi mánudaginn 18. apríl en nánari tímasetning ákveðin síðar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.40.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.