1. fundur A-nefndar
26.04.2011 10:30
Dagskrá:
- Skipulag á vinnu nefndarinnar
- Næstu skref
- Grunngildi og upphafsorð stjórnarskrárinnar
1. fundur A-nefndar, haldinn þriðjudaginn 26. apríl 2011 kl. 10.30-12.00 og 13.00-15.15.
Viðstödd voru Silja Bára Ómarsdóttir, formaður, sem stýrði fundi, Örn Bárður Jónsson, varaformaður, Arnfríður Guðmundsdóttir, Dögg Harðardóttir, Freyja Haraldsdóttir, Illugi Jökulsson, Katrín Oddsdóttir og Þorvaldur Gylfason. Auk þess sat Salvör Nordal, formaður Stjórnlagaráðs fyrri hluta fundarins. Fundargerð ritaði Andrés Ingi Jónsson.
1. Skipulag á vinnu nefndarinnar
Reiknað er með að í hverri viku verði eitt efnisatriði tekið til umræðu á lokuðum vinnufundum nefndar á mánudögum og þriðjudögum. Þeirri vinnu verði síðan haldið áfram á opnum fundum á miðvikudögum, með það fyrir augum að útbúa tillögu um efnið fyrir ráðsfund á fimmtudegi. Dagskrá næstu vikna gæti skv. þessu litið svona út:
Vika |
Efni |
Dags. ráðsfundar |
17 |
Grunngildi, ríkisborgararéttur og þjóðtunga |
28. apríl |
18 |
Mannréttindi |
5. maí |
19 |
Náttúruauðlindir og umhverfismál |
12. maí |
20 |
Uppbygging og kaflaskipan stjórnarskrárinnar Þessi hluti krefst nokkurrar samvinnu á milli nefnda |
19. maí |
21 |
Önnur umferð, þar sem efnið er fínpússað. Efnisþættir ákvarðaðir eftir þörfum. |
26. maí |
Framhald vinnunnar skýrist síðar, t.a.m. þegar ljóst verður hvort Stjórnlagaráð muni sækja um framlengingu á störfum sínum um þann mánuð sem heimilað er í þingsályktun um skipun ráðsins.
Hópurinn var sammála um að leggja sem fyrst fram nokkuð vel mótaðar hugmyndir að mannréttindakafla. Annars vegar væri hann með því nýjasta í stjórnarskránni og þyrfti því lítilla breytinga við. Hins vegar væri umræða um kaflann æskilegur upphafspunktur á samræðu Stjórnlagaráðs og þjóðarinnar - sem þyrfti að hefja sem fyrst.
Nefndarmenn munu skipta erindum sem nefndinni hafa borist sín á milli, þannig að þau séu alltaf lesin af a.m.k. tveimur nefndarmönnum. Að því loknu verði ákveðið hvernig bregðast skuli við erindunum; hvort þau séu tekin beint til efnislegrar umræðu í nefndinni, hvort hluti nefndarmanna fundi með þeim sem sendi erindið einn, eða hvort hlutaðeigandi sé boðaður á fund nefndarinnar.
2. Næstu skref
Fyrir næsta ráðsfund, sem haldinn verður 28. apríl, hyggst nefndin leggja tvær tillögur
Að stjórnarskráin hefjist á kafla með grunngildum, annaðhvort í aðfaraorðum eða í upphafsgrein. Sá kafli verði í upphafi tómur, en hugmyndum að efnisatriðum verði safnað þvert á nefndir.
Að mannréttindum verði gert hærra undir höfði með því að færa þann kafla fremst í stjórnarskrána. Nefndin stefnir að því að leggja tillögur að þeim kafla fyrir þarnæsta ráðsfund, 5. maí.
3. Grunngildi og upphafsorð stjórnarskrárinnar
Nefndarmenn voru sammála um að æskilegt væri að hefja stjórnarskrána á því að telja upp ákveðin grunngildi, sem væru síðan nánar útfærð í megintexta stjórnarskrárinnar. Ákveða þyrfti hvort væri æskilegra að hafa þá upptalningu sem aðfaraorð fyrir framan 1. grein stjórnarskrárinnar, eða að sá kafli væri gerður að 1. grein. Um kosti hvorrar leiðar og galla greinir lögfræðinga á um, eins og bent er á í skýrslu stjórnlaganefndar. Þá skipti miklu máli að þessi texti sé skýr og greinilegur; líklega væri rétt að bíða með að festa hann á blað, þar sem hann kviknaði af því sem gerist í öðru starfi nefndanna. Þannig mætti sjá fyrir sér að ráðsfulltrúar settust saman undir lok starfstíma Stjórnlagaráðs til að fullvinna upphafsorð stjórnarskrárinnar.
Til að auðvelda vinnu við upphafsorðin þegar þar að kemur leggur nefndin til að haldið verði utan um þau grunngildi sem upp kunna að koma í umræðum verkefnanefndanna. Úr þessu yrði lifandi skjal og mikilvæg vinna fyrir ráðið, sem nauðsynleg væri til að halda hugmyndum til haga.
Nefndin steig fyrstu skrefin í átt að slíku skjali, með hugflæði um helstu grunngildi sem birtust í niðurstöðu þjóðfundar haustið 2010. Var formanni falið að skoða hvernig best væri að koma þeirri vinnu áfram, þ.e. með hvaða hætti sé hægt að halda utan um hugmyndir annarra verkefnanefnda og ráðsfulltrúa varðandi grunngildi stjórnarskrárinnar.
4. Næsti fundur
Næsti fundur í A-nefnd er boðaður miðvikudaginn 27. apríl kl. 10-12 og 13-15. Fyrir fundinum liggur svohljóðandi dagskrá:
Fundargerð síðasta fundar
Vinnuskjal um mannréttindi (Freyja, Katrín og Þorvaldur)
Tillaga um breytingar á áfangaskjali fyrir ráðsfund 28. apríl