5. ráðsfundur

19.04.2011 13:00

Dagskrá:
  1. Fundargerðir 1. og 2. ráðsfundar bornar upp til samþykktar og fundargerðir 3. og 4. ráðsfundar lagðar fram til kynningar
  2. Tillaga stjórnar um tölu nefnda og verkaskiptingu þeirra
  3. Kosning nefndaformanna og varamanna þeirra
  4. Val fulltrúa á verkefnanefndum
  5. Erindi sem hafa borist Stjórnlagaráði

 

Skjöl til umfjöllunar á fundinum:

 

Fundargerð

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Dögg Harðardóttir, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Illugi Jökulsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.

Forföll höfðu boðað eftirtaldir fulltrúar: Eiríkur Bergmann Einarsson, Guðmundur Gunnarsson og Ómar Þorfinnur Ragnarsson.

Þá sat fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs.

Fundurinn var opinn fyrir gesti og sýndur í beinni útsendingu á vefnum stjornlagarad.is.

Til fundarins var boðað af hálfu stjórnar með tölvupósti mánudaginn 18. apríl 2011 og dagskrá í samræmi við fundarboð.

1. Setning fundar

Formaður, Salvör Nordal, setti fundinn og stýrði honum.

2. Fundargerðir fyrri ráðsfunda

Fundargerðir 1. og 2. ráðsfundar voru bornar  upp til samþykktar. Þær voru lagðar fram til kynningar á 3. ráðsfundi. Fundargerðirnar voru samþykktar án athugasemda.

Fundargerðir 3. og 4. ráðsfundar hafa verið birtar á innra neti Stjórnlagaráðs og verða bornar upp á næsta fundi til samþykktar.

3. Tillaga stjórnar um tölu nefnda og verkaskiptingu þeirra

Tillaga stjórnar um tölu nefnda og verkaskiptingu þeirra var kynnt á óformlegum fundi fulltrúa í gær og send fulltrúum með tölvupósti í morgun.

Þorkell Helgason fékk orðið og dró til baka tillögu frá 4. ráðsfundi, en afgreiðslu hennar var þá frestað.

Formaður gaf orðið laust um tillögu stjórnar og eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Gísli Tryggvason, formaður, Örn Bárður Jónsson, Katrín Oddsdóttir, formaður, Silja Bára Ómarsdóttir og formaður.

Tillagan var borin undir fundinn og samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

4. Kosning nefndaformanna og varamanna þeirra

4.1 Umræður

Formaður lýsti því að í samræmi við 2. gr. starfsreglna og skýringar formanns starfsreglnanefndar í framsögu fyrir reglunum yrði fyrst tekið fyrir að kjósa formenn nefnda, í röðinni A, B og loks C.

Til máls tóku: Þorkell Helgason, Þórhildur Þorleifsdóttir, Katrín Oddsdóttir, Dögg Harðardóttir, formaður, Þórhildur Þorleifsdóttir, formaður, Lýður Árnason, Erlingur Sigurðarson, Vilhjálmur Þorsteinsson, Íris Lind Sæmundsdóttir, Katrín Oddsdóttir, formaður, Dögg Harðardóttir, Pawel Bartoszek, Erlingur Sigurðarson, Þorkell Helgason, Þórhildur Þorleifsdóttir, formaður, Illugi Jökulsson, varaformaður, Örn Bárður Jónsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Gísli Tryggvason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Dögg Harðardóttir.

Þórhildur Þorleifsdóttir lýsti því yfir að hún myndi sitja hjá í öllum atkvæðagreiðslum.

4.2 Kosning formanns í verkefnanefnd A

Formaður óskaði eftir framboðum og tilnefningum til formennsku í verkefnanefnd A.

Katrín Fjeldsted tilnefndi Silju Báru Ómarsdóttur og hún gaf kost á sér. Erlingur Sigurðarson tilnefndi Þorvald Gylfason og hann gaf kost á sér. Dögg Harðardóttir tilnefndi Örn Bárð Jónsson og Arnfríði Guðmundsdóttur. Örn gaf kost á sér en Arnfríður ekki.

Gengið var til leynilegrar atkvæðagreiðslu um formann í verkefnanefnd A.

Atkvæði féllu svo í 1. umferð:

Silja Bára Ómarsdóttir: 10
Þorvaldur Gylfason: 9
Örn Bárður Jónsson: 2
Auður seðill: 1

Samkvæmt ákvæði 2. gr., sbr. 1. gr. starfsreglna, er rétt kjörinn formaður sá sem hlotið hefur hreinan meirihluta atkvæða allra ráðsfulltrúa. Fái enginn tilskilinn fjölda atkvæða skal kjósa um þá tvo fulltrúa er flest atkvæði fengu.

Kjósa þurfti því í 2. umferð, á milli Silju Báru Ómarsdóttur og Þorvaldar Gylfasonar.

Fundarstjóri lýsti þeim skilningi sínum á framangreindum ákvæðum starfsreglna um kosningar að þar sé vísað til meirihluta viðstaddra ráðsfulltrúa. Vilhjálmur Þorsteinsson, formaður starfsreglnanefndar, fékk orðið og lýsti sig sammála þessum skilningi. Engar athugasemdir komu fram af hálfu annarra ráðsfulltrúa.

Atkvæði féllu svo í 2. umferð:

Silja Bára Ómarsdóttir: 12
Þorvaldur Gylfason: 9
Auður seðill: 1

Silja Bára Ómarsdóttir var þannig rétt kjörin formaður í verkefnanefnd A.

4.3 Kosning formanns í verkefnanefnd B

Formaður óskaði eftir framboðum og tilnefningum til formennsku í verkefnanefnd B.

Silja Bára Ómarsdóttir tilnefndi Katrínu Fjeldsted og hún gaf kost á sér.

Vilhjálmur Þorsteinsson bauð sig einnig fram til formennsku.

Gengið var til leynilegrar atkvæðagreiðslu um formann í verkefnanefnd B.

Atkvæði féllu svo í 1. umferð:

Katrín Fjeldsted: 9
Vilhjálmur Þorsteinsson: 9
Auðir seðlar: 4

Í samræmi við ákvæði starfsreglna var kosið að nýju.

Atkvæði féllu svo í 2. umferð:

Katrín Fjeldsted: 11
Vilhjálmur Þorsteinsson: 9
Auðir seðlar: 2

Katrín Fjeldsted var þannig rétt kjörin formaður í verkefnanefnd B.

4.4 Kosning formanns í verkefnanefnd C

Formaður óskaði eftir framboðum og tilnefningum til formennsku í verkefnanefnd C.

Þorkell Helgason bauð sig fram.

Gísli Tryggvason stakk upp á Pawel Bartoszek og hann gaf kost á sér.

Gengið var til leynilegrar atkvæðagreiðslu um formann í verkefnanefnd C.

Atkvæði féllu svo í 1. umferð:

Pawel Bartoszek: 10
Þorkell Helgason: 8
Auðir seðlar: 3

Formaður lýsti því að kjósa þyrfti í 2. umferð.

Atkvæði féllu svo í 2. umferð:

Pawel Bartoszek: 10
Þorkell Helgason: 8
Auðir seðlar: 3

Pawel Bartoszek var þannig rétt kjörinn formaður í verkefnanefnd C.

4.5 Kosning varaformanna í verkefnanefndum A, B og C

Formaður óskaði eftir framboðum og tilnefningum til varaformennsku í verkefnanefnd A. Þar sem kona hefði verið kosin formaður þyrfti varaformaður að vera karl og öfugt.

Lýður Árnason tilnefndi Þorvald Gylfason en hann afþakkaði. Arnfríður Guðmundsdóttir tilnefndi Örn Bárð Jónsson sem gaf kost á sér. Önnur framboð komu ekki fram og Örn Bárður Jónsson var því sjálfkjörinn.

Formaður óskaði eftir framboðum og tilnefningum til varaformennsku í verkefnanefnd B. Vilhjálmur Þorsteinsson gaf einn kost á sér og var því sjálfkjörinn.

Formaður óskaði eftir framboðum og tilnefningum til varaformennsku í verkefnanefnd C. Íris Lind Sæmundsdóttir gaf ein kost á sér og var því sjálfkjörin.

Formaður vísaði í starfsreglur Stjórnlagaráðs þar sem kveðið er á um að stjórn ráðsins skipi formenn verkefnanefnda, auk formanns og varaformanns Stjórnlagaráðs. Næsti stjórnarfundur verði haldinn á morgun kl. 9.30.

5. Val fulltrúa á verkefnanefndum

Formaður lýsti því að fulltrúar hefðu fengið valblað til að koma á framfæri vali sínu á verkefnanefnd. Óskað var eftir að því yrði skilað á skrifstofu nefndaritara fyrir kl. 17.00 og niðurstaðna um skipan fulltrúa í verkefnanefndir væri að vænta að loknum fundi stjórnar á morgun. Markmiðið væri að nefndastörf gætu hafist af fullum krafti eftir páskafrí.

Katrín Oddsdóttir og Andrés Magnússon fengu orðið og tóku til máls.

Allir viðstaddir fulltrúar afhentu nefndariturum val sitt í lok fundarins.

6. Erindi sem hafa borist Stjórnlagaráði

Formaður lýsti því að Stjórnlagaráði hefðu borist nokkur erindi og las upp lista yfir þau, sbr. fylgiskjal með fundargerð þessari. Umræddur listi var meðal skjala á borðum fulltrúa fyrir fund og erindin aðgengileg fulltrúum á innra neti ráðsins. Á vefsíðu Stjórnlagaráðs væri notendum boðið upp á að senda inn erindi, bæði til ráðsins í heild og tiltekinnar verkefnanefndar. Erindi væru móttekin og flokkuð á skrifstofu nefndaritara og birt á vef Stjórnlagaráðs fljótlega. Þau yrðu höfð til hliðsjónar við vinnu verkefnanefnda og um þau bókað í fundargerðum verkefnanefnda.

Katrín Oddsdóttir fékk orðið og tók til máls.

7. Næsti fundur

Fundarstjóri gerði grein fyrir því að næsti fundur Stjórnlagaráðs yrði haldinn fimmtudaginn 28. apríl. Dagskrá verði send út síðar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14.28.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.