3. ráðsfundur
13.04.2011 09:30
Dagskrá:
- Tillaga að starfsreglum lögð fram til umræðu og afgreiðslu
- Skipan nefndar um skiptingu málefna á milli verkefnanefnda
Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson,Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson,Katrín Fjeldsted, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, ÞorkellHelgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.
Forföll höfðu boðað eftirtaldir fulltrúar: Andrés Magnússon, Íris Lind Sæmundsdóttir og Katrín Oddsdóttir.
Þá sat fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs.
Fundurinn var opinn fyrir gesti og sýndur í beinni útsendingu á vefnum stjornlagarad.is.
Til fundarins var boðað af hálfu stjórnar með tölvupósti þriðjudaginn 12. apríl 2011 ogdagskrá var í samræmi við fundarboð.
1. Setning fundar
Formaður, Salvör Nordal, setti fundinn og stýrði honum.
2. Tillaga að starfsreglum lögð fram til umræðu og afgreiðslu
Tillaga þessi fylgdi fundarboði og er fylgiskjal með fundargerð þessari.
2.1 Framsaga formanns starfsreglnanefndar
Fundarstjóri gaf Vilhjálmi Þorsteinssyni, formanni starfsreglnanefndar, orðið. Í máli hans kom fram að nefndin hefði verið skipuð á 1. ráðsfundi 6. apríl og í henni setið þau Ari Teitsson, Gísli Tryggvason, Íris Lind Sæmundsdóttir, Silja Bára Ómarsdóttir og hann sjálfur. Nefndin tók við starfi svokallaðs fjórmenningahóps, sem vann að verklagsmálum frá 8. janúar sl. Í þeim hópi hafi verið, auk hans sjálfs, þau Salvör Nordal, Þorkell Helgason og Þórhildur Þorleifsdóttir, og eigi þakkir skildar.
Samkvæmt ályktun Alþingis um skipan Stjórnlagaráðs frá 24. mars 2011 setji Stjórnlagaráð sér sjálft starfsreglur um skipulag og starfshætti sína.
Í máli formanns starfsreglnanefndar komu fram eftirfarandi nánari skýringar á einstökum ákvæðum:Tillaga starfsreglnanefndar hefst á aðfaraorðum sem eiga að veita leiðbeiningu um þann anda sem starfsreglurnar eru settar í, auk þess að skilgreina almenn viðmið í starfinu.
Ákvæði 1. gr. starfsreglna er þegar samþykkt á ráðsfundi og þarfnast því ekki umfjöllunar hér. Númer greina í tillögunni taka mið af því og umfjöllun formanns varðar því ákvæði 2.-21. gr.í starfsreglum.
Í ákvæði 2. gr. er átt við að formenn og varaformenn verði kosnir þannig að fyrst verði kosið á milli allra. Fái enginn hreinan meirihluta í þeirri umferð er kosið á ný í annarri umferð á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Ef jafnt verður með þeim er kosið að nýju og loksræður hlutkesti, ef þá er aftur jafnt.
Þá er áskilið að formaður og varaformaður hverrar nefndar verði af gagnstæðu kyni. Ætlunin er að formenn verði kosnir fyrst, en varaformenn að þeim kosningum loknum. Formanni er gefin heimild til að hlutast til um það eftir á að jafna hlut kynja í formannahópnum, og þar með í stjórn Stjórnlagaráðs, með því að víxla formanni og varaformanni í nefnd eða nefndum.Starfsreglnanefnd lítur svo á að þá ætti fyrst að koma til álita að víxla í þeirri nefnd þar sem minnstur munur hafi verið á atkvæðafjölda formanns og varaformanns.
Í 5. gr. er gert ráð fyrir að hluti nefndarfunda verði tímasettir þannig í vikuskipulagi ráðsins að unnt sé að mæta á fund í fleiri nefndum en þeim sem fulltrúi hefur atkvæðisrétt í. Ákvæði um frumkvæði stjórnar að breyttri skipan nefnda eigi fyrst og fremst við ef of fáir fulltrúarverða í einni nefnd en of margir í annarri, að teknu tilliti til verkefna nefndanna. Ætíð yrði þó að leitast við að virða óskir fulltrúa í því efni. Hlutkestisákvæðið kemur í veg fyrir að stjórn séu færð of mikil völd í þessu sambandi, en það geri að verkum að tillaga um flutning á milli nefnda geti ekki snúist með fyrirsjáanlegum hætti um einstaklinga.
Með orðalaginu „nægilegur fyrirvari" í 1. mgr. 6. gr. er átt við eðlilegan fyrirvara sem ekki er of knappur í ljósi kringumstæðna til þess að ákveða dagskrá, undirbúa og boða fund.
Ákvæði 2. mgr. 7. gr. miðar að því að liðka fyrir því að fundargerðir ráðsfunda megi birta á vef ráðsins sem drög, enda þótt þær hafi ekki verið formlega samþykktar á næsta fundi.
Til nánari upplýsingar um ákvæði 9. gr. lætur formaður starfsreglnanefndar þess getið að samkvæmt fyrirliggjandi drögum að starfsskipulagi er reiknað með opnum nefndafundum einu sinni í viku.
Í 10. gr. er að sjálfsögðu miðað við að erindi séu skrifleg, helst send með rafrænum hætti oggert ráð fyrir slíku á vef ráðsins. Einnig er þó tekið við erindum bréflega.
Í 1. mgr. 11. gr. er ekki reiknað með að umræður á ráðsfundum séu skrifaðar upp fyrr en frumvarp til stjórnarskipunarlaga er til umfjöllunar. En þegar þar er komið sögu er um að ræða lögskýringargögn sem æskilegt er að eiga í textaformi.
Í 14. gr. er fjallað um undirbúningsferli frumvarps til stjórnarskipunarlaga. Þar er hugmyndin að nota svokallaða ítrunaraðferð, þar sem smám saman verða til drög að frumvarpi, ófullkomin í fyrstu en ítarlegri og betur slípuð eftir því sem starfinu vindur fram. Hver ítrunarhringur er ein vika og eru uppfærslur á svokölluðu áfangaskjali afgreiddar á ráðsfundi einu sinni í viku, væntanlega á fimmtudögum. Með uppfærslum er átt við að bæta við nýjum texta, fella burt texta, breyta honum eða bæta nýjum valkosti við greinar eða kafla sem fyrirvar.
Áfangaskjalið er birt á vef ráðsins og öllum opið til lestrar og til að rita athugasemdir. Það er þannig síkvikt og gefur innsýn í stöðu vinnunnar hverju sinni. Jafnframt gefst þjóðinni tækifæri til að fylgjast með og koma athugasemdum og tillögum á framfæri á vef ráðsins jafnóðum í undirbúningsferlinu. Stjórn ráðsins, nefndir og ráðsfulltrúar geta lagt fram tillögurum breytingar á áfangaskjalinu. Reiknað er með að efnislegum tillögum frá fulltrúum sé í flestum tilvikum vísað til umfjöllunar nefndar, en það er vitaskuld ákvörðun ráðsins hverju sinni.
Samkvæmt 15. gr. ákveður stjórn ráðsins hvenær undirbúningsferli lýkur og leggur þá fyrir ráðsfund drög að frumvarpi til fyrri umræðu. Fyrri umræðu er skipt eftir efnisþáttum, en þar er miðað við að breytingartillögum sem fram kunna að koma sé vísað til nefnda til umfjöllunar milli umræðna. Í seinni umræðu er fjallað um hverja grein frumvarpsins fyrir sig og afgreiddar breytingartillögur. Það ber að hafa í huga að texti fyrri og seinni umræðu um frumvarp til stjórnarskipunarlaga verður skrifaður upp og mun geta þjónað sem lögskýringargagn að vinnunni lokinni, verði frumvarpið að lögum. Formaður starfsreglnanefndar vekur athygli á því að í tillögunni er gert ráð fyrir að minnihluti, þ.e. 8 ráðsfulltrúar, geti með stuðningi sínum orðið til þess að í frumvarpinu verði settur fram valkostur um einstakar greinar eða kafla, sem yrði þá eftir atvikum borinn undir þjóð eða þing og þar með ákveðið hvort valkosturinn skuli koma í stað meginákvæðis, greinar eða kafla.
Með orðalaginu málsmeðferð í 16. gr. er til dæmis átt við að frumvarpið yrði lagt fyrir þjóðina í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, hugsanlega með valkostum, áður en Alþingi tekur það tilefnislegrar umfjöllunar.
Að lokinni framsögu lagði formaður starfsreglnanefndar tillöguna fyrir ráðið.
2.2 Umræður
Formaður Stjórnlagaráðs opnaði fyrir umræður um tillöguna í heild sinni. Vildu fulltrúar gera breytingartillögur væri óskað eftir því að viðkomandi fylgdi henni úr hlaði með nokkrum orðum og legði hana að auki fram skriflega. Kæmu fram breytingartillögur væri gert ráð fyrirað þeim yrði safnað saman og almennum umræðum lokið um reglurnar í heild. Síðan yrðu breytingartillögur teknar fyrir í sömu röð og þær greinar sem tillögurnar vörðuðu. Þá yrði orðið gefið laust um viðkomandi breytingartillögu, hún afgreidd og breyttist þá viðkomandi grein eða ekki. Loks yrði skjalið borið upp í heild sinni. Formaður spurði hvort einhver mælti þessari aðferð í mót? Svo var ekki og orðið var gefið laust.
Eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Gísli Tryggvason, Þorkell Helgason og Ómar ÞorfinnurRagnarsson.
Formaður ítrekaði að breytingartillögur þyrftu að koma fram skriflega.
Eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Katrín Fjeldsted, Þórhildur Þorleifsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Eiríkur Bergmann Einarsson, Lýður Árnason, Vilhjálmur Þorsteinsson, GísliTryggvason, Silja Bára Ómarsdóttir, Guðmundur Gunnarsson, Þorkell Helgason, Þórhildur Þorleifsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Freyja Haraldsdóttir, Örn Bárður Jónsson, Erlingur Sigurðarson, Dögg Harðardóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Ómar Þorfinnur Ragnarsson og Illugi Jökulsson.
Formaður gerði stutt hlé til að fara yfir fram komnar breytingartillögur og bar þær upp að því loknu.
2.3 Breytingartillögur við aðfaraorð
Þrjár tillögur bárust. Þær voru allar bornar upp, orðið gefið laust og loks greidd atkvæði. Umvar að ræða eftirfarandi tillögur:
I. Flutningsmaður: Þórhildur Þorleifsdóttir
- 3. mgr. aðfaraorða hljóði svo: „...þar sem jafnréttis er gætt í hvívetna."
II. Flutningsmaður: Erlingur Sigurðarson
- Orðið „kynja" falli niður í 3. mgr. aðfaraorða.
III. Flutningsmaður: Eiríkur Bergmann Einarsson
- 3. mgr. aðfaraorða hljóði svo: „...þar sem jafnréttis kynja og þjóðfélagshópa ergætt í hvívetna."
Formaður gaf orðið laust um tillögurnar og eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Silja BáraÓmarsdóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Gísli Tryggvason, FreyjaHaraldsdóttir, Dögg Harðardóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir.
Tillögur I og II voru efnislega samhljóða og Erlingur dró því sína tillögu til baka. Tillaga I gekk lengra en tillaga III og því borin undir atkvæði fyrst.
Formaður bar breytingartillögu I upp til atkvæðagreiðslu:
Samþykkir: 12
Á móti: 4
Tillagan var samþykkt og tillaga III féll því niður.
2.4 Breytingartillaga við 3. gr. og síðari greinar til samræmis
Ein tillaga barst. Hún var borin upp, orðið gefið laust og loks greidd atkvæði. Um var að ræða eftirfarandi tillögu:
Flutningsmaður: Eiríkur Bergmann Einarsson
- Í stað þess að tala um „stjórn Stjórnlagaráðs" verði hér og annars staðar talaðum „verkstjórn Stjórnlagaráðs".
Formaður gaf orðið laust um tillöguna og eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Erlingur Sigurðarson, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Vilhjálmur Þorsteinsson og Örn Bárður Jónsson.
Flutningsmaður dró tillöguna til baka, en lét bóka þá ósk sína að litið yrði svo á að stjórn Stjórnlagaráðs væri í eðli sínu verkstjórn.
2.5 Breytingartillaga við 10. gr.
Ein tillaga barst. Hún var borin upp, orðið gefið laust og loks greidd atkvæði. Um var að ræða eftirfarandi tillögu:
Flutningsmaður: Katrín Fjeldsted
- 2. mgr. 10. greinar hljóði svo: „Stjórnin getur sett reglur um þessi atriði."
Formaður gaf orðið laust um tillöguna og eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Þorkell Helgason og Dögg Harðardóttir.
Formaður bar breytingartillöguna upp til atkvæðagreiðslu:
Samþykkir: 13
Á móti: 1
Tillagan var því samþykkt.
2.6 Breytingartillögur við 15. gr.
Tvær tillögur bárust, þær voru bornar upp, orðið gefið laust og loks greidd atkvæði. Um var að ræða eftirfarandi tillögur:
I. Flutningsmenn: Þorkell Helgason, Eiríkur Bergmann Einarsson, Lýður Árnason og Þórhildur Þorleifsdóttir
- 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. falli brott.
II. Flutningsmenn: Gísli Tryggvason og Ómar Þorfinnur Ragnarsson
- 4. málsl. 3. mgr. 15. gr. hljóði svo: „Í frumvarpinu geta jafnframt veriðvalkostir um einstaka greinar eða kafla, enda njóti valkostur stuðnings níu ráðsfulltrúa hið minnsta og um sé að ræða afmarkað mál sem raskar ekki samhengi annarra þátta stjórnarskipunarlaganna."
Formaður gaf orðið laust um tillögurnar og eftirtaldir fulltrúar tóku til máls: Þorkell Helgason,Eiríkur Bergmann Einarsson, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Gísli Tryggvason, VilhjálmurÞorsteinsson og Lýður Árnason.
Tillaga I gekk lengra og því borin undir atkvæði fyrst.
Formaður bar breytingartillöguna upp til atkvæðagreiðslu:
Samþykkt: 12
Á móti: 4
Tillagan var samþykkt og því féll tillaga II niður.
2.7 Atkvæðagreiðsla um skjalið í heild sinni
Formaður bar skjalið í heild sinni undir atkvæðagreiðslu, nánar tiltekið upphaflega tillögu að starfsreglum með áorðnum breytingum. Skjalið var samþykkt samhljóða.
3. Skipan nefndar um skiptingu málefna á milli verkefnanefnda
Formaður lagði til að eftirfarandi fulltrúar yrðu skipaðir í nefnd um skiptingu málefna á milli verkefnanefnda, og að undir verkefni hennar félli umfjöllun um svokallað grunnskjal, við vinnslu frumvarps til stjórnarskipunarlaga:
Arnfríður Guðmundsdóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Freyja Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek og Þorkell Helgason
Formaður lýsti eftir tillögum um breytingar eða viðbætur við framangreint. Engar slíkar komu fram. Tillagan var samþykkt.
4. Næsti fundur
Fundarstjóri gerði grein fyrir því að næsti fundur Stjórnlagaráðs yrði haldinn næsta dag, fimmtudaginn 14. apríl, kl. 13.00.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 12.10.
Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.