2. ráðsfundur

07.04.2011 15:00

Dagskrá:
  1. Tillaga að 1. gr. starfsreglna
  2. Kosning formanns Stjórnlagaráðs
  3. Kosning varaformanns Stjórnlagaráðs

Fundargerð

Mættir voru eftirtaldir fulltrúar: Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson, ÍrisLind Sæmundsdóttir, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar ÞorfinnurRagnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson.

Forföll hafði boðað: Andrés Magnússon.

Þá sat fundinn Þorsteinn Fr. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Stjórnlagaráðs.

Fundurinn var opinn fyrir gesti og sýndur í beinni útsendingu á vefnum stjornlagarad.is.

Aldursforseti boðaði til fundarins með tölvupósti og dagskrá var í samræmi við fundarboð.

1. Setning fundar

Aldursforseti, Ómar Ragnarsson, setti fundinn og stýrði honum.

2. Tillaga að 1. gr. starfsreglna

Ráðsfulltrúum hafði verið send tillaga starfsreglna nefndar að 1. gr. starfsreglna Stjórnlagaráðs og þeim gefinn kostur á að tjá sig. Engar athugasemdir bárust. Meginefni ákvæðisins varðar kosningu formanns og varaformanns.

Aldursforseti las upp tillöguna og bar hana síðan upp. Hún var samþykkt með handauppréttingu, án mótatkvæða.

3. Kosning formanns

Aldursforseti las upp nöfn þeirra ráðsmanna sem fengið höfðu tilnefningu til formannsráðsins, en þau voru: Katrín Fjeldsted, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Salvör Nordal, Silja BáraÓmarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason og ÞórhildurÞorleifsdóttir.

Aldursforseti var sjálfur meðal tilnefndra og vék úr sæti fundarstjóra. Hann afhenti stjórn fundarins, með leyfi ráðsins, til framkvæmdastjóra Stjórnlagaráðs, Þorsteins Fr. Sigurðssonar, sem stýrði kjöri formanns.
Fundarstjóri fór að nýju yfir tilnefningar sem fram voru komnar og óskaði að svo búnu eftir frekari tilnefningum. Engar slíkar komu fram og var gengið til kosninga um framangreinda einstaklinga. Að atkvæðagreiðslu lokinni var gert hlé á fundinum á meðan nefndaritarar og aðallögfræðingur ráðsins fóru í talningaherbergi með kjörkassa og töldu atkvæði.

Að hléi loknu tilkynnti fundarstjóri að kjósa þyrfti í annarri umferð á milli þeirra efstu. Erlingur Sigurðarson gerði athugasemd og vildi að tölur yrðu birtar um kosninguna. Fundarstjóri bar upp tillögu um að allar tölur yrðu birtar að kosningum loknum. Það var samþykkt með 11 atkvæðum gegn 6.

Fundarstjóri tilkynnti að flest atkvæði hefðu fengið Salvör Nordal og Þorvaldur Gylfason. Önnur umferð formannskjörs hófst og að atkvæðagreiðslu lokinni var gert hlé á meðan nefndaritarar og aðallögfræðingur ráðsins fóru í talningaherbergi með kjörkassa og töldu atkvæði.

Að hléi loknu tilkynnti fundarstjóri að Salvör Nordal væri rétt kjörin formaður Stjórnlagaráðsog tók hún við fundarstjórn.

Formaður flutti stutt ávarp, þakkaði traustið og talaði um mikilvægi þátttöku og virkni almennings á opinberum vettvangi.

4. Kosning varaformanns

Formaður stýrði kjöri varaformanns af gagnstæðu kyni, sbr. 1. gr. starfsreglna ráðsins. Dreift var atkvæðaseðlum og lista með nöfnum þeirra ráðsmanna sem höfðu fengið tilnefningu til varaformanns. Þeir voru eftirtaldir: Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Vilhjálmur Þorsteinsson,Þorkell Helgason og Þorvaldur Gylfason.

Formaður óskaði að svo búnu eftir frekari tilnefningum og Gísli Tryggvason tilnefndi Ara Teitsson.

Gengið var til kosninga og hlé gert á fundi á meðan nefndaritarar og aðallögfræðingur ráðsins fóru í talningaherbergi með kjörkassa og töldu atkvæði.

Að hléi loknu var tilkynnt að flest atkvæði hefðu fengið Ari Teitsson og Þorvaldur Gylfason. Kjósa þyrfti í annarri umferð á milli þeirra tveggja.

Önnur umferð varaformannskjörs hófst og að atkvæðagreiðslu lokinni var gert fundarhlé á meðan nefndaritarar og aðallögfræðingur ráðsins fóru í talningaherbergi með kjörkassa og töldu atkvæði.

Að hléi loknu tilkynnti fundarstjóri að Ari Teitsson væri rétt kjörinn varaformaður Stjórnlagaráðs. Varaformaður flutti stutt ávarp, þakkaði traustið og hvatti ráðsmenn til samvinnu.

5. Atkvæðatölur

Sif Guðjónsdóttir, aðallögfræðingur Stjórnlagaráðs, gerði grein fyrir niðurstöðum talningar í kosningum til formanns og varaformanns Stjórnlagaráðs.

Atkvæði í fyrri umferð formannskjörs féllu svo: Salvör 7, Þorvaldur 5, Ómar 4, Katrín 2, Vilhjálmur 2, Þorkell 2 og Þórhildur 2.

Atkvæði í seinni umferð formannskjörs féllu svo: Salvör 15 og Þorvaldur 9.

Atkvæði í fyrri umferð varaformannskjörs féllu svo: Þorvaldur 9, Ari 5, Ómar 3, Vilhjálmur 3 og Þorkell 2. Auðir seðlar 2.

Atkvæði í seinni umferð varaformannskjörs féllu svo: Ari 13 og Þorvaldur 10. Auður seðill 1.

6. Næsti fundur

Formaður gerði grein fyrir því að næsti fundur Stjórnlagaráðs yrði haldinn í næstu viku og til hans boðað síðar.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.00.

Fundargerð ritaði Sif Guðjónsdóttir.