Hverjir fara með ríkisvald? Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald

Löggjafarvald - Alþingi

Alþingi er sú stofnun íslensku þjóðarinnar sem á sér dýpstar rætur í sögu hennar og sjálfstæðisbaráttu. Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930, og markar sá atburður upphaf þjóðríkis á Íslandi. Þingmenn Alþingis eru 63 að tölu, kosnir leynilegum hlutbundnum kosningum til fjögurra ára samkvæmt núverandi stjórnskipun, sbr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeim ástæðum má segja, að lög séu sett með lýðræðislegum hætti, en hugtakið lýðræði felur í sér, að þjóðin kýs þingið, sem og handhafa framkvæmdarvalds, og veittir hún sitt umboð til starfans. Í stuttu máli má segja, að Alþingi sé því samkoma þjóðkjörinna fulltrúa sem fer með stærstan þátt ríkisvaldsins og er æðsti handhafi ríkisvalds.

Alþingi er fyrst og fremst löggjafarsamkoma. Í 2. gr. stjórnarskrárinnar segir að Alþingi fari með löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands. Af öðrum stjórnarskrárákvæðum leiðir, að Alþingi er aðalhandhafi lagasetningarvalds. Með löggjöf eru lagður grundvöllur að stjórnsýslu landsins og dómgæslu og lagasetning því ákveðin undirstaða annarra þátta ríkisvaldsins. Alþingi er því æðsti handhafi ríkisvaldsins. Ekki aðeins vegna þess, að lagasetning er á valdi þingsins heldur ennfremur af þeim sökum, að Alþingi á mikil ítök í framkvæmdarvaldinu. Helgast það af þingræðisreglunni, þar sem meirihluti Alþingis ræður hverjir skipa ríkisstjórn, sökum þess að fjárstjórnarvald er í höndum þess og Alþingi kýs ýmsar stjórnarnefndir, svo að dæmi séu tekin. Þá hefur Alþingi eftirlitsskyldu vegna embættisbrota ráðherra, hefur rétt til að kjósa rannsóknarnefndir og heimild til að óska upplýsinga um málefni sem heyra undir ráðherra í formi fyrirspurna og skýrslna, en allt framangreint eru stjórnarskrárbundin hlutverk þingsins.

Um önnur hlutverk Alþingis samkvæmt núverandi stjórnskipulagi má nefna, að þingið hefur með höndum fjárveitingarvald og skattlagningarrétt sbr. 40. gr., 41. gr. og 42. gr. stjórnarskrárinnar. Atbeina Alþingis er jafnframt þörf til tiltekinna samninga ríkisstjórnar, t.d. milliríkjasamninga, ef þeir hafa í för með sér afsal eða kvaðir á landið eða horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins sbr. 21. gr. stjórnarskrárinnar. Þá skal sérstök stofnun, Ríkisendurskoðun, skoða fjárreiður stofnana ríkisins svo sem nánar er mælt fyrir um í lögum. Sú stofnun styrkir eftirlitsvald þingsins með framkvæmdarvaldinu. Í því sambandi ber auk þess að nefna embætti Umboðsmanns Alþingis, en með tilkomu þess var eftirlitshlutverkið aukið enn frekar. Þingið kýs umboðsmann og hefur hann eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þó að ákvarðanir hans og álit séu eigi bindandi, gegnir hann óumdeilanlega mikilvægu hlutverki við gæðaeftirlit innan stjórnsýslunnar.

Framkvæmdarvaldið - forseti Íslands og ráðherrar

Skipulag framkvæmdarvaldsins - sjálft stjórnkerfið - byggist á stjórnarskránni að því er forseta og ráðherra varðar en að öðru leyti fer það eftir almennum lögum á hverjum tíma. Forseti og ríkisstjórn fara með yfirstjórn allra stjórnarmálefna ríksins sem er að miklu leyti til kveðið á um í stjórnarskránni. Framkvæmdarvaldinu er svo skipt í marga málaflokka t.d. lögreglu og löggæslu, fjárstjórnarsýslu, heilbrigðissýslu og þar fram eftir götunum. Framkvæmdarvald er ýmist á vegum ríkisins sjálfs eða hjá öðrum greinum ríkisvaldsins en af þeim skipta sveitarfélög mestu máli.

Forseti Íslands

Forseti Íslands er þjóðhöfðingi íslenska ríkisins. En samkvæmt stjórnarskránni er hann ekki aðeins þjóðhöfðingi heldur jafnframt æðsti embættismaður ríkisins. Þegar stjórnarskráin er lesin myndi lesandi allajafna halda að forsetinn væri mjög valdamikill. Forseti er enda æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins og annar aðili löggjafarvaldsins. Af öðrum stjórnarskrárákvæðum og í raun stjórnarvenjum hér á landi leiðir að vald forseta er oftast nær lítið. Hefur verið litið svo á að vald forseta sé mjög lítið og þáttaka hans í löggjöf og stjórnarframkvæmdum aðeins sé aðeins formsatriði.

Mikið þrætuepli var uppi í þjóðfélaginu, í kjölfar þess að forseti synjaði lagafrumvarpi staðfestingar sumarið 2004, hvort hann hefði alfarið heimild til þess samkvæmt stjórnskipan okkar þ.e. að synja lagafrumvarpi staðfestingar og skotið ákvörðunartöku um gildi þess til þjóðaratkvæðis skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar. Hvað sem þeim ágreiningi líður beitti forseti heimild sinni í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins sumar 2004, þar sem hann neitaði að staðfesta stjórnarfrumvarp um eignarhald á fjölmiðlum eða fjölmiðlafrumvarpið svokallaða. Þá fór reyndar ekki fram þjóðaratkvæðagreiðsla svo sem mælt er fyrir um í stjórnarskránni, en lögin felld niður af hálfu ríkisstjórnarinnar. Í kjölfar þess að forsetinn beitti heimildinni má segja að nokkurs konar stjórnskipuleg kreppa skapaðist í þjóðfélaginu og alvarleg togstreita varð á milli ríkisstjórnar og forseta. Forseti beitti á ný heimild 26. gr. stjórnarskrárinnar á nýársdögum 2010, þegar hann neitaði að staðfesta stjórnarlagafrumvarpi um ríkisábyrgð á lánum hjá Tryggingarsjóði til að standa skil á greiðslum til innistæðueiganda Landsbankans hf. eða ICESAVE frumvarpinu svokallaða. Í kjölfarið var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla þann 6. mars 2010 þar sem þjóðin hafnaði lögunum, svo sem sögufrægt er. Ljóst er að þessar ákvarðanir forseta hafa leitt til gríðarlegrar umræðu um stöðu forsetans í stjórnskipaninni og umræðan langt frá því að vera á einn veg. Ljóst er hins vegar að staða forsetans og störf hin helstu eru ákveðin í stjórnarskránni og þeim verður ekki breytt með almennum lögum heldur þarf stjórnarskrárbreytingar til.

Ráðherrar

Ráðherrar eru að jafnaði æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins, stjórnsýslu íslenska ríkisins. Af lestur núverandi stjórnarskrár má sjá að landinu verður ekki löglega stjórnað nema einhverjir ráðherrar séu í embætti og gegni stjórnarstörfum. Af fyrirmælum stjórnarskrárinnar leiðir að ráðherrar framkvæmi vald forseta og að ráðherrar beri ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum sbr. 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar, svo dæmi séu tekin. Þannig eru þeir raunverulegir handhafar valds þess sem forseta er falið í stjórnarskránni. Forseta ber að skipa ráðherra í ríkisstjórn en í raun er það Alþingi í skjóli þingræðisreglunnar sem ákveður hverjir gegni því embætti, það er þeir flokkar sem skipa meirihlutastjórn á Alþingi. Sama gildir um fjölda ráðherra og að skiptinu á störfum eða ráðuneytum. Ráðherrar eru oftar en ekki skipaðir úr hópi þingmanna en það er þó ekki stjórnarskrárbundin regla, heimilt er að skipa ráðherra sem er ekki þjóðkjörinn.

Dómsvald

Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með þriðja þátt ríkisvaldsins, dómsvaldið. Hugtakið dómsvald er ekki frekar skýrt í stjórnarskránni og málefnasvið þess því afmarkað af núverandi 2. gr. Samkvæmt hefðbundum skilningi felur dómsvald í sér heimild til að skera úr tilteknu réttarágreiningsefni og kveða á um, hvað sé rétt og lögum samkvæmt í tilteknu máli.

V. kafli stjórnarskrárinnar tekur til dómstóla og er hann nokkuð fáorður. Dómstólar hafa heimild samkvæmt núverandi stjórnarskrá að skera úr um allan ágreining er varða framkvæmdarvaldið, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er það réttarvenja að dómstólar dæma um hvort lög samræmast stjórnarskrá. Eins og áður sagði er stjórnarskráin æðst réttarheimilda sem þýðir að almenn lög mega ekki brjóta í bága við hana. Þá er löggjafinn rangstæður, ef svo má að orði komast. Í Þýskalandi og Frakklandi er að finna sérstaka stjórnlagadómstóla sem hafa það hlutverk að endurskoða stjórnskipulegt gildi laga en hér er ekki slíkum dómstól að dreifa.

Þá er ekki tekið fram í kafla stjórnarskrárinnar að Hæstiréttur sé æðsti dómstóll landsins né fjallað er um skipan dómara, hvorki hæstaréttardómara né héraðsdómara.

 

Til baka í gagnasafn