Mannréttindi

Mannréttindi í íslensku stjórnskipulagi

Einn grunnþátta íslenskrar stjórnskipunar er að mannréttindum borgaranna er veitt sérstök stjónarskrárbundin vernd. Í núgildandi stjórnarskrá eru kaflar VI. og VII. helgaðir mannréttindum. Mannréttindaákvæðin eru því grundvallarreglur um stjórnskipun líkt og önnur ákvæði stjórnarskrárinnar.

Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurskoðaður með stjórnskipunarlögum nr. 97 árið 1995. Sú endurskoðun er sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á stjórnarskránni frá 1944. Fram að árinu 1995 er óhætt að segja að litlu púðri hafi verið eytt í umræðu um mannréttindi. Í því samhengi má nefna að við setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar árið 1944 fór engin efnisleg umræða fram um mannréttindaákvæðin. Tilgangur hennar var fyrst og fremst breyting á stöðu Íslands frá konungsríki til lýðveldis með þingbundinni stjórn og forseta. Þrjú atriði voru höfð að leiðarljósi við endurskoðun mannréttindakaflans, en það var að skerpa hlutverk ákvæðanna til að veita almenningi frekari vörn gegn handhöfum ríkisvalds, að færa ákvæðin í nútímalegra horf og endurskoða þau með hliðsjón af alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins. Þar vóg lögfesting Mannréttindasáttmála Evrópu árið 1994 þyngst.

Upprunalegur tilgangur mannréttindaákvæða í stjórnarskrá var að tryggja mönnum frelsi og vernd fyrir ágangi valdhafanna. Mannréttindi voru því hugsuð til að byrja sem eins konar þáttur í valdmörkum ríkisvaldsins. Á síðustu áratugum hefur efni og inntak mannréttindaákvæða breyst í veigamiklum atriðum og miðast þau ekki jafn afdráttarlaust við þann tilgang að takmarka ágang ríkisins og skilgreina valdmörk þess. Mannréttindaákvæðin leggja nú í auknum mæli skyldur á hendur ríkinu til að tryggja tiltekin réttindi með sérstökum ráðstöfunum og búa borgurunum lífsskilyrði af tilteknum gæðum. Helst þetta í hendur við samfélagsþróun sem og þróun mannréttinda á alþjóðavettvangi.

Markmið mannréttinda er að tryggja einstaklingnum ákveðna velsæld og viðunandi lífsskilyrði hverju sinni. Þannig kann inntak mannréttinda að breytast með breyttum þjóðfélagsháttum og hugarstefnum, þ.a.l hvað telst viðunandi í samfélaginu hverju sinni. Í íslenskum rétti eru mannréttindi nú skilgreind sem tiltekin grundvallarréttindi hverrar manneskju, óháð þjóðerni, kyni, trú og skoðunum. Samkvæmt framangreindu nær réttarvernd mannréttinda til allra einstaklinga samfélagsins og um leið afmarkast mannréttindi af jafnræði borgaranna.

Uppruni og þróun mannréttinda

Hugmyndafræðilegur grundvöllur mannréttinda byggir á tilvist ákveðinna grunngilda sem séu til án þess að þau sé að finna í stjórnarskrá eða almennum lögum. Þannig eru þau ekki veitt með lögum og verða ekki ráðin af lagalegum skilgreiningum heldur byggja á siðferðislegum kröfum til réttarkerfisins. Þetta er á lagamáli nátengt náttúrurétti.

Náttúruréttarkenningar höfðu rík áhrif á setningu stjórnarskrárákvæða um mannréttindi. Blómaskeið þeirra var á 17. og 18. öld og birtust meðal annars í skrifum enska stjórnmálaheimspekingsins John Locke á síðari hluta 17. aldar. Í meginatriðum byggðust þær á þeirri skoðun að mönnum væri samkvæmt náttúrulegu eðli ásköpuð viss réttindi og frelsi sem valdhafar ríkisins mættu aldrei skerða. Það má því segja að viss tengsl séu á milli mannréttindakenninga og lýðræðisins, en bæði gera ráð fyrir að allt vald handhafa ríkisvalds sé sprottið frá borgurunum.

Markmið mannréttindaákvæða er sporna við geðþóttaákvörðun ríkisvaldsins við beitingu valds, standa vörð um réttindi einstaklinga og tryggja athafnafrelsi þeirra. Það eru því fyrst og fremst handhafar ríkisvalds sem eru bundnir af mannréttindareglum þó að telja verði að krafa sé ennfremur um það að borgararnir virði mannréttindi hvers annars. Þannig ber ríkinu að tryggja hagsmuni borgaranna með því að setja reglur um samskipti þeirra og vernda fyrir ágangi hvers annars. Mannréttindaákvæðin hafa því áhrif á lagasetningu á flestum sviðum réttarins því  samkvæmt stjórnarskránni ber löggjafanum að athafna sig innan marka hennar við setningu löggjafar.

Oft eru nefnd fyrsta, önnur og þriðja kynslóð mannréttinda. Fyrstu kynslóð mannréttinda má rekja til ofangreindra hugmynda um að hver einstaklingur hefði tilkall til jafnræðis og frelsis sem ríkisvaldið mætti ekki skerða. Hugmyndasmiðir og ötulir talsmenn slíkra réttinda voru þeir sem aðhylltust frjálshyggju, svo sem John Locke, Adam Smith og John Stuart Mill. Útgangspunkturinn var rétturinn til lífs, frelsis og friðhelgi í ljósi sögulegrar þróunar og sérstaklega var horft til friðhelgi eignarréttarins. Á þessum tímum voru nánast öll ríki undir oki konungsvalds og pólitísk krafa borgaranna um lýðræði stóð sem hæst. Bandaríkjamenn settu fyrstu skáðu stjórnarskrána árið 1787 og bættu við sérstakri mannréttindaskrá árið 1791, þar sem ýmis mannréttindi voru nánar útfærð í tíu viðaukum við stjórnarskrána. Eftir frönsku byltinguna settu Frakkar fram mannréttindayfirlýsingu árið 1789 sem hafði að geyma borgaraleg- og stjórnmálalega réttindi. Slík réttindi eru t.d. tjáningarfrelsið, friðhelgi einkalífs og fundafrelsi, stundum skilgrein sem neikvæð réttindi sem miða að því að ríkið haldi að sér höndum og virði rétt einstaklingsins til ákveðinna athafna.

Önnur kynslóð mannréttinda leit svo dagsins ljós þegar upp kom gagnrýni á fyrstu kynslóð mannréttinda m.a. vegna áherslu frjálshyggjumanna á tilvist hins frjálsa markaðar. Þegar talað er um að aðra kynslóð mannréttinda er því átt við efnahags- og félagsleg mannréttindi. Það felur í sér að félagsleg réttindi allra í samfélaginu skuli tryggð. Til að mynda má nefna rétt til menntunar og lágmarksframfærslu.  Eru þau jafnframt skilgreind sem jákvæð réttindi og fela í sér að ríkið grípi til einhvers konar aðgerða, til að tryggja þá aðstoð sem þau mæla fyrir um.  

Mannréttindasáttmáli Evrópu

Mannréttindasáttmáli Evrópu var samþykktur af Evrópuráðinu árið 1950 og Íslendingar urðu aðilar að honum 29. júní 1953. Réttindin sem sáttmálin verndar eru flest borgara og stjórnmálalegs eðlis. Með honum skuldbinda aðilarríki sig til að haga löggjöf, stjórn- og dómsýslu sinni þannig að þau réttindi sem hann mælir fyrir um séu virt, sbr. 1. gr. sáttmálans. Með tilkomu sáttmálans var ennfremur settur á fót dómstóll, Mannréttindadómstóll Evórpu sem hefur eftirlit með því að aðildarríki sinni skyldum sínum gagnvart sáttmálanum.

Mannréttindasáttmáli Evrópu, MSE, hefur haft mikil áhrif á íslenskan rétt sem og rétt annarra aðildaríki hans. Það má meðal annars rekja til þess að eftirlitskerfi dómstólsins við að gæta þess að réttindum sé fylgt innan ríkjanna hefur verið afar virkt. Þá hefur ríkt breið pólitísk samstaða á meðal aðildarríkjanna við að fylgja dómaframkvæmd dómstólsins. Mannréttindasáttmálinn var lögfestur hér árið 1994, með lögum nr. 62/1994, og hafa ýmsir fræðimenn talið að ákvæði hans feli í sér nokkurs konar stjórnarskrárígildi, með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar sem hefur gefið tilefni til slíkra ályktana. Ljóst er að við samningu nýs mannréttindakafla í stjórnarskrána árið 1995 var litið til ákvæða Mannréttindasáttmálans, svo sem kemur fram í lögskýringargögnum með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995.

Til baka í gagnasafn