Undirstöður og megineinkenni íslenskrar stjórnskipunar

Frelsi og sjálfstæði - sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar

Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki. Það felur í sér, að landið er stjórnarfarslega sjálfstætt, fer með æðstu stjórn eigin málefna og sækir vald sitt ekki til neinna æðri stofnanna. Ísland er frjálst og sjálfstætt í þeim skilningi, að landið er óháð valdamönnum annarra ríkja og fer ekki með sjálfstjórn sína í skjóli eða umboði þeirra. Þá hefur íslenska þjóðin sjálfsákvörðunarrétt.

Það hafa löngum verið skiptar skoðanir um, hvar ríkisvaldið eigi eiginlega upptök sín, hver sé frumuppspretta þess. Konungar töldu áður fyrr, að vald sitt væri komið frá guði, en gagnstætt því er sú kenning, að frumuppspretta ríkisvaldsins sé hjá þjóðinni. Hún var sett fram í heimspekiritum á 18. öld og kom skýrast fram í riti Rousseau „Samfélagssáttmálinn" (f. Contrat social) sem kom út árið 1762. Inntak þess er, að allt þjóðfélagsvald eigi rætur sínar hjá þjóðinni.

Þessi afstaða endurspeglast í íslenskri stjórnskipan einna helst vegna þess, að stjórnarskrárgjafinn, eða sá sem setur stjórnarskránna, er þjóðin. Samkvæmt núverandi stjórnarskrá er auk þess skylda að bera tiltekin löggjafarmálefni undir þjóðina með þjóðaratkvæðagreiðslu t.d um lausn forseta frá embætti sbr. 11. gr., breytingar á stjórnarskránni sbr. 2. mgr. 79. gr. og samkvæmt 26. gr. sem gerir ráð fyrir að forseti geti með neitun sinni á staðfestingu laga skotið frambúðargildi þeirra til þjóðaratkvæðis. Í byrjun þessa árs fór í fyrsta skipti fram þjóðaratkvæðagreiðsla á grundvelli 26. gr. stjórnarskrárinnar svo sem frægt er orðið. Forseti synjaði staðfestingu á lögum er mæltu fyrir um ríkisábyrgð vegna hinna svokölluðu ICESAVE skuldbindinga Landsbankans og þjóðin felldi lögin úr gildi í kjölfarið í þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Lýðveldisstjórnarform

Ísland fékk sjálfstæði sitt árið 1944 þegar slitið var sambandi við Danakonung og ný stjórnarskrá tók gildi. Um stjórnarform ríkisins segir í 1. gr. stjórnarskrárinnar lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 (stjórnarskrá) að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Í lýðveldi felst, að æðsti maður ríkisins, þjóðhöfðinginn, hér forseti, er kjörinn af almenningi með beinum eða óbeinum kosningum. Þá fer þjóðþing í lýðveldisríkjum með löggjafarvald eða er a.m.k. aðalhandhafi þess.

Hér á landi fara Alþingi og forseti með löggjafarvaldið sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar. Í reynd er þó lagasetningarvaldið og fjárstjórnarvald að öllu leyti í höndum þjóðþingsins og það ræður mestu um stjórnarstefnu og stjórnarframkvæmdir. Lýðræðisstjórnarhættir geta því ríkt í konungsríkjum jafnt og lýðveldisríkjum, en stjórnarformið ræður ekki úrslitum um, hvort þjóð býr við lýðræði eða ekki.

Hvað er lýðræði?

Lýðræði er víðfeðmt hugtak, en grunnhugsjónin með því er, að vald í tilteknu samfélagi manna spretti frá fólkinu. Fulltrúalýðræðið er algengasta form lýðræðis í samfélögum nútímans, en þar eru valdhafar kosnir til fyrirfram ákveðins tíma og hafa því umboð almennings til að taka ákvarðanir um sameiginlega hagsmuni. Þingmenn hér á landi eru því fulltrúar fólksins, og er þeim falið er að setja lög í landinu. Með beinu lýðræði er átt við, að þjóðin fá að taka beina og milliliðalausa afstöðu til tiltekinna mála sem varða hagsmuni hennar. Ljóst er að ekkert samfélag getur byggst á skipulagi þar sem þjóðin öll þarf að taka beina afstöðu til allra málefna, stórra sem smárra. Hins vegar þykir eðlilegt, að þjóðin ráði ákveðnum mikilvægum málum til lykta þjóðaratkvæðagreiðslum þegar tilefni er.

Íslensk stjórnskipun er lýðræðisleg. Þjóðin, eða sá hluti hennar sem fullnægir tilteknum skilyrðum um kosningarrétt, kýs æðstu valdhafa þjóðfélagsins eða þá sem fara með löggjafarvald, ráðherrarnir sem fara með framkvæmdarvald sitja aðeins ef meirihluti þingsins samþykkir, og loks er forseti Íslands þjóðkjörinn. Kosningar eru leynilegar og ríkisstjórnin lýtur eftirliti Alþingis. Handhöfum framkvæmdarvalds ber auk þess að fara eftir lögum og eru bundnir af þeim. Almenningi eru tryggð ákveðin grundvallar mannréttindi á borð við jafnræði fyrir lögum, réttlát málsmeðferð, friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsi, félagafrelsi, réttur til félagslegrar aðstoðar o.fl. Auk þess eru dómstólar sjálfstæðir og eiga einungis að dæma eftir lögum, en eru ekki bundnir við nein fyrirmæli af hálfu framkvæmdarvalds.

Hafa verður í huga, að lýðræði og þingræði má ekki blanda saman. Lýðræði getur vel átt sér stað án þingræðis og má sem dæmi nefna, að í Bandaríkjunum er t.d. lýðræði en ekki þingræði.

Hvað er þingræði?

Í þingræðishugtakinu felst að þeir einir geti setið í ríkisstjórn sem meirihluti þjóðþings vill vill styðja eða a.m.k þola í embætti. Með slíkri þingstjórn, eins og við búum við hér á landi, er þinginu óumdeilanlega veitt mjög sterk aðstaða til áhrifa á stjórnarstefnu og framkvæmdir ríkisstjórnar. Það er þó ekki talið hafa í för með sér alræði þingsins.

Í stjórnarskránni er ekki tekið fram beint orðið "þingræði" heldur er þingræðisreglunni veitt stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þegar litið er til þessa orðalags og rótgróinna réttarhugmynda hér á landi, má telja, að þingræðið sé eitt af höfuðeinkennum íslenskrar stjórnskipunar.

Í þessu samhengi má nefna, að þingræðisregluna er ekki heldur að finna berum orðum í stjórnarskrá Norðmanna frekar en í stjórnarskrá okkar, þó svo að hún sé einn af hornsteinum stjórnskipulags þar í landi.

Til baka í gagnasafn