Fyrirkomulag kosninga til Alþingis - Eru kjördæmi fyrir kjósendur eða frambjóðendur?
Guðmundur Ágúst Sæmundsson
- Heimilisfang: Bólstaðarhlíð 64, 105 Reykjavík
- Skráð: 14.07.2011 18:24
Fyrirkomulag kosninga til Alþingis
Þó að langt sé liðið á starfstíma Stjórnlagaráðsins - sem vissulega er allt of stuttur - þá sýnist mér að ákvæðið um fyrirkomulag kosninga til Alþingis sé ekki orðið niðurnjörvað.
Ég sendi áður á ykkur tillögu um hvernig mætti kjósa á landsvísu en samt taka tillit til kjördæma. Hún var hluti af fyrsta erindi mínu, með þeim útskýringum sem þar voru gefnar (sjá http://www.hugveitan.is). Ég veit ekki hversu mikla skoðun sú tillaga fékk en ég hef allavega ákveðið að setja hana fram hér núna, nánar útfærða, eins og hún gæti komið inn í Áfangaskjal Stjórnlagaráðsins.
Tillagan rúmar ýmsar aðferðir við útreikning á atkvæðisstyrk frambjóðenda, svo sem STV, approval voting og fleira. Hún kveður hins vegar nokkuð skýrt á um hvernig megi taka tillit til kjördæma við úthlutun þingsæta.
Eins og í dæmum sem C-nefnd hefur sett fram er um að ræða kjördæmatryggð sæti en ekki sæti sem eignuð eru kjördæmum. Meginmunurinn er hins vegar sá að í minni tillögu er það val kjósendanna í kjördæminu sem telur en ekki, eins og mér sýnist dæmi C-nefndar opna á, kænska frambjóðenda við val á hvaða kjördæmi þeir bjóða sig fram í.
Sé á annað borð tekið tillit til kjördæma á það að vera val kjósandans í kjördæminu sem telur en ekki val frambjóðenda um hvar þeir bjóða sig fram. Þess vegna geri ég eingöngu ráð fyrir landslista. Sé það undir frambjóðendum komið að velja hvar þeir bjóða sig fram er til dæmis möguleiki fyrir framboð (vegna andófs eða kænsku til dæmis) að fylla á kjördæmakvóta tiltekins kjördæmis með því að bjóða sína öruggustu menn fram í kjördæmi þar sem annars væri líklegt að kjördæmakvótinn hefði áhrif. Eins má fræðilega sjá fyrir sér kjördæmatryggðan þingmann sem hefur lítið sem ekkert fylgi innan þess kjördæmis sem hann bauð sig fram í, og tryggði honum sæti, en mikið fylgi utan þess. Þá er betra, eins og það er í tillögum mínum, að kjördæmakjörinn einstaklingur geti fræðilega séð haft engin augljós tengsl við kjördæmið sem tryggir honum sætið, því það gerist jú aðeins hafi hann hlutfallslega mikinn atkvæðisstyrk frá kjósendum í því tiltekna kjördæmi. Það er val fólksins í kjördæminu sem ber að virða ef kjördæmaskipting er fyrir hendi.
Tillagan er eftirfarandi:
"Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Þau skulu flest vera átta.
Heildarfjöldi kjördæmatryggðra þingsæta má mest vera [1/3] hluti þingsæta.
Samtök frambjóðenda bjóða fram landslista. Kjósendur í öllum kjördæmum hafa úr sama hópi frambjóðenda að velja og geta valið persónur [þvert á lista]. Heimila má í lögum að skipta listum eftir kjördæmum og hefur það eingöngu áhrif á framsetningu kjörseðils.
Sé aðeins eitt kjördæmi er öllum þingsætum úthlutað til frambjóðenda eftir atkvæðisstyrk á landsvísu.
Séu kjördæmi fleiri en eitt fer úthlutun þingsæta þannig fram að fyrst er úthlutað [2/3] hlutum þingsæta og hljóta frambjóðendur þau eftir atkvæðisstyrk á landsvísu. Næst er úthlutað þingsætum eftir atkvæðisstyrk frambjóðenda í kjördæmum. Til greina koma efstu frambjóðendur í hverju kjördæmi - jafn margir og [helmingur] heildarfjölda þingsæta - hafi þeir ekki þegar tekið sæti vegna atkvæðisstyrks á landsvísu. Fjöldi úthlutaðra sæta nemur allt að tölu kjördæmatryggðra þingsæta í hverju kjördæmi. Heimilt er að fleiri en eitt kjördæmi geti tryggt sama frambjóðanda sæti. Þeim þingsætum sem eftir standa er úthlutað eftir atkvæðisstyrks frambjóðenda á landsvísu."
Að lokum:
Ég vil benda á að heildarfjöldi kjördæmatryggðra þingmanna getur verið lægri en samanlagður fjöldi kjördæmatryggðra þingsæta í hverju kjördæmi ef sama frambjóðanda er tryggt sæti af fleiru en einu kjördæmi eða ef ekki tekst að fylla á kjördæmatryggðu sætin úr hópi [32] efstu manna í einu af kjördæmunum eða fleirum - sem sagt ef svo margir þeirra eru komnir inn þá þegar á landsvísu og því engir eftir sem mæta skilyrðunum. Þar fyrir utan geta þeir sem fá kjördæmatryggðu sætin verið frambjóðendur sem hvort sem er voru í hópi 63 efstu manna á landsvísu. Fjöldi þeirra sem komast inn eingöngu vegna kjördæmatryggingarinnar er því að öllu jöfnu mun minni en tala kjördæmatryggðra þingsæta. Hversu mörg þau í raun eru ræðst nokkuð af þeim breytum sem ég hef sett inn í hornklofa í tillögunni, og svo vali kjósenda - nánar til tekið mismuni í atkvæðadreifingu á milli kjördæma. Hafi frambjóðandi til dæmis mikið fylgi í sínu kjördæmi (nærumhverfi) en lítið á landsvísu (lítt þekktur kannski) á hann möguleika á að komast inn sem kjördæmakjörinn.
Eins og ég hef áður boðið er ég tilbúinn að svara spurningum og útskýra það sem óljóst er, enda hæg heimatökin þar sem ég vinn í sömu byggingu og Stjórnlagaráðið er til húsa.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.