Um auðlindaákvæðið
Þorsteinn Sverrisson
- Heimilisfang: Melbæ 15
- Skráð: 10.07.2011 17:38
Ágæta Stjórnlagaráð.
Í tillögum ykkar stendur (Mannréttindakafli, 28. gr.) : „Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar.“
Jafnframt stendur litlu neðar: „Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi."
Mig langar til að koma með nokkrar athugasendir og spurningar varðandi þessi mál.
1.
Mér finnst vera innbyggð mótsögn í ofangreindum málsgreinum. Fyrst er sagt að allar auðlindir séu þjóðareign en síðar að ákveðnar auðlindir (náttúrugæði) séu í einkaeign. Þjóðareign og einkaeign getur aldrei verið það sama. Ef allar auðlindir eru þjóðareign geta sumar ekki verið í einkaeign!
Það hlýtur að vera grundvallarkrafa að stjórnarskrártexti sé skýr, einfaldur og mótsagnalaus. Mér finnst þessar málsgreinar ekki uppfylla þá kröfu. Að mínu mati þarf að laga þetta.
2.
Þá finnst mér þessi setning óskýr: „Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi."
Þetta má skilja á tvo vegu (hvort á "svo sem.." við þjóðareign eða einkaeigu) en líklega er verið að segja einfaldlega að allar auðlindir sem ekki eru í einkaeign séu í þjóðareign. Það segir sig reyndar sjálft að mínu mati, en ef menn telja svo ekki vera þá er hægt að segja það beint. Gott væri að fá fram hugmyndir stjórnlagaráðs um hvaða auðlindir nákvæmlega eiga að vera í þjóðareigu og hverjar í einkaeigu. T.d.
a) Jörð sem bóndi notar til búfjárræktar ?
b) Heitur vatnshver á jörð sem garðyrkjubóndi á og notar fyrir ylrækt í gróðurhúsi ?
c) Á sem landeigandi hefur virkjað og framleiðir rafmagn inn á dreifikerfi Landsnets ?
d) Laxveiðiá sem veiðifélag landeigenda selur veiðileyfi í ?
e) Trjáplöntur sem landeigandi hefur gróðursett á sinni jörð og hyggst höggva og selja eftir 20-30 ár ?
3.
Er það hugmynd stjórnlagaráðs að breyta eitthvað núverandi eignarrétti á auðlindum ?
a) Ef svo er þá hvaða auðlindum ?
b) Munu þá eigendur auðlindanna fá bætur með einhverjum hætti ef eignarréttur er skertur ?
4.
Ég óttast að ef allar auðlindir landsins veða á forræði ríkisins fá fáir menn hættulega mikið vald. Lélegir stjórnmálamenn og embættismenn gætu gert afdrifarík mistök og valdið þjóðinni miklu tjóni. Mikil hætta er á að spilling og flokkshagsmunir hefðu áhrif á ákvarðanir um ráðstöfun auðlinda. Við sjáum þetta nú þegar í tillögum að nýjum lögum um fiskveiðar þar sem gert er ráð fyrir að stjórnmálamenn útdeili veiðiheimildum í miklum mæli samkvæmt óljósum reglum.
Óttast stjórnlagaráð ekki að spilling með tilheyrandi ósætti og óréttlæti aukist ef aðgangi að öllum auðlindum verði stýrt af fáum aðilum sem fara með ríkisvaldið hverju sinni ?
5.
Að mínu mati er einkaeignarréttur á auðlindum oftast betri en þjóðareign. Hlutverk stjórnvalda á að vera að setja góðar almennar reglur til að tryggja sjálfbærni og góða umgengni um auðlindir. Það er ekki gott að ríkið hafi eftirlit með sjálfu sér. Setja má reglur um að enginn einn aðili eigi meira en eitthvað raunhæft hlutfall af öllum auðlindum landsins.
Gott dæmi um skynsamlega og vel heppnaða nýtingu auðlinda í einkaeigu vera íslensku laxveiðiárnar. Þar hafa stjórnvöld sett lög og reglur sem skilgreina hvernig auðlindin skuli vera nýtt, hvernig arði sé skipt milli landeiganda o.s.frv. Eigendurnir sjá um að selja veiðileyfi, viðhalda stofninum og fá að sjálfsögðu meiri arð ef þeir gera það vel. Þessi auðlind skapar þjóðinni milljarða í gjaldeyristekjur á hverju ári.
Telja fullrúar í stjórnlagaráði almennt að einkaeignarréttur á auðlindum sé slæmur og það sé betra að eignarréttur sé á hendi þjóðarinnar (ráðherra og ríkisstofnana) ?
6.
Í dag eru auðlindir í bland í eigu ríkisins, sveitarfélaga og einstaklinga og svo hefur verið lengi. Þær auðlindir sem stór sveitarfélög og ríkið hafa haft á sínu forræði hafa mikið verið nýttar til stóriðju og í einhverjum tilvikum hefur nýtingarréttur þeirra verið leigður erlendum aðilum til langs tíma. Dæmi eru um að opinberir aðilar hafi rekið t.d. orkufyrirtæki mjög illa og sum eru gjaldþrota. Opinber orkufyrirtæki hafa verið gagnrýnd fyrir að selja orkuna of ódýrt og að halda leynd yfir gjaldskrám. Einnig eru mörg dæmi um sóun opinberra orkufyrirtækja í ýmis gæluverkefni og flottræfilshátt. Reynsla okkar af opinberri nýtingu orkuauðlinda er því ekki alltaf góð.
Þær auðlindir sem einkaaðilar t.d. bændur og landeigendur eiga, hafa aftur á móti verið nýttar með mun margbreytilegri hætti svo sem í ylrækt, hefðbundnum landbúnaði, fiskeldi, rafmagnsframleiðslu og fleiru. Fjöldi lítilla fyrirtækja sem einkaaðilar á landsbyggðinni hafa byggt upp og nýta auðlindir sínar á fjölbreyttan hátt er meiri en margan grunar. Þó einhver fyrirtæki leggi upp laupana hefur það lítil áhrif á þjóðina í heild vegna mikillar dreifingar eignarréttar á auðlindum í einkaeigu.
Telur stjórnlagaráð að síðustu áratugi sé reynslan af nýtingu auðlinda í opinberri eigu betri en reynslan af nýtingu auðlinda í dreifðri eigu einkaaðila ?
7.
Nú eru markmið þessara tillagna stjórnlagaráðs líklega til komnar vegna þess ágreinings sem hefur verið um íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið og nýtingu orkuauðlinda. Þó að þar megi gera endurbætur þá finnst mér samt að við eigum ekki að girða fyrir einkaeignarrétt á öllum auðlindum í stjórnarskránni. Sagan sýnir almennt að þeim þjóðum sem hefur tekist að virkja eignarrétt og framtak einstaklinga á markvissan hátt hefur vegnað vel en þeim sem hafa farið þá leið að láta ríkisvaldið fara með almennan eignarrétt á öllum auðlindum hefur vegnað síður.
Mér þætti vænt um að fá ykkar álit á þessum athugsemdum og vona að þær komi að gagni.
Gangi ykkur vel.
Þorsteinn Sverrisson
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.