Tillaga til Stjórnlagaráðs

Kristján Steinsson
  • Skráð: 07.07.2011 11:19

Nú stendur yfir að gerðar eru veigamiklar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

Stjórnlagaráð, sem hefur það verk með höndum, óskar eftir ábendingum þar að lútandi og er það vel. Í þessu sambandi er rætt um að auka beri vægi löggjafarvalds.

Þáttur í því er að framkvæmdarvald, líkt og dómsvald, eigi ekki sæti á Alþingi. Þessi breyting felur í sér að gerð bráðabirgðalaga framkvæmdarvalds leggst af.

Rökrétt getur þá talist að álykta sem svo að Alþingi starfi framvegis allt árið og að varamenn sinni störfum þingmanna í fjarverutilfellum þeirra, - líkt og verið hefur - sem og í sumarfríum, eins og þau almennt tíðkast.

Ísland verði eitt kjördæmi með jöfnu vægi atkvæða.

Með svipuðum hætti og segir um Stjórnlagaráð efnir Þingvallanefnd til hugmyndaleitar. Nýtt Ísland þarfnast áþreifanlegra breytinga í stjórnskipun og geta tengsl Alþingis og Þingvalla verið í forystuhlutverki í þeirri viðleitni. Ný lögrétta væri ákjósanlegur vettvangur til þess.

Lagt hefur verið til við Þingvallanefnd að byggður verði minnisvarði um Lögréttu á Þingvöllum, í fullri stærð, töluvert uppfærður frá fyrirmyndinni, sem rúmaði 147 menn í sæti, en sá var fjöldi lögréttumanna í öndverðu og þjóni hann öðrum þræði hlutverkum, sem gæfi honum verðugt notagildi.

 Á stórum stundum hafa fundir Alþingis gjarnan farið fram á Þingvöllum. Þar má nefna:

  • Hátíðarfund þúsund ára minningar löggjafaþings á Íslandi 1930,
  • Lýðveldisstofnun 1944,
  • Minningu ellefu alda byggðar í landinu 1974,


en aðstöðu hefur skort. Fleiri fundi, sem varða alþjóð, ætti að flytja til Þingvalla, þótt ekki þurfi þeir að tengjast stórviðburðum. Árlegar athafnir, svo sem þinglausnir og setning næsta þings, verða þá mönnum ofarlega í huga.

Þar eð Alþingi yrði að störfum allt árið er hægt að sameina þessar tvær athafnir á einum og sama degi og velja til þess góðviðrisdag, einn af fjórtán nálægt sólstöðum, en þann hálfa mánuð mun Alþingi hafa staðið og starfað til forna. Ný Lögrétta væri rammi við hæfi í því hlutverki.

 Með vinsemd,

Kristján Steinsson

 

Tillaga til Stjórnlagaráðs (PDF)

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.