Örfáar athugasemdir við áfangaskjal
Hjörtur Hjartarson
- Heimilisfang: Hringbraut 87
- Skráð: 04.07.2011 20:10
Kæru fulltrúar í Stjórnlagaráði.
Ég geri eftirfarandi tillögur og athugasemdir við nefndar greinar í áfangaskjali, eins og það stendur nú, 4. júlí 2011.
2. kafli - MANNRÉTTINDI
1. gr. Jafnræðisregla
„Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.‟
Tillaga: „ættartengsl‟ komi í stað „ætternis‟. Fyrrnefnda hugtakið er víðtækara en hið síðarnefnda og fellur betur að tilgangi ákvæðisins.
10. gr. Trúfrelsi
„Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.
Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.
Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.‟
Tillaga: Felld verði út setningin „Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.‟ Setningunni er ofaukið og ekki rök fyrir því að stjórnvöldum beri að vernda nefnd félög umfram önnur.
-------------
4. kafli - KOSNINGAR TIL ALÞINGIS OG ALÞINGISMENN
Athugasemd: Í þennan kafla vantar ákvæði sem greiða fyrir lýðræðislegri stjórnmálaumræðu í landinu. Tryggja þarf að peningar og auglýsingar ráði ekki úrslitum í kosningabaráttu, og að raddir allra framboða heyrist. Tryggja þarf í stjórnarskrá að sett verði almenn löggjöf með lýðræðislegum leikreglum, líkum þeim sem tíðkast í nálægum löndum. Sjá tillögu og greinargerð frá Lýðræðisfélaginu Öldu: http://www.stjornlagarad.is/erindi/nanar/item33216/
1. gr. Fyrirkomulag kosninga til Alþingis
„Á Alþingi eiga sæti 63 þjóðkjörnir þingmenn [...]‟
Athugasemd: Komið hafa fram rökstuddar athugasemdir við ofangreindan fjölda þingmanna. (sjá http://www.stjornlagarad.is/erindi/nanar/item34260/ ) Talan 63 var ekki fundin með hagsmuni almennings í huga heldur sérhagsmuni einstakra flokka og frambjóðenda. Nær væri að fækka þingmönnum og styrkja sérfræðiþekkingu Alþingis. Með fækkun þingmanna yrði ábyrgð hvers þingmanns skýrari.
2. gr. Styrkir til stjórnmálasamtaka
„Upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem bjóða fram í almennum kosningum skulu vera aðgengilegar almenningi svo fljótt sem auðið er.‟
Athugasemd: Mér skilst að von sé á veigameiri ákvæðum í sambandi við fjármál og starfsemi stjórnmálasamtaka. Það eru góð tíðindi. Ég vildi benda á samband slíkra ákvæða við ákvæði sem ég nefndi hér ofar, um lýðræðislega stjórnmálaumræðu, pólitískar auglýsingar og aðgengi að fjölmiðlum.
4. gr. Kjörgengi
„Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.
Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.‟
Tillaga að nýju ákvæði: „Enginn skal sitja á Alþingi lengur en þrjú kjörtímabil.‟
Öll rök fyrir því að takmarka setutíma ráðherra gilda með enn meiri þunga um þingmann, en sá síðarnefndi fer með mikilvægasta þátt ríkisvaldsins, sjálft löggjafarvaldið. Hætta er á að þingmaður sem situr lengi, líkt og ráðherra sem situr lengi, myndi tengsl við hópa úti í samfélaginu og geti orðið háður þeim eða fari að taka mið af hagsmunum þeirra sérstaklega. Þau rök hafa heyrst að ekki eigi að hindra að kjósendur geti kosið vinsælan þingmann, en þrjú kjörtímabil eru afar ríflegur tími. Völd tilheyra embættum og mega ekki safnast á hendur tiltekinna persóna.
5. gr. Alþingiskosningar
„Reglulegar alþingiskosningar skulu fara fram eigi síðar en við lok kjörtímabils.
Kjörtímabil er fjögur ár.
Upphaf og lok kjörtímabils miðast við sama vikudag í mánuði, talið frá mánaðamótum.‟
Athugasemd: Vel mætti hugsa sér, við nútímalegar aðstæður, að hafa kjörtímabil þrjú ár. Með því væri aðhald kjósenda með kjörnum fulltrúum sterkara. Hugmyndir um tveggja ára kjörtímabil voru mjög á lofti þegar hið svonefnda fulltrúalýðræði var í mótun.
-------------
5. kafli - STÖRF ALÞINGIS
10. gr. Opnir fundir
„Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði.
Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.‟
Athugasemd: Þingnefndir ættu ávallt að funda í heyranda hljóði nema rökstuddar ástæður séu til annars. Nefndirnar hafa málefni almennings til umræðu. Að minnsta kosti ætti að taka upp fundi þingnefnda og gera upptökurnar aðgengilegar almenningi.
22. gr. Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd
„Eftirlits- og stjórnskipunarnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Skylt er nefndinni að hefja slíka athugun að kröfu þriðjungs þingmanna.‟
Athugasemd: Í greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, segir meðal annars: „Í 39. gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að Alþingi geti skipað rannsóknarnefnd alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða. Á það hefur verið bent að ekki sé heppilegt að alþingismenn sinni sjálfir slíkri rannsókn. Hætta sé á því að þeir hafi í pólitískri umræðu um málið gefið yfirlýsingar sem liti skoðun þeirra á öllu því sem síðar kann að koma fram. Þá hafa sumir talið að ekki sé trúverðugt að stjórnmálamenn annist grunnrannsókn á vinnubrögðum stjórnmálamanna. Betra sé að fá til verksins óháða sérfræðinga sem hafi staðið utan við átök stjórnmálanna.‟
Meðal annars í ljósi almennra raka sem þarna koma fram er rétt að setja ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir eins og kostur er að eftirlits- og stjórnskipunarnefnd sé skipuð óvilhöllum mönnum, og mönnum sem ekki eiga sæti á Alþingi.
-------------
7. kafli - STJÓRNSÝSLA OG EFTIRLIT
5. gr. Forstöðumenn sjálfstæðra stofnana
„Valkostur 1: Forseti skipar að fengnum niðurstöðum hæfnisnefnda í embætti forstöðumanna þeirra stofnana sem lög mæla að skuli vera sjálfstæðar. Samþykki forseta þarf til þess að leggja niður stofnanir sem eru sjálfstæðar lögum samkvæmt.
Valkostur 2: [Ekki verði sérstök grein þessa efnis í stjórnarskránni enda falli málið undir almenna grein um skipun embættismanna.]‟
Athugasemd: Valkostur 1 er lífsnauðsyn. Ofríki stjórnmálaflokkanna gagnvart stofnunum ríkisins er öllum ljóst. Flokkarnir hafa gengið um stjórnsýsluna eins og hún væri eign þeirra sjálfra en ekki almennings í landinu. Ósjálfstæði, hik og vanhæfni mikilvægustu stofnana hefur verið eftir því, til stórskaða fyrir land og þjóð. Nærtækt er að vísa í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í þessu sambandi.
Tillaga: Eftirfarandi ákvæði eða sambærilegt verði sett í stjórnarskrá um hæfnisnefndir:
„Alþingi skipar hæfnisnefndir sem velja umsækjendur sjálfstæðra stofnana. Hver hæfisnefnd skal skipuð 9 mönnum, þar af þremur útlendum sérfræðingum tilnefndum af Háskóla íslands.‟
Mikilvægt er að gera ráðstafanir til að yfirstíga bæði nepótisma og ríkjandi fordóma hverju sinni. Gestsaugað er ómissandi fámennum, einsleitum samfélögum.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.