Tillögur um hlutleysi og mannréttindi

Sigurður Flosason
  • Heimilisfang: Huldubraut 29, 200 Kóp.
  • Skráð: 04.07.2011 16:52

1.  Tek undir tillögu frá Einari Þorbergssyni 23/6:

Ísland er herlaust land og fer ekki með ófriði á hendur öðrum ríkjum.

Rökin eru þessi: Ísland er herlaust land og ég held að langflestir Íslendingar vilji ekki breyta því.

Einnig tel ég að fáir vilji í raun fara með ófriði gegn öðrum ríkjum. Að auki hafa tvenn fjölmenn samtök (SHA og MFÍK) sent Stjórnlagaráði erindi á þessum nótum og einnig allmargir einstaklingar.

Íslendingar eiga að vera friðflytjendur í heiminum og sáttasemjarar í deilumálum, enda afl þeirra til hernaðarlegra grimmdarverka lítið sem betur fer.

Kosta Ríka er dæmi um herlaust land á miðju ófriðarsvæði liðinna áratuga í Mið-Ameríku. Kannski er það því að þakka að þar er friðvænlegra um þessar mundir, en það mun vera eina landið á svæðinu sem menntun og heilbrigðisþjónusta eru í sæmilegu lagi.

Afl Íslendinga til varnar gegn hernaðarárás er ekkert og því væri betra og árangursríkara að beita orðsins brandi eins og sagt er. Eina hernaðarárás á Ísland á síðari tímum er innrás Breta 10. maí 1940. Hefðum við þá haft her og beitt honum gegn Bretum hefði hann verið stráfelldur auk fjölda óbreyttra borgara.

Hvað hefði verið unnið við það?

2. Ekki vil ég trúa því að Stjórnlagaráð taki út úr mannréttindakaflanum ákvæðin um mannlega reisn og réttinn til lífs. Það eru grunnmannréttindi sem öll önnur byggjast á.

Það stangast að vísu á við ákvæðið um að meirihluti Alþingis geti samþykkt að taka með ákvörðun um hernað réttinn til lífs af fólki úti í heimi, en það ákvæði á þá að víkja fyrir ákvæðinu um að fara ekki með ófriði gegn öðrum.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.