Tillögur að bættum kafla um störf Alþingis

Svavar Kjarrval Lúthersson
  • Heimilisfang: Kríuás 19, Hafnarfjörður
  • Skráð: 04.07.2011 10:46

Tillögur að bættum kafla um störf Alþingis

Í anda samstarfs óska ég eftir því að gera eftirfarandi tillögur í tengslum við kaflann um störf Alþingis eins og hann var eftir 15. ráðsfund:

7. gr.
Segjum að forseti Alþingis þurfi að skreppa frá á salernið meðan á þingfundi stendur og 1. varaforseti tekur við starfi hans: Þyrfti að kalla inn varamann til að fylla sæti 1. varaforseta á meðan?

Önnur pæling sem ég hef varðandi þetta ákvæði er hvað yrði um þingmálin sem varaforseti hafði lagt fram á þinginu? Það yrði nokkuð erfitt fyrir hann að flytja ræður um sín eigin mál ef hann skv. stjórnarskrá þarf að láta af almennum þingstörfum vegna forfalla þingforseta.

12. gr.
Greinin er góð en ég vil gera tillögu að viðbót:
„Eigi má takmarka ræðutíma alþingismanna á Alþingi. Jafnframt skulu alþingismenn hafa rétt til og rúman tíma til andsvara.“
Ég tók eftir því þegar ég horfði á sumar umræður á Alþingi að þingmenn kvörtuðu yfir því að þeir hefðu alltof knappan tíma til að flytja mál sitt og sömuleiðis alltof knappan tíma til andsvara. Það leiddi til þess að þeir höfðu ekki þann tíma sem þingmálið krafðist til að gagnspyrja meðþingmenn sína. Einnig tók ég eftir því í umræðum um vantraust á ríkisstjórnina að þingforseti ákvað að gefa sérvöldum þingmönnum rétt til að tjá sig um málið og nefndi að andsvör væru ekki leyfð. Hvort sem fólk er sammála þessari tillögu eða ekki á Alþingi samt að hafa ráðrúm til að gera upp hug sinn.

13. gr.
Við þessa grein vil ég gera þá athugasemd að hún gefur Alþingi heimild til að greiða atkvæði um mál þegar eingöngu 32 þingmenn eru viðstaddir. Það er í sjálfu sér réttlátt en ósanngirnin felst í því að rétt yfir helmingur þeirra sem mættu þurfa að samþykkja til að eitthvað nái í gegn. Þetta þýðir að fræðilega séð geta atkvæði 17 fylgjandi þingmanna orðið til þess að frumvarp verði að lögum. Framkvæmdin sýnir að þetta hefur orðið raunin þar sem mörg umdeild frumvörp hafa einmitt orðið að lögum vegna þess.

Tillagan sem ég geri er því að krefjast þess að helmingur starfandi þingmanna greiði atkvæði með einhverju til að það fáist samþykkt af hálfu Alþingis. Séu þingmenn 63 verði mál ekki samþykkt nema 32 þingmenn greiði atkvæði með því.

14. gr.
Valkostur 1:
Mæli með því að frumvarpið fái *ekki* lagagildi. Ef Alþingi samþykkir frumvarp sem veitir einhverjum réttindi og þjóðaratkvæðagreiðslan fer þannig að það er ekki samþykkt, þá geta þeir sem fengu téð réttindi farið í mál við íslenska ríkið og fengið bætur fyrir töpuðum réttindum.

Einnig vil ég mótmæla undanþágunum sem nefndar eru við þennan valkost en hér er verið að takmarka rétt almennings til að hafa áhrif á lagasetningu. Ýmsar mýtur eru í gangi um að þjóðaratkvæðagreiðslur um fjárlög og skatta leiði til klúðurs og ein sú stærsta er Kaliforníuríki. Orsökin þar er slæm frumvarpasmíð, ekki heimild til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sömuleiðis er hægt að misnota slíkar undanþágur til þess að blanda skattamálefnum inn í frumvörpin til þess að koma í veg fyrir að forseti geti synjað þeim. Hvað um frumvörp sem hafa 1-2 ákvæði sem kveða á um skatta og gjöld? Auk þess getur Alþingi gengið alltof langt með skatta eins og öll önnur málefni. Takmarkanir eins og þessar gera ekkert annað en að takmarka rétt almennings til að hafa áhrif á löggjafarþingið.

Valkostur 2:
Hér mæli ég með álíka fyrirkomulagi og í Bandaríkjunum. Forseti geti synjað frumvarpi en þá þyrfti Alþingi að ná 2/3 fylgni við frumvarpið til að það verði að lögum án staðfestingar forseta. Þá mæli ég með því að það fái aftur fulla umfjöllun en ekki eingöngu eina umræðu.

15. gr.
Mæli með því að tekið sé fram að birting fari fram fyrir almenningi en ekki bara birt. Fyrsta málsgreinin gæti verið svona:
„Birta skal opinberlega lög, stjórnvaldsfyrirmæli, þjóðréttarsamninga sem ríkið hefur fullgilt og hvaðeina sem hefur lagalegar afleiðingar fyrir almenning.“
Einnig bætti ég við í upptalninguna að birta skuli allt sem hefur lagalegar afleiðingar. Þá er ekki hægt að refsa einhverjum byggt á óopinberri ákvörðun.

18. gr.
Í samræmi við tillögu mína við 14. gr. og í því tilviki sem fjárlög eru ekki samþykkt þegar árið gengur í garð legg ég fram eftirfarandi tillögu:
„Nú hafa fjárlög eigi verið samþykkt fyrir tímabil sem gengið er í garð. Er þá eingöngu heimilt að verja fjármunum ríkisins í starfsemi sem nauðsynleg er til reksturs þess og til verndar stjórnarskrárvörðum réttindum eftir því sem nauðsyn krefur.“

Einnig legg ég fram eftirfarandi viðbót:
„Lög skulu vera í almannahag.“
Ákvæðið er til að hægt sé að dæma lög úr gildi sem augljóslega eru ekki í almannahag, sbr. tillögu Stjórnlagaráðs þar sem dómstólar geta dæmt lög úr gildi fyrir að samrýmast ekki stjórnarskrá.

Jafnframt þessa viðbót:
„Lög skulu vera skýr og ótvíræð er varða skyldur og kvaðir sem á almenning er lagt.“
Hér er vernd gagnvart því að Alþingi setji óskýr og/eða tvíræð lög sem almenningi er skylt að fara eftir og ákvæðið verður líklegast túlkað á þann veg að fyrirmæli og reglugerðir stjórnvalda verði einnig að vera skýr og ótvíræð.

Undirritað,
Svavar Kjarrval Lúthersson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.