Tillögur að bættum kafla um lýðræðislega þátttöku almennings
Svavar Kjarrval Lúthersson
- Heimilisfang: Kríuás 19, Hafnarfjörður
- Skráð: 04.07.2011 10:41
Tillögur að bættum kafla um lýðræðislega þátttöku almennings
Í anda samstarfs óska ég eftir því að gera eftirfarandi tillögur í tengslum við kaflann um lýðræðislega þátttöku almennings eins og hann var eftir 15. ráðsfund:
1. gr.
Við 2. og 4. efnisgrein væri ágætt að taka fram að ef Alþingi fellur lögin úr gildi skuli þjóðaratkvæðagreiðslan ekki fara fram. Það væri ágætt að hnykkja á því svo ákvæðið sé ekki skilið þannig að atkvæðagreiðslan fari samt fram þrátt fyrir brottfall laganna.
2. gr.
Hvaða tilgangi þjónar gagntillagan? Auk þess skil ég ekki af hverju allt þetta stúss er í kringum gagntillöguna. Síðan ræður Alþingi hvort sem er hvort atkvæðagreiðslan er bindandi eða ráðgefandi.
Ég er ekki á móti því að kjósendur geti lagt fram frumvörp og mætti jafnvel lækka þröskuldinn í 10% kjósenda. En þá fór ég að spá í það hverjir muni mæla með frumvarpinu fyrir hönd kjósenda þegar frumvarpið þeirra fær umfjöllun. Þá væri gagnlegt ef lög myndu mæla með frekari útfærslu á þessu og í lögum ætti að taka fram hverjir teljast aðalflytjendur þess og að þeir hafi málflutningsrétt á Alþingi en gæta verði þeir þingskapa.
Þá mæli ég með því að mál kjósenda sbr. þessa grein falli ekki niður við lok kjörtímabils. Annars er hætta á að reynt verði að svæfa málið þar til það fellur niður, sérstaklega ef minna en tvö ár eru eftir af kjörtímabilinu.
3. gr.
Varðandi undanþágurnar í 1. efnisgrein vísa ég í umfjöllun mína um málskotsrétt forseta í erindi mínu um forseta Íslands.
4. gr.
Vil mótmæla tilvist 2. efnisgreinarinnar. Þó mikið þurfi til svo að 5/6 hlutar Alþingis verði spilltir á almenningur samt rétt á að kjósa um breytingar á stjórnarskrá því hún varðar alla, ekki bara alþingismenn.
Undirritað,
Svavar Kjarrval Lúthersson
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.