Þónokkrar síðbúnar athugasemdir og tillögur
Sigurður Hr. Sigurðsson
- Heimilisfang: Suðurgata 8
- Skráð: 01.07.2011 02:12
Ágætu félagar í Stjórnlagaráði
Ég leyfi mér að gera þónokkrar síðbúnar athugasemdir og/eða breytingartillögur við áfangaskjal að stjórnarskrá eins og það birtist á vef Stjórnlagaráðs í dag, síðasta dag júnímánaðar:
----------------
2. kafli - Mannréttindi
Í mannréttindakaflann tel ég vanta nokkur lykilatriði, s.s. rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar, bann við nauðungarvinnu og mansali, rétt til að fá að kjósa og ákvæði um vernd neytenda gegn markaðsmisnotkun og lögaðilum með yfirburðastöðu.
23. gr. Menntun
„Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.
Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.
Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um lýðræðisleg réttindi og skyldur.“
Lagt er til að menntun skuli auk þess grundvallast á þekkingu á íslenskri náttúru og virðingu fyrir umhverfinu.
----------------
4. kafli - Kosningar til Alþingis og alþingismenn
Hér (eða á öðrum stað) vantar grein(-ar) um starfsemi og tilgang stjórnmálasamtaka. Það hlýtur að teljast brýnt að stjórnarskráin skapi ramma um slíka starfsemi og hindri að slík félög starfi sem e-s konar atvinnumiðlanir eða sérhagsmunasamtök.
Dæmi og fyrirmyndir má finna í stjórnarskrám Bútans (Art. 15) og Þýskalands (Art. 21):
http://www.constitution.bt/TsaThrim%20Eng%20(A5).pdf
https://www.btg-bestellservice.de/pdf/80201000.pdf
1. gr. Fyrirkomulag kosninga til Alþingis
Spurt er hvort að rétt sé að fastsetja fjölda þingmanna við 63? Væri ekki nær að fjöldi þingmanna endurspeglaði íbúafjölda? Í samanburði við nokkur minni Evrópulönd er það nokkuð vel útilátið að hafa einn þingmann fyrir hverja 5.000 íbúa eins og lagt er til.
Malta - 6.000 íbúar á hvern þingmann
Luxembourg - 8.500
Eistland - 13.000
Auk þess er lagt til að svonefndur 5% lýðræðisþröskuldur verði afnuminn og ekkert tiltekið lágmark leyft þar sem stjórnmálaflokkar hafa miskunnarlaust misnotað slíkt til að hræða kjósendur frá því að kjósa ný framboð. Sjá 108 gr. laga um kosningar til Alþingis nr.24/2000.
Væri ekki vissara að taka það fram að kosningar skuli vera leynilegar?
2. gr. Styrkir til stjórnmálasamtaka
„Upplýsingar um framlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda sem bjóða fram í almennum kosningum skulu vera aðgengilegar almenningi svo fljótt sem auðið er.“
Lagt er til að fastar verði kveðið að orði og í stað orðanna „svo fljótt sem auðið er“ komi „jafnskjótt og þau berast“. Auk þess er lagt til að fjárhagsbókhald stjórnmálasamtaka verði öllum aðgengilegt á viðkomandi skrifstofum og/eða opnum vefsíðum.
3. gr. Kosningaréttur
„Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningaréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.
Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í kosningalögum.“
Lagt er til að lögheimili á Íslandi sé ekki skilyrði kosningaréttar við kosningar til Alþingis heldur einungis ríkisborgararéttur og 18 ára aldurstakmark.
4. gr. Kjörgengi
„Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.
Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.“
Líkt og í 3. grein er lagt til að kjörgengi takmarkist ekki við þá sem eiga lögheimili á Íslandi. Það væri mjög misráðið að útiloka hæfa íslenska ríkisborgara frá þátttöku í kosningum á grundvelli búsetu þeirra erlendis.
----------------
5. kafli - Störf Alþingis
4. gr. Samkomustaður
„Alþingi kemur að jafnaði saman í Reykjavík en getur þó ákveðið að það komi saman á öðrum stað.“
Lagt er til að Alþingi komi við sérstök tækifæri saman á Þingvöllum, t.d. við setningu, sjá athugasemd við 10. gr. í kaflanum um forseta Íslands.
10. gr. Opnir fundir
„Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði.
Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.“
Lagt er til að almenningi verði gefið færi á að fylgjast með fundi þingnefnda gegnum vefútsendingu nema að ríkar og rökstuddar ástæður mæli gegn því.
11. gr. Frumkvæðisréttur
„Alþingismenn hafa einir rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur mál.“
Spurt er hver muni flytja lagafrumvörp og þingmál fyrir hönd almennings sbr. 10. kafli 2. gr.?
12. gr. Meðferð þingmála
Lagt er til að komið verði í veg fyrir að mál geti verið svæfð í meðferð þingnefnda, t.d. með því að skylda fastanefndir til að afgreiða öll mál og skila niðurstöðum innan ákveðins tíma.
27. gr. Lögrétta
„Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.
Þingnefnd eða þriðjungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.
Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum.“
Lagt er til að Alþingi kjósi ekki menn til setu í Lögréttu heldur sitji þar menn skipaðir af Hæstarétti og forsetaembættinu, auk fulltrúum Lagadeildar HÍ. (Rétt er að minna á nefnd um erlenda fjárfestingu sem víti til varnaðar).
----------------
6. kafli - Ráðherrar og ríkisstjórn
Lagt er til að forseti Íslands hafi heimild til að skipa utanþingsstjórn skapist sérstakar aðstæður til þess. Mögulega á þetta betur við undir kaflann um forseta Íslands.
----------------
8. kafli - Forseti Íslands
2. gr. Kjörgengi til forseta
„Kjörgengur til forseta er sérhver [35 ára gamall] ríkisborgari sem fullnægir skilyrðum um kjörgengi til Alþingis.“
Líkt og í 4. kafla um kosningar til Alþingis er lagt til að kjörgengi takmarkist ekki við þá sem eiga lögheimili á Íslandi. Það væri mjög misráðið að útiloka hæfa íslenska ríkisborgara frá þátttöku á grundvelli búsetu þeirra erlendis.
10. gr. Setning Alþingis
„Forseti Íslands stefnir saman Alþingi að loknum alþingiskosningum og setur reglulegt Alþingi ár hvert. Forseti stefnir einnig saman og setur Alþingi að tillögu forseta þess eða meirihluta þingmanna.“
Lagt er til að forseti Íslands stefni Alþingi saman á Þingvöllum (þar er fallegt á haustin) og að í stað kirkjulegrar blessunar komi heimspekilegt innlegg í boði rektors Háskóla Íslands.
----------------
10. kafli - Lýðræðisleg þátttaka almennings
1. gr. Málskot til þjóðarinnar
Að miðað sé við fimmtán af hundraði kjósenda sem lágmark þegar krafa kemur fram um að ný lög séu borin undir þjóðaratkvæði er afar hátt viðmið. Að fenginni reynslu má telja víst að slík þátttaka næðist ekki án þess að þjóðþekktir einstaklingar, útbreiddir fjölmiðlar eða mjög fjársterkir aðilar spiluðu lykilhlutverk. Réttara væri að miða við sjö af hundraði kjósenda sem væri um 16 þúsund manns eins og staðan er í dag.
2. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Lagt er til að miðað sé við sjö af hundraði kjósenda sem lágmark þegar frumvarp til laga er lagt fyrir Alþingi að frumkvæði kjósenda.
Spurt er hver muni flytja lagafrumvörp og þingmál að frumkvæði kjósenda fyrir Alþingi?
3. gr. Framkvæmd undirskriftasöfnunar og þjóðaratkvæðagreiðslu
Það verður að koma skýrt fram í lögum hvaða kröfur séu gerðar til undirskriftasöfnunar svo hún teljist gild.
----------------
11. Sveitarfélög
Í stjórnum sveitarfélaga viðgengst iðulega meiri spilling en annars staðar í stjórnkerfinu. Því er nauðsynlegt að gera svipaðar kröfur til gagnsæis, ákvarðanatöku og vanhæfis og tíðkast á Alþingi.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.