Þjóðaratkvæðagreiðslur um mannréttindi

Ingólfur Harri Hermannsson
  • Skráð: 27.06.2011 12:39

 

Þjóðaratkvæðagreiðslur um mannréttindi

Ég set stóran fyrirvara við það þegar boðaðar eru þjóðaratkvæðagreiðslur er varða mannréttindi komandi kynslóða.

Sérhver mismunun gagnvart trú- og lífsskoðunum hér á landi er réttlætt með því að vísa í þjóðkirkjuákvæðið í núverandi stjórnarskrá.

Þess vegna er það spurning um mannréttindi að fella þessa grein úr stjórnarskránni.

Mannréttindi eiga ekki að vera háð meirihlutavilja þjóðar hverju sinni. - Eða hvernig haldið þið að þjóðaratkvæðagreiðsla um eignarréttinn hefði farið í miðri búsáhaldabyltingu?

Jafnvel þó svo að yfirgnæfandi líkur séu á því að þjóðin mundi staðfesta þá skoðun sína að aðskilja eigi ríki og kirkju að þá er ekkert öruggt í hendi með það. Sérstaklega þegar maður lítur til þess að helstu hagsmunaaðilar eru lítil trúfélög og frjáls félagasamtök annars vegar og svo Þjóðkirkjan hins vegar sem hefur vel á annað hundrað presta og starfsmanna á launaskrá ríkisins sem, auk þess að messa yfir eigin söfnuðum, hafa greiðan aðgang inn á hvert heimili með aðstoð Ríkisútvarpsins og jafnvel inn í opinbera skóla og leikskóla.

Ákvæði um mismunun trúfélaga á ekki heima í stjórnarskrá í nútímalegu samfélagi sem þykist virða mannréttindi. En það að ákvæðið falli brott þarf alls ekki að þýða endalok trúfélagsins sem kallar sig Þjóðkirkju.

Ríkið gæti eftir sem áður stutt Þjóðkirkjuna, svo framarlega sem það styðji öll trúfélög með sama hætti, og að þeim sem standi utan trúfélaga sé ekki gert að borga til þeirra.

Stjórnlagaráðið hefur fullt umboð til þess að takast á við þetta viðkvæma mál, enda fékk þetta mál töluverða umfjöllun í aðdraganda kosninganna og langflestir fulltrúar ráðsins upplýstu fyrir kosningar um afstöðu sína til þess.

Með þökk fyrir gott starf,
Ingólfur Harri Hermannsson

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.