Opið lýðræði - líka hjá Stjórnlagaráði

Kristinn Már Ársælsson
  • Heimilisfang: Dunhagi 21
  • Skráð: 24.06.2011 12:14

Kæra Stjórnlagaráð,

 

Í lýðræðisríki er almenningur handhafi valdsins. Í fulltrúalýðræði velur almenningur sér fulltrúa til þess að vinna að málum fyrir sig. Stjórnlagaráð er fulltrúaráð almennings og starfar í umboði hans. Í öllum lýðræðisríkjum, hvort sem fulltrúalýðræði eða öðru, eru það grundvallar lýðræðisleg réttindi almennings að geta fylgst með störfum fulltrúa sinna og haft áhrif á ákvarðanatökuferlið.

Stjórnlagaráð hefur tekið ákvörðun um að nefndarfundir séu lokaðir og ekki eru haldnar fundargerðir hjá nefndum þar sem skráð er efnisleg umræða/afgreiðsla. Þessi ákvörðun stangast á við þau réttindi sem ég rakti hér að ofan og eru ekki í anda opins lýðræðis.

Lýðræðisfélagið Alda sendi ráðinu erindi þar sem lagt er til að í stjórnarskrá verði ákvæði um opið lýðræði:

„Fundir Alþingis og allir fundir hins opinbera skulu ávallt haldnir í heyranda hljóði. Allar upplýsingar og fundargögn skulu vera aðgengileg almenningi með skilvirku móti. Öll opinber gögn skulu aðgengileg og engar reglur gilda sem leyfa frávik frá þeirri reglu aðrar en þær sem lúta að vernd persónuupplýsinga. Almenningi er heimilt að ávarpa Alþingi reglulega, t.d. á tilteknum tíma í viku hverri."

Stjórnlagaráð hefur í sínum tillögum gengið svo stutt í því að koma á opnu lýðræði að leggja til ákvæði sem gerir ráð fyrir að nefndarfundir Alþingis séu að jafnaði lokaðir með heimild um að þeir séu opnir. Endurspeglar sú tillaga þann vilja sem er að finna hjá ráðinu hvað varðar opið lýðræði með því að hafa sína eigin nefndarfundi lokaða.

Grundvöllur alvöru lýðræðisríkis er að almenningur geti haft áhrif og komið að ákvarðanatökunni með beinum hætti. Til þess þarf hann að geta fylgst með ákvarðanatökuferlinu og verkum fulltrúa sinna og átt í samskiptum við þá. Ef engin leið er fyrir almenning til þess að fylgjast með, koma að erindum og fá upplýsingar um afdrif erinda sinna og enn fremur eiga í samræðu við sína fulltrúa er ljóst að lýðræðið verður aldrei virkt.

Ég árétta hér með erindi Öldunnar um opið lýðræði og hvet Stjórnlagaráð til þess að gera það að tillögu sinni sem og fylgja því eftir sjálft með því að hafa nefndarfundi sína opna og birta fljótt og örugglega ítarlegar fundargerðir af nefndarfundum.

 

Kveðja,

Kristinn Már Ársælsson

heimspekingur og félagsfræðingur.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.