Staða trúfélaga í stjórnarskrá

Arnar Guðmundsson
  • Heimilisfang: Einarsnes 26
  • Skráð: 24.06.2011 11:03

Stjórnarskrá er ætlað að verja grundvallarmannréttindi á borð við félagafrelsi og trúfrelsi. Í þessu felst meðal annars réttur fólks til að fylgja sannfæringu sinni og iðka trú sína.
Að þessum skilyrðum uppfylltum er algerlega óútskýrt í mínum huga í hverju eftirfarandi ákvæði á að felast: „Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.“
Njóta trúfélög og lífsskoðunarfélög samkvæmt þessu einhverrar annarrar eða meiri verndar en til dæmis stéttarfélög sem standa vörð um grundvallarréttindi launafólks á vinnumarkaði? Í hverju felst slíkt þá?

Með því að setja hugtakið „skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög“ í stjórnarskrá er líka gengið út frá ákveðnu fyrirkomulagi við félagaskráningu í slík félög og innheimtu félagsgjalda með tilstyrk skattyfirvalda sem eðlilegra er að skipað sé með lögum. Og þá er vitaskuld gengið út frá því að skilyrðislaus réttur fólks til að iðka trú sína og/eða stofna félag um sína trú sé varinn í stjórnarskrá.

Varðandi spurninguna um það hvort tilgreina eigi eitt kristið trúfélag sem „þjóðkirkju“ er mikilvægast af öllu að hún sé rædd í samhengi við grundvallarhugmyndir um trúfrelsi og að hér sé lýðræðissamfélag þar sem tækifæri allra til áhrifa og þátttöku í ákvörðunum séu jöfn án tillits til trúarskoðana, litarháttar, kynferðis og svo framvegis. Sá réttur er í raun kjarni þess að við erum „veraldlegt“ ríki þar sem trú blandast ekki í stjórn ríkisins líkt og þekkist víða um heim. Sjá t.d. þetta kort yfir lönd þar sem ákveðin ríkistrú er ákveðin: http://en.wikipedia.org/wiki/File:Map_of_state_religions.svg. (Ísland, Noregur, Danmörk og Bretland skera sig úr öðrum helstu lýðræðisríkjum heims hvað þjóðkirkjufyrirkomulagið varðar).

Lykilatriðið er að þessi umræða snertir á engan hátt afstöðu til trúar sem slíkrar eða afstöðu til viðkomandi trúfélags. Réttur þess og allra skráðra félaga til sinnar starfsemi, trúariðkunar og sambands við sinn guð er óhaggaður eftir sem áður. Allra síst snýst þessi umræðu um afstöðu til kristni enda fjöldi kristinna safnaða starfandi án þess að hafa formlega stöðu þjóðkirkju.
Í þessu samhengi er líka athyglisvert að í núgildandi stjórnarskrá er tekið fram að því megi breyta með lögum að hér sé þjóðkirkja. Verði sett inn í stjórnarskrá ákvæði um þjóðkirkju án sama fyrirvara er gengið lengra í vali á einu trúfélagi umfram önnur en gert er í núgildandi stjórnarskrá.

Önnur lykilspurnin varðar efnislegt inntak og áhrif þeirrar skilgreiningar að vera „þjóðkirkja“ skv. stjórnarskrá.

Inntakið varðar ekki sjálfa trúna eða vernd hennar því réttur félaga í Þjóðkirkjunni til sinnar trúar og að hafa um hana félag er sá sami og t.d. félaga í Fríkirkjunni eða Hvítasunnusöfnuðinum. Þjóðkirkjuskipan breytir engu um lagalega vernd grundvallarréttinda.

Inntakið varðar ekki efnisleg tengsl hin veraldlega ríkis og trúfélagsins því það myndi ganga í berhögg við bæði trúfrelsisákvæði og ákvæði um jafnan rétt allra óháð trúarskoðunum, litarhætti og svo framvegis ef trúfélagsskráning hefur áhrif á þátttöku borgara í ríkinu.

Inntakið varðar ekki verndun eða viðhald menningararfs eða sögu enda um að ræða lifandi trúfélag sem mun eftir sem áður halda sinni daglegu starfsemi og vera í stöðugri mótun. Verndun og viðhald menningararfs fortíðar, m.a. með miðlun sögunnar og viðhalds menningarminja er stöðugt viðfangsefni, gjarnan á hendi sérfræðinga. Ekki er órökrétt að álykta að fáir séu betur til þess fallnir að rækta og varðveita hluta þjóðararfsins en þjóðkirkjan. En til þess eru aðrar leiðir færar og mun skynsamlegri en að setja þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá og blanda þannig saman sérstöku menningarlegu hlutverki við kjarnastarfsemi lifandi trúfélagsins með tilheyrandi óleystum spurningum sem varða trúfrelsi og jafnrétti eins og að framan er rakin. Augljósasta leiðin er sérstakur samningur ríkisins við kirkjuna um hið menningarlega hlutverk þar sem fjárveitingar haldast í hendur við skilgreind verkefni. Sé talið nauðsynlegt að festa þetta hlutverk í stjórnarskrá er bæði réttara og mun eðlilegra að inn í stjórnarskrána komi kafli eða ákvæði um menningararf og sögu og taki þá jafnframt til fleiri þátta en bara þessa hluta. En ljóst er að út frá þessu hlutverki er fullkomlega órökrétt að ákvæði um þjóðkirkju komi inn í mannréttindakafla innan um ákvæði um trúfrelsi.

Inntakið gæti helst varðað rekstrarform og fjármögnun þess trúfélags sem nýtur stöðu „þjóðkirkju“ í stjórnarskrá. Burtséð frá álitamálum sem varða samkeppnisstöðu viðkomandi trúfélags gagnvart öðrum sem einnig eru boðandi í sínu starfi þarf að svara með skýrum hætti hvaða efnislegu þýðingu þjóðkirkjuákvæðið hefur gagnvart löggjafar- og fjárveitingavaldinu. Felur þjóðkirkjuskilgreiningin í sér kvöð eða skyldu á hendur Alþingis að veita ávallt einhverjum fjármunum til viðkomandi trúfélags og þá umfram önnur? Ef svo er þá er mun eðlilegra að slíkt sé tekið beint fram með einhverjum hætti og undir öðrum köflum stjórnarskrár en mannréttindakafla innan um trúfrelsisákvæði.
Feli þjóðkirkjuskilgreiningin ekki í sér skilgreindar kvaðir eða skyldur löggjafar- og fjárveitingavalds gagnvart viðkomandi trúfélagi umfram öll önnur er þeirri spurningu ósvarað hvert efnislegt inntak þeirrar skilgreiningar er og órökrétt að setja slíkt inn í nýja stjórnarskrá.

Áskorun mín til Stjórnlagaráðs sem vill vanda vinnu sína er að reyna að skilja og skýra efnislegt inntak þess að skilgreina eitt trúfélag öðrum fremur sem „þjóðkirkju“. Varðar inntakið trúfrelsi og rétt til trúar, formleg tengsl eins trúfélags umfram önnur við hið lýðræðislega gangvirki samfélagsins (hvað þá með jafnræðisregluna?), sögulegt eða menningarlegt hlutverk eða rekstrarform og skyldur fjárveitingarvalds?
Svörin við þessum spurningum og rökstuðningur Stjórnlagaráðs ræður ekki bara hvort ákvæði um þjóðkirkju verður í stjórnarskrá eða ekki heldur einnig undir hvaða kafla, í hvaða formi og í hvaða samhengi slíkt er sett inn.

Með von um gagnrýnar og gagnlegar umræður.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.