Um náttúruvernd – hugleiðingar um atriði í stjórnarskrá og tillögur
Sigrún Helgadóttir
- Heimilisfang: Þverás 21
- Skráð: 23.06.2011 14:51
Um náttúruvernd - hugleiðingar um atriði í stjórnarskrá og tillögur
Í drögum stendur:
Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.
Til umhugsunar:
Þetta er mannmiðja hugsun ef ekki er sambærilegt orðalag um það sem allt mannlíf hvílir á, náttúru Jarðar. Orðalagið Margbreytileiki mannlífsins - vekur til umhugsunar um margbreytileika náttúru. Ísland býr yfir mjög óvenjulegri náttúru, ekki síst er margbreytileiki jarðmyndana mjög óvenjulegur og einstakur á heimsvísu. Íslendingar bera ábyrgð á því , ekki aðeins fyrir komandi kynslóðir Íslendinga heldur allt mannkyn, að sá margbreytileiki glatist ekki sem uppspretta þekkingar, skilnings og upplifunar. Lífríki Íslands er líka óvenjulegt, margbreytileiki lífríkis er mjög mikilvægur og forsenda þróunar. Náttúran sem slík hefur gildi í sjálfri sér - hún er ekki til fyrir manninn!
Í drögum stendur:
1. Menningarleg verðmæti
Þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.
Til umhugsunar
Við höfum að láni náttúruverðmæti, sambærileg þjóðminjum og fornhandritum, til dæmis svæði sem við höfum verið að reyna að vernda og friðlýsa sem þjóðgarða o.fl. Það starf hefur þó ekki alltaf gengið vel því að það sem einum þykir þjóðarverðmæti s.s. Þjórsárver eða Jökulsá á Fjöllum , þykir öðrum vera náttúruauðlind til nýtingar. Einstaklingur sem t.d. „á" jarðhitasvæði, einstakt á heimsvísu, getur ráðstafað svæðinu með samþykki sveitarfélagsins sem oftast hefur einnig mikilla fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Það eru til verðmæti ,bæði menningarleg og náttúruleg ,sem eru svo mikils virði að þau má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.
Í raun er ekki hægt að skipta náttúrunni í tvennt, náttúruauðlindir annars vegar og náttúru Íslands hins vegar. Hvar eru skilin? Í raun eru verðmæti (auður) í allri náttúru. Öll náttúran er því náttúruauðlind, land, líf, landslag, náttúrufegurð, svartir sandar, hvítir jöklar, flæðandi fossar... Margir skilgreina þó náttúruauðlind bara þann hluta hennar sem gefur af sér beinan og skjótfenginn fjárhagslegan arð. Þjórsárver eru þá einskis virði - eru ekki náttúruauðlind - fyrr en búið er að breyta þeim í uppistöðulón.
Í köflum 2 og 3 er ákveðin endurtekning sem er hægt að komast hjá. Þessir kaflar sameinaðir gætu litið út svona:
2. Náttúra Íslands
Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.
Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem fjölbreytni lífs og lands er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.
Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.
Náttúruauðlindir Íslands, þar með taldar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði sem ekki eru í einkaeigu, óstaðbundin gæði, svo sem loft, vatn og stofnar lífvera, og staðbundin gæði svo sem landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Enginn getur fengið náttúruauðlindir Íslands til varanlegrar eignar eða afnota og þær má aldrei selja eða veðsetja.
Öll nýting á náttúru Íslands skal vera sjálfbær, nýtingu hennar hagað svo að náttúran skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða virtur.
Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.
Handhöfum löggjafar- og framkvæmdarvalds ber að sjá til þess að náttúrusvæði sem teljast einstök á lands- eða heimsvísu séu friðlýst. Þeim má hvorki raska á óafturkræfan hátt né afhenda þau til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.
3. Upplýsingaskylda og samráð
ATH Sumir gera greinarmun á umhverfi og náttúru, t.d. heimspekingar. Með umhverfi er þá átt við manngert umhverfi þ.e. náttúru sem hefur verið umhverfð. Það er því öruggara að telja upp í þessum kafla bæði áhrif á umhverfi og náttúru. Annað mætti hártoga.
Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á umhverfi og náttúru.
Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru.
Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir, umhverfi og náttúru Íslands skal tryggður með lögum.
4. Dýravernd
Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.
Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal sýna öllum lifandi verum og búsvæðum þeirra virðingu.
Sigrún Helgadóttir
líf- og umhverfisfræðingur
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.