Lagaskilyrði – lög á leikmannamáli

Arinbjörn Sigurgeirsson
  • Heimilisfang: Ystaseli 15, 109 Reykjavík
  • Skráð: 22.06.2011 01:01


Ágæta Stjórnlagaráð.

Sem lítt virkur áhorfandi hingað til er það tilfinning mín að ráðið og starfsmenn þess séu að vinna mjög gott og sýnilegt starf, með þátttöku almennings. Ég lýsi yfir ánægju með starfið.

 

Ég leyfi mér að gera hér vinnutillögu um drög að nýrri stjórnarskrárgrein:

 

Lagaskilyrði (Lagarammi?) (Forskrift laga?)

Öll lög skulu vera í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og vera heildstæð fyrir viðkomandi málaflokka. Þau skulu innihalda tilgang, (markmið?), skilgreiningar, meginreglur og helstu atriði sem lögunum er ætlað að mæla fyrir um (ná fram?). Lagatexti sem snertir almenning skal vera skýr og auðskiljanlegur almenningi.

- - - - -

Ég las lauslega í gegnum gögn frá 13. ráðsfundi og svipaðist um eftir mögulegum stað fyrir svona ákvæði. Helst sýnist mér þetta geta átt heima í kaflanum Störf Alþingis. Og þá líklega helst eftir 10. grein (Opnir fundir) og fyrir 14. grein (Lögrétta). Sennilega sem sérgrein, frekar en hluti 11. eða 12. greinar (fyrirsagnir þeirra óbreyttar eru ekki lýsandi fyrir svona innihald.

 

Að sjálfsögðu er þetta „vinnutillaga“ - tillaga eða drög að texta, sem sýnir hugsunina en á auðvitað að skoða gagnrýnið af ráðinu. Og ef ráðið er sammála mér um þörf og gagnsemi slíks ákvæðis þarf ábyggilega að breyta/ umorða ákvæðið, eins og fellur best að brag og heildaryfirbragði stjórnarskrárinnar nýju.

 

Rökstuðningur við nauðsyn þess að stjórnarskráin innihaldi ákvæði um „lagaskilyrði“ - skilyrði sem lög þurfa að uppfylla, er að í dag eru ýmis lög sem eru ekki skiljanleg almenningi. Dæmi um þetta eru lög um gjaldþrot og fleira. Og annað nærtækt dæmi; lög númer 151/2010 vegna gengistryggðu lánanna, sem meira að segja sérfræðingar, ráðherra og fleiri eiga í erfiðleikum með að skilja og túlka með samræmdum hætti - hvað þá þær þúsundir einstaklinga sem þessi lög snerta.

Það er óásættanlegt í lýðveldinu Íslandi á árinu 2011 að almenningur geti ekki ekki með auðveldum hætti skilið lög/lagatexta sem snerta hann.

Sum lög eru heldur ekki nægilega „heildstæð“ eða „tæmandi“. Til dæmis eru fjölmörg lög sem tengjast gjaldþrotum og mörgu af því sem á undan slíku getur farið. Eðlilegra væri að sett væri vönduð vinna í að sameina slíka lagabálka í ein heilstæð lög og um leið að einfalda lögin efnislega og færa þau yfir á leikmannamál. Það er í samræmi við „forskriftina“ sem hér er gerð tillaga um að sett verði sem skilyrði í nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Núverandi ástand er ekki ásættanlegt.

 

Skiptir þetta máli að öðru leyti?

Já. Auka þarf skilvirkni í íslensku þjóðfélagi, ekki síst á þeim tímum sem við lifum nú og framundan. Tíminn er mikilvægur okkur öllum og samfélaginu sjálfu. Fækka þarf óvissumálum sem mörg leiða til ágreinings og tímafrekra dómsmála. Almenningur, fyrirtæki og aðrir geti betur áttað sig á réttindum og skyldum sínum, hlutverk og mörk aðila séu skýrari - lagasetning verði eins vönduð og yfirveguð og kostur er. Það er að jafnaði ódýrara þegar á heildina er litið að vinna grunnvinnu betur og þurfa síður að endurvinna mál (í Alþingi) og fyrir dómstólum. Ég tel að grunnlög okkar, stjórnarskráin, sé réttur vettvangur fyrir slíkan ramma um aðra löggjöf í landinu.

 

Nánar um bakgrunn tillögunnar:

Sem einn af frambjóðendum til stjórnlagaþings á sínum tíma setti ég 4. nóv. 2010 fram á bloggsíðu og víðar hugmyndir um að í stjórnarskrá væru sett skilyrði sem lög þyrftu að uppfylla. Slík ákvæði eru ekki í núgildandi stjórnarskrá. (Eðlilegt er að nefna hér einnig að ég tók á sínum tíma fyrsta árið í lögfræði í HÍ, hef einnig skoðað og unnið með mörg lög í vinnu og einkalífi og í félagi við aðra veitt margar umsagnir um Alþingismál.)

 

Í blogginu segir meðal annars um „lagaskilyrðin“ og stjórnarskrána:

„Öll lög, ættu í upphafi sínu að innihalda tilgang og markmið, hverju lögunum væri ætlað að ná fram, hver væri „andi laganna“. Með þessum einfalda og sjálfsagða hætti væri hægt að einfalda og stytta lög verulega. Í þeim þyrfti að auki að setja fram skilgreiningar, meginreglur og önnur helstu atriði og svo stoppa. - Ekki fara út í endalaus smáatriði, því það er auðvitað illframkvæmanlegt að tilgreina öll möguleg og ómöguleg afbrigði mannlegrar hegðunar og aðstæðna í lögum. Þar sem upp á vantaði, væri horft til tilgangs, markmiðs og anda laganna.

 

Það er ekkert um svona í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í dag. Ég tel að í henni, grunnlögum landsins, eigi ákvæði um ofangreint fullt erindi. Stjórnarskráin myndi sem sagt tilgreina að öll íslensk lög og reglugerðir ættu að vera í samræmi við stjórnarskrána, þau væru á skýru og vönduðu leikmannamáli og innihéldu tilgang og markmið þannig að í vafatilvikum væri hægt að miða við anda laganna. Einnig að lögin tryggðu jafna virðingu málsaðila.“

 

Sjá nánar í blogginu: (http://arinbjorn.blog.is/blog/arinbjorn/entry/1112925/ )

 

Með bestu samstarfskveðju

og von um góðan árangur af starfinu öllu,

 

Arinbjörn Sigurgeirsson

- frá Bjargi

nú í atvinnuleit

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.