Aðhald og eftirlit með stjórnvöldum

Flóki Ásgeirsson
  • Heimilisfang: Spítalastígur 10, 101 Reykjavík
  • Skráð: 21.06.2011 00:42

Af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 verður dregin sú ályktun að eitt af því sem mikilvægt er að tryggja með nýrri stjórnarskrá sé virkara aðhald og eftirlit með því að stjórnvöld fari að lögum og sinni lögbundnum hlutverkum sínum sem skyldi. Fyrirliggjandi tillögur Stjórnlagaráðs um að mælt verði svo fyrir í stjórnarskrá að tilmæli umboðsmanns Alþingis til stjórnvalda séu bindandi fela í sér skref í þessa átt. Jafnframt undirstrika slíkar tillögur þörfina fyrir auknum heimildum umboðsmanns til að fylgja eftirliti sínu með stjórnvöldum eftir með virkum hætti.

 

Ljóst er að ekki er nægilegt að lög séu bindandi heldur þarf jafnframt að vera mögulegt að framfylgja þeim í þeim tilvikum sem þeim er ekki fylgt. Ætla verður að hið sama eigi við um tilmæli umboðsmanns Alþingis. Jafnvel þó slík tilmæli væru bindandi að lögum þyrfti eftir sem áður að vera unnt að framfylgja þeim í þeim tilvikum sem þeim væri ekki fylgt.

 

Samkvæmt sænskum stjórnlögum (6. gr. 13. kafla Regeringsformen) fara umboðsmenn sænska þingsins með ákæruvald. Hafa þeir heimild til að höfða mál vegna ætlaðra lögbrota stjórnvalda. Í framkvæmd hefur þessi heimild verið lítið notuð. Hins vegar er tilvist hennar talin mikilvægur þáttur í því að tryggja að stjórnvöld hlíti tilmælum umboðsmanna enda liggur fyrir að stjórnvald sem ekki hlítir slíkum tilmælum getur átt von á því að umboðsmaður höfði mál gegn því.

 

Samkvæmt framansögðu má færa fyrir því rök að ein leið sem fær sé til að ljá embætti umboðsmanns Alþingis aukið vægi sé að fela umboðsmanni ákæruvald að sænskri fyrirmynd. Má jafnframt ætla að slíkt væri í senn einföld og áhrifarík leið til að efla aðhald og eftirlit með stjórnvöldum almennt.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.