Um menningararf og fleira

Nils Gíslason
  • Heimilisfang: Skógarbraut 1107
  • Skráð: 18.06.2011 17:52

Þorvaldur Gylfason útskýrir svo:Menningararfur íslensku þjóðarinnar verðskuldar sér ákvæði um vernd. Vitnar hann síðan í grein: „Þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til eignar eða varanlegra afnota, selja eða veðsetja. Síðan nefnir hann dæmi um Skarðsbók og Valþjófsstaðahurðina sem allir vita að heyra undir þessa skilgreiningu um þjóðareign. Síðan segir hann að ef einhver telur að það sé verið að selja „eignir þjóðarinnar“, þá hafi hann rétt til þess að láta reyna á það fyrir dómstólum.

Hann víkur sér alveg frá því að skoða málið betur. Dómstólar geta aðeins dæmt eftir lögum.  Hvaða lög gilda í þessum efnum? Ef búið er að gera upp fyrsta Fergusoninn og hann er auglýstur til sölu á Ebay, þá vaknar spurning, er hann menningararfur, er hann ekki nógu gamall (hvað segja lögin)?  Hvenær verður hlutur að „þjóðargersemi“? Er þjóðargersemi þjóðareign? Ef mér finnst að fyrsti Fergusoninn sé gersemi í íslenskri landbúnaðarmenningu, get ég þá kært söluna? Hver borgar málskostnaðinn?  Ég efast einnig um að ég geti skotið dóminum til Hæstaréttar þar sem ég get ekki sannað að ég hafi persónulegan hag af málinu.

Það sem ég er að reyna að segja, er að í svona málum þarf að setja ramma fyrir dómstólana að dæma í. Auðveldasta leiðin fyrir Stjórnlagaráð er að bæta við klausu um að „Alþingi setji rammalög um það hvað sé þjóðareign“ ásamt lögum um bætur ef seljandi verður af sölu vegna laganna og er kannski búinn að leggja mikla fjármuni í verkið. Mér finnst það reyndar léleg framistaða að velta slíku máli yfir á ríkisstjórn án þess að minnsta kosti að setja grunnramma fyrir löggjafann.

Annars.  Þið eruð frábær.

Nils Gíslason

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.