Peningar og stjórnarskrá

Gunnar Skúli Ármannsson
  • Heimilisfang: Seiðakvísl 7
  • Skráð: 16.06.2011 15:40

PENINGAR OG STJÓRNARSKRÁ

Peningar:

Hver á að búa þá til?

Hver á að stjórna magni þeirra?

Hvað eru peningar?

 

(Í meðfylgjandi pdf eru myndir og skýringar)

Það skiptir öllu máli hvernig samfélög skilgreina peningana sína því það ákvarðar hver stjórnar samfélaginu. Ef peningar eru skilgreindir sem auður þá stjórna þeir auðugu. Ef peningar eru skilgreindir sem skuld munu lánardrottnar stjórna. Ef við aftur á móti skilgreinum peninga eins og Aristóteles sem „óhlutbundið lögbundið vald" þá hafa handhafar valdsins, löggjafinn, möguleika á því að stjórna peningamálunum fyrir umbjóðendur sína þeim til hagsbóta.

Framleiðsla á verðmætum er grundvöllur viðskipta á verðmætum. Viðskipti með verðmæti skapa þörf fyrir peninga en ekki öfugt. Eini tilgangur peninga er að auðvelda okkur viðskipti með verðmæti. Ef engin verðmæti eru búin til er engin þörf fyrir peninga. Peningar eru þess vegna verkfæri til að auðvelda okkur lífið en eiga ekki að vera harðstjóri sem stjórnar tilverunni.

Í kjölfar kreppunnar miklu árið 1929 fóru margir hagfræðingar að velta fyrir sér lausnum til að koma í veg fyrir kreppur í fjármálaheiminum. Mannkynssagan segir frá kreppum eftir að einkabankar fengu til sín valdið til að stjórna framboði á peningum í heiminum. Til að nefna helstu ártölin þá eru þau eftirfarandi: 1637, 1720, 1772, 1792, 1796, 1813, 1819, 1825, 1837, 1847, 1857, 1866, 1873, 1884, 1890, 1893, 1896, 1901, 1907, 1910, 1929, 1973, 1980, 1983, 1987, 1989, 1990, 1992, 1994, 1997, 1998, 2001 og 2007.

Hagfræðingar í Bandaríkjunum, undir forystu Henry Simons og Paul Douglas frá Chicago, komu fram með áætlun sem var kölluð „the Chicago plan“. Margir samtímamenn þeirra tóku undir með þeim og má nefna Fisher í Yale, Graham og Whittlesley í Princeton og Hamilton í Duke ásamt fleirum. Þess vegna var þessi áætlun samin af mörgum af fremstu fræðimönnum Bandaríkjanna við stærstu og fremstu háskóla þar í landi. Því miður drukknuðu þessar hugmyndir þeirra í hávaða seinni heimsstyrjaldarinnar. Eftir seinna stríð hafa kenningar hagfræðinga að mestu snúist um það hvernig magn peninga hefur áhrif á verðmætasköpun en síður horft til þess hvort verðmætasköpun þarfnist ákveðins magns peninga.

Chicago-áætlunin gengur út á það að ríkisvæða peningamyndunina en ekki bankana. Þar sem mannkynssagan endurtekur sig í sífellu var í raun ekki um nýja hugmynd að ræða. Aristóteles (384-322 f.Kr.) var uppi á fjórðu öld fyrir Krist og hafði þá þegar skilgreint peninga. Hans skilgreining er að peningar séu abstract eða óhlutbundið vald sem fær gildi sitt frá lagasetningu löggjafarvaldsins. Það er þjóðfélagslegt vald skapað með lögum. Eins og Aristóteles segir;

"All goods must therefore be measured by some one thing...now this unit is in truth, demand, which holds all things together...but money has become by convention a... representative of demand; and this is why it has the name nomisma - because it exists not by nature, but by law or binding custom (which in Greek was nomos) and it is in our power to change it and make it useless."

Hægt er að nota margt sem ávísun á verðmæti en þegar ríkisvaldið hefur skilgreint einhvern ákveðinn miðil eða ávísun fyrir verðmæti sem lögeyri og gert öllum skylt að nota hann sem slíkan þá er viðkomandi miðill orðinn að peningum en ekki fyrr. Peningar eru því ávísun á verðmæti og oft kallaðir fiat-peningar. Þeir eru verðlausir í sjálfu sér, enda ekki gerðir úr neinum verðmætum eins og gulli. Peningar eru eingöngu miðill/ávísun á verðmæti og geta haft mismunandi táknmyndir eins og krónur, evrur, dollarar og eru þar af leiðandi einingar á verðmæti í viðkomandi ríkjum.

Peningar eru eins og áður sagði ávísun á verðmæti, eining fyrir verðmæti, miðill fyrir verðmæti og skilgreindir í lögum sem slíkir. Peningar eru ekki verðmætin!

Peningar hafa verið skilgreindir og notaðir á þennan hátt áður í mannkynssögunni. Spartverjar notuðu peninga á þennan hátt fyrir 2400 árum og síðan lýðveldi Rómaveldis. Talley-sticks í Bretlandi voru notaðir sem peningar frá 1100 til 1826 eða samfleytt í 726 ár og hefur enginn annar gjaldmiðill verið jafn lengi í notkun. Þetta voru spýtur sem Henry I konungur bjó til sem peninga og dreifði meðal þegna sinna.

Nýlendur Breta í Bandaríkjunum höfðu ekki peninga því bannað var með lögum, bæði í Bretlandi og Hollandi, að senda peninga til nýlendnanna. Þess vegna urðu nýlendurnar tilraunaverkstæði fyrir peninga. Allt var notað sem peningar á þessum árum, m.a. tóbakslauf. Ríkið Massaschusette datt niður á góða lausn og prentaði peninga 1690.

Í frelsisstríði Bandaríkjanna gegn Englendingum prentuðu Bandaríkjamenn „the Continental currency“ án nokkurrar skuldsetningar og á þann hátt greiddu þeir fyrir kostnaðinn af stríðinu. Abraham Lincoln gat bara fengið lán á 25% vöxtum hjá bönkunum í þrælastríðinu og þess vegna bjó hann til peningana sjálfur án skuldsetningar. John F. Kennedy bjó einnig til peninga án skuldsetningar þegar geimferðaáætlun Bandaríkjanna var sett á stofn.

Í þessum dæmum eru það kjörnir fulltrúar þjóða sinna, eða leiðtogar hennar, sem ákvarða peningamagnið í umferð og dreifa peningum án aukakostnaðar. Magn peninga í umferð var alltaf á pari við framleiðslu þjóðfélaganna og því varð peningamyndunin ekki verðbólgumyndandi. Reyndar fölsuðu Bretar svo mikið af the Continental currency, í þeim tilgangi að reyna að eyðileggja miðil Bandaríkjamanna, að það olli verðbólgu.

Það sem er grundvallaratriði í þessari söguupprifjun er að peningar eru miðill og eining sem gegnir því hlutverki að auðvelda viðskipti milli einstaklinga svipað og aðrar einingar eins og metrar, kílógram eða sekúnda sem eru einingar sem auðvelda okkur tilveruna. Einnig er þetta saga þess að opinberir aðilar hafa oft haft valdið til að búa til peninga.

Takið eftir að í þessum dæmum voru peningarnir búnir til án skuldsetningar. Hið opinbera bjó til peningana án nokkurs annars kostnaðar en prentkostnaðarins og notaði peningana til að greiða fyrir framkvæmdir og þjónustu. Andstæða þessa kerfis er núverandi kerfi þar sem þarf að fá alla peninga að láni (með skuldsetningu) hjá bönkum.

Þar sem Chicago-áætlunin styðst við 2400 ára gamla skilgreiningu á peningum, en auk þess eru í sögunni mörg dæmi um notkun peninga samkvæmt þeirri skilgreiningu, dæmi sem gengu vel og skiluðu almenningi góðum kjörum, er ekki bara um að ræða einhverja kenningu fræðimanna heldur kenningu sem hefur staðist kröfu vísindanna um endurteknar tilraunir með svipaðri niðurstöðu í hvert skipti.

Flestir geta verið því sammála að peningar skipta máli og að þeir eru miklir örlagavaldar. Kreppan sem núna stendur yfir er dæmigerð og sýnir fram á að peningar stjórna en eru ekki verkfæri fjöldans til að skapa sér betra líf. Þegar „lánalínur þurrkuðust upp“ eða „skortur var á lánsfé“ ,eins og það var kallað árið 2008, þá var ástæðan sú að bankar hættu að lána meiri peninga til almennings og fyrirtækja hans. Það varð skortur á peningum. Það varð ekki skortur á neinu öðru. Til staðar voru starfsmenn, verkefni, hugmyndir, hráefni, tæki og tól. Allt raunhagkerfið stóð reiðubúið til frekari verka en sökum skorts á einingum, miðli, þá hrundi allt. Þessi saga hefur margendurtekið sig sl. 300 ár eins og ég rakti hér að ofan.

Af þeim sökum er peningakerfið eitt sterkasta aflið sem ákvarðar réttlæti eða óréttlæti í samfélagi okkar. Þeir sem stjórna peningamagni í umferð ráða hverjir lifa góðu lífi og hverjir verða gjaldþrota og líða skort. Þess vegna er það í raun erfitt að skilja hvers vegna almenningur veltir ekki meira fyrir sér eðli peninga en raunin er.

Hér á Íslandi, sem og annars staðar, höfum við fengið að finna fyrir skorti á peningum. Þrátt fyrir að sjávarútvegurinn, álframleiðslan, landbúnaðurinn og aðrir hlutar raunhagkerfisins hafi verið óskaddaðir og til staðar haustið 2008 stöðvaðist margt sökum skorts á peningum. Sá peningaskortur orsakaðist af stöðvun á nýjum lánum og innköllun á gömlum lánum. Ekki þarf að tíunda afleiðingarnar nánar en flestir þekkja til einhvers sem er í kröggum eða hefur orðið gjaldþrota og misst eigur sínar til lánardrottna.

Ástæðan fyrir skorti á peningum er að peningar eru búnir til af bönkum og að bankarnir stjórna magni peninga í umferð á hverjum tíma.

Samkvæmt íslenskum lögum þá hefur Seðlabanki Íslands eingöngu leyfi til að búa til seðla og mynt sem við höfum handa á milli. Það er um 5% af peningum í umferð. Seðlabankanum ber skylda til að sjá til þess að nægjanlegt magn sé af seðlum og mynt í umferð á hverjum tíma. Ef hann gerir það ekki lendir almenningur í augljósum vandræðum.

Bankar hafa einkaleyfi og einokun á því að búa til aðra peninga eða 95% af peningum í umferð. Til þess að banki geti búið til peninga verður einhver að taka þá að láni hjá bankanum, þ.e.a.s. ef þú átt peninga þá hefur þú eða einhver annar þurft að skuldsetja sig til að búa þá til. Þess vegna eru peningar í umferð sem skuld (ég sleppi til einföldunar að taka 5% hluta SÍ með í umræðuna). Af því leiðir að ef allir myndu fara í bankann sinn samtímis og greiða upp allar sínar skuldir við bankana þá væri ekki til neinn peningur í heiminum. Þá væri komin upp sú staða að til að kaupa sér eina bæjarins bestu yrðu menn að setja úrið sitt eða önnur verðmæti upp í sem greiðslu, þ.e.a.s. vöruskipti væru aftur komin til sögunnar.

Ef bankar, sem eru einkafyrirtæki, búa til peningana og stjórna magni peninga í umferð, og stjórna því þannig hvort almenningur hefur það gott eða slæmt, er þá ekki vert að nema staðar og íhuga stöðu mála? Er þetta besta hugsanlega kerfið til peningamyndunar fyrir allan þorra almennings?

Hið opinbera, ríkið, ríkissjóður þarf líka að taka peninga að láni hjá bönkunum í formi skuldabréfa. Skuldabréf ríkisins eru bara loforð ríkissjóðs um að greiða bönkunum aftur peninga sem ríkið fékk að láni hjá bönkunum. Bankarnir afhenda ríkinu peningana og fá loforð um að ríkið endurgreiði peningana. Auk þess þarf ríkið að greiða bönkunum vexti fyrir lánið. Þess vegna er ríkið háð bönkunum og er það meginskýringin á því að almenningi finnst oft ekki miklu skipta hverja hann kýs sem fulltrúa sína til setu á löggjafarsamkomum sínum.

Það vald sem bankarnir fá með einkaleyfi sínu á peningamyndun gerir það mjög brýnt að færa það vald aftur til þjóðarinnar þar sem það á heima. Þess vegna þarf að skilgreina valdið til að búa til peninga, lögeyri landsins, sem fjórða valdið í lýðræðinu. Það er flestum ljóst að framkvæmdarvaldið, löggjafarvaldið og jafnvel dómsvaldið eru háð peningavaldinu og gerir alla okkar lýðræðisskipan harla sérkennilega. Ef bankar stjórna þeim þremur þáttum lýðræðisins sem við treystum á, með einkaleyfi sínu á peningavaldinu, þá er lýðræðið hjóm eitt. Þess vegna verður að skilgreina peninga og hver fer með peningavaldið í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands til að endurreisa lýðræðið og völd almennings.

Við verðum að gera greinarmun á afsali á valdi almennings með kosningum fulltrúa til löggjafarvaldsins og einkabönkum. Við kjósum ekki stjórnir banka í almennum kosningum. Það eru bara ákveðnir aðilar sem eiga bankana. Þess vegna eru bankar ekki samfélagslega ábyrgir.

Margir halda að bankar láni út peninga sem einhver annar hefur lagt inn í sama banka. Það er að hluta til rétt en bara að litlu leyti. Svo nefnd bindiskylda gengur út á það að banki verður alltaf að halda eftir ákveðnu hlutfalli af peningum í hirslum sínum í lok dags. Til einföldunar skulum við gefa okkur að bindiskydan sé 10% en hún er í raun lægri. Það segir okkur að banki þarf bara að eiga 10% af þeim peningum sem hann lánar út. Ef banki á 1000 kr þá getur hann lánað út 90% af innistæðu sinni, þ.e. 900 krónur. Þegar hann hefur lánað út þessar 900 krónur koma þær fram einhver staðar í bankakerfinu og sá banki getur lánað 90% af þeim, þ.e. 810 kr og síðan koll af kolli. Þess vegna verður 1000 krónur að 10.000 krónum að lokum. Ef bankar eiga bara 1000 krónur þá er spurningin hvaðan komu 9000 krónurnar sem þeir mega búa til án þess að eiga þær í hirslum sínum. Ef bankarnir búa til peninga sem voru ekki til áður þá hafa bankarnir búið til peninga úr engu og þannig er það í raun.

http://www.chrismartenson.com/crashcourse/chapter-7-money-creation

Síðan þegar við förum í bankann til að útvega okkur peninga þá verðum við að taka þá að láni hjá bankanum og setja verðmæti, hús eða bíl sem veð til að fá peninga að láni hjá bankanum, sem sami banki bjó til úr engu. Síðan þurfum við að vinna til að geta endurgreitt bankanum peningana. Hið opinbera þarf líka að afla sér tekna til að endurgreiða bönkunum peningana sem ríkissjóður fær að láni hjá bönkunum og það gerir ríkið með því að skattleggja þegnana sína. Allt til að endurgreiða peninga sem eru búnir til úr engu.

Dæmisaga úr Stjórnlagaráði:

Fulltrúar Stjórnlagaráðs eru 25 talsins og ef þeir væru allur heimurinn og Ómar Ragnarsson stjórnlagaráðsfulltrúi væri þá bankinn í þeim heimi. Ómar einn hefur einkaleyfi á því að búa til peninga fyrir hina.

Hann lánar öllum meðlimum ráðsins 1000 krónur með því skilyrði að lánin séu endurgreidd að ári. Þessar 1000 kr. gera fulltrúum Stjórnlagaráðs kleift að eiga viðskipti á milli sín allt árið. Að ári endurgreiða allir stjórnlagaráðsfulltrúarnir Ómari skuld sína og allir eru því skuldlausir en þá hafa fulltrúarnir enga peninga til að stunda frekari viðskipti á milli sín og þurfa því aftur að skuldsetja sig til að fá peninga. Þetta var dæmi um höfuðstól án vaxta.

Þar sem Ómar telur að hann geti ávaxtað pund sitt betur með öðrum hætti og að hann taki áhættu finnst honum réttlætanlegt að lánin beri vexti og fer því fram á það við stjórnlagaráðsfulltrúana að þeir greiði sér 10% vexti. Aftur lánar hann fulltrúunum 1000 krónur til eins árs. Að ári skuldar hver um sig 1100 krónur en þar sem Ómar bjó bara til peninga fyrir höfuðstólnum EN EKKI VÖXTUNUM er það augljóst að það munu ekki allir geta staðið í skilum. Þegar þessi staða er orðin ljós fyrir fulltrúunum þá reyna þeir að hafa fé hver af öðrum við störf sín til að geta staðið í skilum við Ómar. Þar með er komin fram samkeppni sem ku vera af hinu góða en að sama skapi dregur hún úr afköstum við sköpun stjórnarskrárinnar.

Til að allt fari ekki í bál og brand í Stjórnlagaráðinu þá ákveður Ómar að lána meira. Skuldin er orðin 1100 krónur og Ómar býr til 1100 krónur á haus. Þar með hefur peningamagn Stjórnlagaráðs aukist úr 24.000 í 26.400 krónur. Þessa upphæð þarf að endurgreiða að ári með vöxtum sem er ekki enn búið að búa til peninga fyrir. Þriðja árið er skuldin komin í 29.040 krónur. Og enn og aftur er komið upp sama vandamál sem er að ekki voru búnir til peningar í upphafi fyrir vöxtunum, bara höfuðstólnum. Það er alltaf leyst með því að búa til enn meiri peninga svo að allir geti staðið í skilum. Þar sem peningamagn hjá Stjórnlagaráði er alltaf að aukast ár frá ári er augljóst að hver peningur verður sífellt minna virði og þar með er skýringin komin á verðbólgu.

Þetta dæmi skýrir einnig hvernig skuldsetning heimsins eykst alltaf vegna þess að það er alltaf verið að búa til meiri peninga með skuldsetningu. Takið eftir að það eru ríkissjóðir ýmissa landa sem eru núna að taka lán eftir bankahrunið 2008 í stað almennings.

http://www.chrismartenson.com/crashcourse/chapter-10-inflation

Samkeppnin um peninga fyrir vaxtagreiðslunum gerir það að verkum að einhverjir fara í gjaldþrot og þar er komin ein skýring á sífelldum gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja.

Sé vikið að dæmisögunni úr Stjórnlagaráðinu getur dagsformið hjá Ómari valdið því að hann setur peningana sína stundum á útsölu og lækkar vexti og þá taka margir meira lán og þar með eykst peningamagn í umferð og því ganga viðskiptin vel og öllum líður vel. Síðan á Ómar það til að vantreysta öllum og lánar mjög lítið og þá skrúfast fyrir framleiðslu á verðmætum og gjaldþrot verða algeng.

Ómar stjórnar peningamynduninni og þar með ræður Ómar örlögum allra hinna fullltrúanna. Hann er því orðinn valdamesti fulltrúinn í Stjórnlagaráði. Þess vegna setur sig enginn upp á móti því þegar hann kynnir fyrir fulltrúunum stjórnarskrá sem hann hefur samið sjálfur. Þess vegna samþykkja allir fulltrúarnir stjórnarskrána hans því hver vill verða gjaldþrota og missa allt sitt? Þar með er komin skýringin á því að litlu skiptir hverjir fara með löggjafar- eða framkvæmdarvaldið í samfélögum manna ef þeir ráða ekki yfir peningavaldinu líka.

Við metum verðmæti með peningum. Á Íslandi notum við eininguna krónur. Peningar eru líka miðill. Við flytjum þau verðmæti sem við eigum frá einum stað til annars með peningum til að auðvelda viðskipti. Það er snúið að koma þeim verðmætum sem felast í 160 klst. vinnumánuði launamannsins til kaupmannsins til að greiða fyrir mjólk og brauð án peninga. Þótt það tækist án peninga þá væri kaupmaðurinn síðan í vandræðum með að koma 160 klst. í verð hjá birgjum og heildsölum. Þess vegna eru peningar bara miðill á verðmæti, hálfgerður vörubíll. Þess vegna eru peningar verðlausir í sjálfu sér en þau verðmæti sem þeir túlka og miðla eru hin raunveruleg verðmæti.

Þar sem allur peningur er fenginn að láni hjá bönkum í dag þarf vinnu og framleiðslu til að endurgreiða bönkunum skuldina. Almenningur þarf að vinna BÆÐI fyrir brauðinu og fyrir peningunum sem það fær að láni hjá bönkunum til að kaupa sér brauðið. Af þeim sökum þarf almenningur að vinna a.m.k. 50% meira en nauðsynlegt er. Ríkissjóður þarf að skattleggja þegnana vegna þess sama og allir sem reka fyrirtæki hafa sama kostnað sem þarf að vinna upp með aukinni framleiðni og hömlum á kauphækkunum. Ef vöruskipti væru eina aðferðin þá myndi almenningur taka sín verðmæti beint út í búð og kaupa sér brauðið.

Peningar sem eru búnir til sem skuld af bankakerfinu er stærsti kostnaðarliðurinn í núttímaþjóðfélögum. Þar sem alltaf þarf að búa til meira og meira af peningum, eins og ég skýrði út hér fyrir ofan, þá aukast skuldir heimsins stöðugt. Sú staðreynd að peningar eru búnir til sem skuld mergsýgur allt raunhagkerfið. Skuldir heimsins við bankakerfið takmarkar mjög möguleika stjórnvalda til að sinna og koma til móts við óskir þegnanna. Þess vegna verður mannskepnan alltaf að ganga meira og meira á móður jörð og þær auðlindir sem hún býr yfir. Græn vistvæn og sjálfbær stefna á ekki möguleika í peningakerfi nútímans.

Að lokum getur raunhagkerfið ekki staðið í skilum við peningavaldið og þá mun hugsanlega stórslys hljótast af. Reyndar er sú staða komin upp í Bandaríkjunum að skuldir þeirra eru ósjálfbærar. Einnig höfum við séð að mörg lönd eru að borga stóran hluta af tekjum sínum bara í vexti og sum lönd mestallar tekjur sínar. Þegar þessir tveir ólíku hagsmunir skella saman milli lánardrottna og lántakenda er mikil hætta á byltingum eða styrjöldum sem geta endað með endalokum siðmenningar okkar.

Þrátt fyrir að saga skuldarinnar sé efni í sérstaka greinargerð þá vil ég bara nefna að til forna í Mesópótamíu og Egyptalandi þá afskrifuðu stjórnvöld skuldir lánardrottna þegar þær ógnuðu raunhagkerfinu. Stjórnvöld þeirra tíma voru valdhafarnir og hausar fuku ef menn voru með múður. Þar sem lánardrottnar eru stjórnvöld og valdhafar í dag er það ekki lengur inni í myndinni að afskrifa skuldir og því er raunhagkerfinu fórnað.

 

Ný stjórnarskrá og framtíð peningamála:

Ef við snúum okkar að endurreisn peningamyndunar hér á landi þá hefur reynslan sl. 2400 ár sýnt glögglega að það fyrsta sem þarf að ákveða er hvort að valdið til að búa til peninga í þjóðfélaginu eigi að vera í höndum einkaaðila eða almennings. Þess vegna þarf að skilgreina það í stjórnarskrá landsins. Þar þarf að koma fram að almenningur hafi valdið óskorað til peningamyndunar. Þar þarf að koma fram að einkaaðilum sé óheimilt með öllu að búa til peninga. Hvort nánar eigi að kveða á um það hvernig staðið sé að peningamyndun í stjórnarskrá er matsatriði en það sem skiptir öllu máli er að almenningur hafi valdið en ekki einkafyrirtæki.

Reyndar er margt tíundað um löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldið í stjórnarskránni. Þar sem peningavaldið er sterkasta valdið og það eftirsóknarverðasta ætti þjóðin að takmarka aðgang að því með nákvæmri forskrift í stjórnarskrá.

Þegar minnst er á að hið opinbera eigi að sinna peningamyndun er alltaf sagt að það leiði til óðaverðbólgu. Ég hef þegar talið upp ártölin þar sem stærstu kreppurnar áttu sér stað og bendi á að á þessum árum var peningamyndun undir stjórn einkabanka. Þar sem hönnun peningakerfisins krefst stöðugt meiri peninga, eins og ég hef lýst hér að ofan, þá er alltaf verðbólga í núverandi peningakerfi.

Oft benda menn á millistríðsárin í Þýskalandi þegar óðaverðbólgan keyrði þar svo fram úr hófi að menn keyptu brauðhleif með fullri hjólböru af peningaseðlum. Það sem ekki hefur fylgt þeirri frásögn er að Seðlabanki Þýskalands var einkabanki á þeim tíma. Hann hafði verið tekin frá þýska ríkinu að kröfu bandamanna í lok fyrra stríðs. Það var ekki fyrr en þýska ríkið tók stjórn bankans úr höndum einkaaðila að peningaprentuninni linnti.

Þar sem bankakerfinu hefur tekist að skapa skuldir sem munu taka jörðina árhundruð að greiða til baka þá er það engan veginn meðmæli með einkarekinni peningamyndun. Því er staðan slík að almenningur og kjörnir fulltrúar almennings geta einfaldlega ekki gert verr en einkabankarnir. Slík er afrekaskrá einkabankanna.

Það sem er aðalatriðið er að peningar séu búnir til samhliða og í takt við verðmætasköpun í þjóðfélaginu því aðeins þannig valda þeir ekki verðbólgu. Peningar sem eru búnir til umfram framleiðslu verðmæta valda hins vegar verðbólgu. Ef framleiðslan er meiri en peningamyndunin þá verður verðhjöðnun.

Ef öll framleiðsla heimsins eru tveir bílar og allur peningur í heiminum eru 1000 krónur þá kostar hvor bíll 500 krónur. Ef peningamagnið er aukið í 2000 krónur þá kostar hvor bíll 1000 krónur, þ.e. verðbólga. Ef framleiðslan eykst í fjóra bíla og allir peningarnir eru 1000 krónur þá kostar hver bíll 250 krónur. Þá verður verðhjöðnun sem í þessu ljósi er hagstæð athöfn en er ekki möguleg í núverandi peningakerfi. Raunhagkerfið hefur aldrei möguleika á að skáka peningamynduninni því stöðugt þarf að búa til meiri peninga sem skuld til að peningakerfið bresti ekki.

Samkvæmt þeim hugmyndum sem hér er komið á framfæri væru bankarnir ekki ríkisvæddir heldur bara valdið til að búa til peninga. Eftir að hið opinbera hefur fengið valdið til að búa til peninga þá getur ríkið búið til peninga án nokkurs kostnaðar fyrir það sjálft, þ.e. búið til peninga án skuldar. Við skulum muna að peningar eru eining og miðill og verðlaus í sjálfu sér. Við erum nefnilega alltof vön því að horfa á peningana sjálfa sem verðmæti í stað þess að sjá þá sem ávísun á verðmæti eða miðil fyrir verðmæti.

Þar sem ekki verður verðbólga samfara verðmætasköpun getur ríkið greitt fyrir sínar framkvæmdir og þjónustu með peningum sem það býr til sjálft. Því getur ríkið látið smíða brú og greitt fyrir hana með peningum sem það býr til úr engu án kostnaðar fyrir ríkið. Það greiðir fyrir brúna eftir því sem hún verður til þannig að peningar í umferð verði alltaf á pari við framleiðslu. Þess vegna getur ríkið greitt fyrir alla sínar framkvæmdir og þjónustu s.s. heilbrigðismál, menntamál, löggæslu o. s. frv. Þess vegna myndi tekjuskattur sennilega hverfa. Auk þess væri það ekki háð magni peninga hversu mikið ríkið framkvæmdi heldur takmarkaðist það af mannafla og hráefni. Ef við veltum þessu fyrir okkur þá eiga peningar að vera það sem lætur viðskipti fljóta óhindrað um þjóðfélagið en ekki að vera flöskustútur á framkvæmdir viljugra manna.

Sennilega er auðveldast að nýta sér þekkingu Seðlabanka Íslands, Skattstofunnar og Hagstofunnar til að meta hversu mikið af peningum þarf að vera í umferð á hverju ári. Í Seðlabankanum væri hópur sérfræðinga sem ákvarðaði hversu mikið af peningum ætti að vera í umferð á hverjum tíma. Þeir miðuðu við þá verðmætasköpun sem ætti sér stað á sama tíma. Þess vegna væri það magn verðmætanna sem ákvarðaði magn peninga í umferð. Sérfræðingarnir hefðu það hlutverk að gæta þess að þessar tvær stærðir væru á pari. Þetta hlutfall hefðu alþingismenn engin bein áhrif á.

Margir óttast að þingmenn muni ásælast þetta vald til að ákvarða magn peninga í umferð. Sá ótti stafar af því að hugsunin er föst í viðjum vanans. Þar sem peningar verða ekki forsenda fyrir verðmætasköpun er engin ástæða fyrir þingmenn að ásælast þetta vald. Forgangsröðuninni hefur verið snúið við. Hins vegar ef alþingismenn gætu útvegað verkefni, hráefni og mannafla þannig að verðmæti yrðu til þá myndi peningamagn aukast vegna útreikninga sérfræðingahópsins. Þar með væru peningar komnir á þann bás sem þeir eiga heima, þ.e. að vera verkfæri til að gera lífið auðveldara.

Þegar haft er í huga að verðmætasköpun í þjóðfélaginu er samvinna allra sem í því starfa, og er auk þess afrakstur reynslu kynslóðanna, þá er það ósköp eðlilegt að deila út peningum. Það sem er nauðsynlegt að gæta að er að peningamgagn verði samstiga verðmætasköpun í þjóðfélaginu.

Sú breyting verður gerð að bindiskylda verður aukin í 100%. Það er að banki getur aldrei lánað út peninga nema hann eigi þá til í hirslum sínum, þ.e. banki getur ekki búið til peninga úr engu. Með þessu yrði bankakefið fært í það horf sem allir trúa að sé til staðar í dag. Bankar munu halda áfram að starfa nema þeir hafa ekki vald til að búa til peninga.

Þar sem umræða um eðli peninga og hvernig þeir eru búnir til hefur ekki verið mikil þá kemur ofanskráð spánskt fyrir sjónir og veldur vantrú og undrun. Ég vænti þess að eftir lestur þessarar greinargerðar hafi lesendur þó komist að þeirri niðurstöðu að hugmyndir um nýtt peningakerfi geti virkað. Þess vegna verða lesendur að gera upp við sig hvort þeir vilja halda áfram með núverandi kerfi eða taka upp nýtt.

Allir geta kynnt sér afraksturinn af núverandi kerfi. Um 1% af borgurum heimsins eiga um 50% af verðmætum veraldarinnar. 22.000 börn á milli 0 o g 5 ára deyja á degi hverjum! Í langflestum tilvikum er um að ræða auðlæknanlega sjúkdóma. Algengasta ástæða þessara dauðsfalla er skuldsetning sem kemur í veg fyrir að viðeigandi yfirvöld geti sinnt þegnum sínum.

Ef öll lönd gætu framleitt sinn lögeyri án skuldsetningar myndu þau grafa brunna eftir hreinu vatni, byggja áveituskurði, stíflur, vegi, skóla, sjúkrahús o.s.frv. Þar sem viðkomandi lönd þurfa að taka peninga að láni til að sinna skyldum sínum við þegna sína eru framkvæmdir takmarkaðar af magni peninga en ekki mannafla. Við vitum að milljónir manna ganga um í reiðileysi án atvinnu og því er ekki skortur á mannafla.

Þess vegna verða lesendur að gera upp við sig hvort kerfið þjónar almenningi betur. Það er í raun ekki þörf á því að velta fyrir sér torskildum skilgreiningum hagfræðinga eða flóknum jafnvægislíkönum greiningadeilda banka.

Hvort er betra fyrir almenning að bankar búi til peninga úr engu og komi þeim í umferð með lánum með sívaxandi skuldsetningu eða þá að hið opinbera búi til peninga úr engu og dreifi þeim án skuldsetningar í umferð?

Hvort er meira praktískt? Hvor aðferðin hefur í för með sér meira réttlæti? Hvor aðferðin hefur í för með sér meira ranglæti? Einfalt hagrænt mat að hætti almmennrar skynsemi ætti að duga til að komast að niðurstöðu. Þegar því hefur verið svarað hvort er hagstæðara fyrir fjöldann vænti ég að valið verði auðvelt.

Robert H. Hemphill, Credit Manager of the Federal Reserve Bank of Atlanta, said:

„If all the bank loans were paid, no one could have a bank deposit, and there would not be a dollar of coin or currency in circulation. This is a staggering thought. We are completely dependent on the commercial Banks. Someone has to borrow every dollar we have in circulation, cash or credit. If the Banks create ample synthetic money we are prosperous; if not, we starve. We are absolutely without a permanent money system. When one gets a complete grasp of the picture, the tragic absurdity of our hopeless position is almost incredible, but there it is. It is the most important subject intelligent persons can investigate and reflect upon. It is so important that our present civilization may collapse unless it becomes widely understood and the defects remedied very soon."

 

"The mistake...lies in fearing money and trusting debt".

 

(p. 199, Simon's Economic Policy for a Free Society )

 

Takk fyrir,

Gunnar Skúli Ármannsson

Ég vil þakka Rakel Sigurgeirsdóttur og Helgu Þórðardóttur kærlega fyrir óeigingjarnt starf við prófarkalestur og ráðleggingar. Ábyrgðin er þó öll mín.

 

 

Peningar og Stjórnarskrá (PDF)

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.