Ísland og stríð
Ingólfur Eiríksson
- Heimilisfang: Smyrilsvegur 28
- Skráð: 14.06.2011 15:06
Ísland og stríð
Ísland hefur öldum saman verið friðsamt land, þar sem allir hafa getað lifað án ótta við stríð og þær hörmungar sem þeim fylgja. Aldrei hefur okkar þjóð verið í jafnhryllilegum aðstæðum og Afganistan eða Írak. Það er ekki að ástæðulausu að öll lýðræðislönd vilja forðast stríð, þau kalla fram allar verstu hliðar mannsins. Í þeim er engin mannúð, engin miskunn og ekkert frelsi, þau eru helvíti á jörðu. Að styðja stríð þó ekki sé nema í orði er neyðarúrræði og það á ekki að vera á valdi eins manns eða tveggja.
Enginn hefur gleymt stríðinu í Írak og fyrir okkur sem fylgdumst með þeim atburðum eru þeir ljóslifandi í minni þó sumir, þ.á m. ég, væru of ungir til að skilja þá. Hins vegar skilja flestir þessa atburði nú til dags þó tilhugsunin um skelfilegar afleiðingar stríðsins hrjái sárafáa Íslendinga á hverjum degi. Aftur á móti er þessi tilhugsun ekki bundin við huga milljóna Íraka. Hún er veruleiki þeirra. Írak á um sárt að binda eftir áralanga stjórn harðstjóra og átta ára hersetu stærsta hers allra tíma. Meira en 100.000 manns eru látnir, ótalmargir þeirra saklausir borgarar.
Nú skulum við beina sjónum okkar að Íslandi. Afstaða okkar til stríðs í útlöndum virðist valda fáum hugarangri. Íslensk stjórnvöld studdu stríðið í Írak, en það var ekki gert með lýðræðislegum hætti. Tveir menn, forsætis- og utanríkisráðherra, tóku þessa ákvörðun saman, að utanríkisnefnd og Alþingi forspurðu. Framkvæmdarvaldinu ber að framkvæma vilja þingsins, en hve margir hefðu greitt atkvæði með ályktun þess efnis að Íslendingar legðu blessun sína yfir stríðið í Írak? Er ekki undarlegt að stuðning 75% þingmanna þurfi til að víkja forseta úr hans nær valdalausa embætti en ekki eins einasta þegar veita þarf stjórnvöldum heimild til að samþykkja stríðsrekstur? Þó skiptir stríð síst minna máli en hver er æðsti embættismaður landsins.
Og þá kem ég loksins að kjarna málsins, breyting á stjórnarskránni er nauðsynleg í þessum efnum. Ég vil að stuðningur Íslands við stríðsrekstur verði torveldaður eða jafnvel bannaður með öllu. Æskilegt væri að önnur eftirfarandi leiða yrði lögfest í nýrri stjórnarskrá. Sú fyrri er að samþykki aukins meirihluta á Alþingi (2/3, 75% eða 100%) verði forsenda þess að Ísland styðji stríðsrekstur. Sú seinni er að Ísland styðji aldrei stríð. Stuðningur við Íraksstríðið er kannski svartasti blettur á landinu frá lýðveldisstofnun. Við sem fögnum þeim friði er einkennir Ísland getum ekki verið slíkir hræsnarar að við samþykkjum stríð í öðrum löndum. Stjórnarskrá þjóðar mótar leikreglur hvers lands. Við höfum einstakt tækifæri til að leggja grunninn að því samfélagi sem við viljum lifa í. Beitum okkur fyrir hugsjónum sem standa vörð um frelsi, mannhelgi og líf. Því að þetta tækifæri kemur aldrei aftur.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.