Auðræði eða lýðræði - Fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda

Hjörtur Hjartarson
  • Heimilisfang: Hringbraut 87
  • Skráð: 14.06.2011 12:37

 

Ágætu fulltrúar í Stjórnlagaráði.

Þegar rætt er um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda er komið að kviku hins rótgróna valdakerfis í landinu, en geigvænlegasti háskinn sem vofir yfir Stjórnlagaráði er einmitt sá að það leggist í einhvers konar innri ritskoðun og ímyndaða samninga við stofnanir þess kerfis, ekki síst stjórnmálaflokkana. Í því fælist í senn grundvallarmisskilningur á hlutverki ráðsins og hreinlega svik við þjóðina. Þetta eru stór orð en engu að síður réttmæt. Í sambandi við umrætt málefni er því sérstök ástæða til að rifja upp, að Stjórnlagaráð var kallað saman að kröfu búsáhaldabyltingarinnar vegna hruns í samfélaginu, og að ný stjórnarskrá á ekki að falla að hagsmunum ríkjandi afla heldur að óskum og hagsmunum almennings í landinu. Stjórnlagaráð á að leggja grunn að nýju upphafi.

Sný ég mér þá að erindinu.

Almenn lýðræðisleg rök ganga þvert gegn því að stjórnmálasamtök eða frambjóðendur í stjórnmálum taki við fégjöfum frá fyrirtækjum og sérhagsmunahópum. Reynsla Íslendinga og aðstæður í íslensku samfélagi mæla einnig afdráttarlaust gegn því. Fulltrúar í Stjórnlagaráði hljóta að taka mið af þessu.

Stjórnmál eru vettvangur sameiginlegra hagsmuna en ekki einkahagsmuna, hagsmuna sem við eigum hvert okkar út af fyrir sig. Löggjafarvaldinu má aðeins beita með hagsmuni samfélagsins í heild að leiðarljósi, en aldrei í þágu sértækra hagsmuna. Alþingi – og sveitarstjórnir – eru vettvangur almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.

Fyrirtæki hafa aðeins sértæka hagsmuni og markmið. Sama á augljóslega við um samtök sem eru stofnuð til þess að gæta sértækra hagsmuna (yfirleitt fjárhagslegra). Aðeins einstaklingar geta tekið hagsmuni samfélagsins fram yfir sérhagsmuni sína. Það gera þeir sem hugsandi manneskjur og ábyrgir borgarar og kjósendur.

Í því sambandi mætti líta til hugmynda heimspekingsins John Rawls, en hann setti fram áhrifamestu kenningu síðari tíma um réttlæti. Til að byggja upp sanngjarnt og réttlátt þjóðfélag þurfa borgararnir að lyfta huganum frá sérhagsmunum sínum og líta til þess sem samfélaginu í heild kemur best, með sanngirni að leiðarljósi. Í fullkomnum heimi myndu borgararnir taka afstöðu til mála án þess að muna eða þekkja persónulega hagsmuni sína. Með öðrum orðum, hver einstaklingur tæki afstöðu án þess að vita nokkuð um hverjir einkahagsmunir hans væru. Þannig myndu eigendur kvóta t.d. greiða atkvæði um kvótakerfið án þess að hafa hugmynd um að þeir sjálfir ættu kvóta. Rawls talar í þessu samhengi um að greiða atkvæði bakvið tjald fávísi (e. veil of ignorance).

Hugmynd Rousseaus um almannaviljann er af svipuðum toga. Almannavilji tekur mið af sameiginlegum hagsmunum en vilji hvers einstaklings tekur mið af einkahagsmunum. Sérhagsmunir spilla fyrir því að almannaviljinn nái fram að ganga. „Til þess að tjáning almannaviljans komist vel til skila er því mikilvægt að ekki sé til sérstakt samfélag innan ríkisins og að sérhver borgari taki ákvarðanir eftir sannfæringu sinni.“

Einn maður eitt atkvæði er grundvallarforsenda lýðræðis. Fyrirtæki eru ekki með almennan atkvæðisrétt vegna þess að þau berjast eingöngu fyrir sérhagsmunum. Því er það ólýðræðislegt að flokkar og frambjóðendur magni pólitískt vægi sitt með fégjöfum frá fyrirtækjum eða sérhagsmunasamtökum. Slíkt er jafnframt örugg ávísun á að almannahagsmunum verði vikið til hliðar fyrir sérhagsmuni.

Við viljum búa við lýðræði, ekki auðræði. Flokkar og frambjóðendur í stjórnmálum eiga að ræða almannahagsmuni með rökum en ekki takast á í krafti peningavalds. Samkrull viðskipta og stjórnmála eru óheillavænleg blanda. Við vitum allt um það, og við verðum að horfast í augu við það.

í áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, sem ber heitið „Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“ segir, í kafla II. 3 Samkipti stjórnmála og efnahagslífs:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. Í niðurlagi kaflans, þar sem ályktað er um þá lærdóma sem draga þurfi af ógöngum landsins, segir: „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.”

Í leiðbeiningum svokallaðrar Feneyjanefndar Evrópuráðsins (The European Commission for Democracy through Law, eða The Venice Commission) segir, að ástæða geti verið til að banna fjárframlög til stjórnmálaflokka frá fyrirtækjum í viðskiptum og atvinnulífi. Ísland er meðal þeirra landa sem þurfa þess lífsnauðsynlega.

Almenn lýðræðisleg rök og bitur reynsla benda afdráttarlaust til þess að við Íslendingar eigum að fara að dæmi Frakka og Svía og banna fjárframlög lögaðila til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í almennum  kosningum. - Ekki þarf að fjölyrða um vanhæfni núverandi flokka til þess að koma á slíku fyrirkomulagi og nauðsyn þess að tryggja það í stjórnarskrá.

Með heillaóskum,

Hjörtur Hjartarson

P. S.

Ég minni fulltrúa í Stjórnlagaráði á tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu, um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda í almennum kosningum.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.