Hin almenna umræða
Þórir Baldursson
- Heimilisfang: Brekkubæ 5
- Hagsmunaaðilar: Stjórnarskrárfélagið
- Skráð: 13.06.2011 01:32
Undrast fálæti Íslendinga.
Ég er hissa á því áhugaleysi sem virðist vera hjá Íslendingum, að kynna sér ekki og setja sig inn í málefnin áður en þeir byrja að tjá sig um hlutina. „Ég nenni ekki að taka þátt í þessari vitleysu" eða „það er bara verið að lauma okkur inn í ESB" ..... eða eitthvað þvíumlíkt verður því oft niðurstaðan í röksemdarfærslu þeirra sem ekki eru upplýstir.
Ég er hér að bregðast við umræðunni á netinu (FB) og samtölum mínum við fólk á förnum vegi. Ég er alveg hissa á því hvað fólk virðist vita lítið um stjórnarskrána og hvaða hlutverki hún gegnir. Ég er líka hissa á því hvað áhuginn á störfum Stjórnlagaráðs er seinn að taka við sér. Störfum þess lýkur í lok júlí. Hér má enginn tími fara forgörðum, við verðum að vanda okkur. Kyndum undir umræðunni. Ég vil hvetja upplýsingafulltrúa ráðsins til dáða í þeim efnum um leið og ég vil þakka fyrir frábæra vefsíðu http://www.stjornlagarad.is Sem sagt; einn hissa og hugsandi einstaklingur.
Stjórnlagaráð er nú að skrifa nýja stjórnarskrá sem þjóðin á að taka þátt í að semja! Við eigum að taka þátt í þessari smíð, hún er á okkar ábyrgð! Okkur er gefinn kostur á því!! Að smíðinni lokinni, verðum við þjóðin að fá að kynna okkur tillögur Stjórnlagaráðs og taka afstöðu til þeirra og hins nýja stýrikerfis. Ég er ósáttur við að Alþingi fái 2 ár, til að ... svona velta þessu fyrir sér og gera breytingartillögur ... til að raska nú engum valdahlutföllum ... Hafið þið fylgst með störfum Alþingis?
Fjölmiðlar, oft kallað „fjórða valdið" gegna mjög mikilvægu hlutverki í að vekja áhuga fólks. Gott væri að finna til sömu alúðar og fjölmiðill þjóðarinnar (RÚV) sýnir hand- og fótboltaleikjum. Þar væri hægt að greina frá framvindu nýrrar stjórnarskrár svo allir vissu hvað í gangi er. Þeir eru samt ekki alslæmir þó þeir verði að standa sig betur. Annars er hætt við að afkomendur okkar dæmi þá fyrir sögulega vanrækslu sína í að upplýsa þjóðina. Það er líka við okkur sjálf að sakast. Við erum ekki nógu fús til að taka þátt í að örva umræðuna. Mynda okkur skoðun og rífa kjaft!
Mitt mat er að þrátt fyrir góðan ásetning Stjórnlagaráðs sé bjartsýni að ætla að því og OKKUR takist að setja saman gallalaust plagg sem gildi um aldur og ævi. Ég legg því til að hvað sem samþykkt verður, verði endurskoðað að mest 10 árum liðnum og að Stjórnlagaþing verði haldið á minnst 10 ára fresti þaðan í frá. Kosið verði til þingsins með sama hætti og síðast eða STV (Single Transferable Vote) aðferðinni. Þetta fyrirkomulag er sanngjarnast og verður ekki vandamál í framtíðinni. Í persónukjöri nýtist þitt atkvæði best með þessu fyrirkomulagi.
Alla vega eru erlendir fjölmiðlar hrifnir af vinnulagi Stjórnlagaráðs og lofa það nýmæli að samskiptavefir netsins (t.d.FB) skulu vera notaðir. Mjög í anda 21. aldar. Ég vil í þeirri andrá minnast á Stjórnarskrárfélagið http://www.stjornarskrarfelagid.is sem hefur það að meginmarkmiði sínu að koma upplýsingum um gerð nýrrar stjórnarskrár á framfæri til allra. Allir eiga að geta fylgst með og þá fyrst fer umræðan væntanlega í gang! Erlendir fjölmiðlar og háskólar eru mjög áhugasamir um framvindu mála hér og hvað skeði hér eiginlega!
Ég er til í að opna umræðuna á eftirfarandi málefni sem við öll höfum taugar og tilfinningar til. Þess vegna ber okkur að taka afstöðu til málsins. Þetta varðar 62. málsgrein núgildandi stjórnarskrár.
Þar segir í kafla 6:
• VI.
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
Í áfangaskjali Stjórnlagaráðs gerir ráðið ráð fyrir þessum 2 valkostum í tillögum sínum:
Valkostur 1:
Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.
Valkostur 2:
[Ákvæðið falli brott.]
Nú vakna spuringar:
• Eigum við að ákveða í stjórnarskrá hver þjóðkirkjan er?
• Eigum við að gæta jafnræðis allra trúfélaga?
• Eiga prestar að vera ríkisstarfsmenn?
• Getum við tryggt nauðsynlega sáluhjálp til allra þrátt fyrir aðskilnað ríkis og kirkju?
Í von um að þetta komi málefnalegri umræðu af stað.
Reykjavík 12.6.11
Þórir Baldursson
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.