Samfélagseignarréttur
Gylfi Garðarsson
- Heimilisfang: Grenimel 22
- Skráð: 10.06.2011 23:00
Ágæta Stjórnlagaráð.
Kærar þakkir fyrir framúrskarandi stjórnmálastarf, að mínu viti það besta sem þjóðin hefur séð eftir 1930.
Samfélagseignarréttur í stjórnarskrá
Er orðið þjóðareign of almennt hugtak í fyrirhuguðu „þjóðareignarákvæði" stjórnarskrárinnar?
Nægir það til að vernda samfélagið gegn misferli með sameignir sínar?
Ákall frá Austurvelli
Haustið 2008 kom það ákall frá Austurvelli að vægi samfélagslegs eignarréttar þyrfti að aukast a.m.k. til jafns við einkaeignarrétt og girt fyrir fyrir geðþóttaafsal samfélagseigna. Þessi skilaboð frá Austurvelli höfðu greinilega mikinn samhljóm með andúð almennings á taumlausri einkavæðingu því hugmyndin varð að hluta ein af aðalkröfum þjóðfundar 2010 um þjóðareignir í nýrri stjórnarskrá.
Lýsa má kröfu ræðumannsins á Austurvelli þannig að stjórnarskráin skuli tilgreina hvaða huglæg og snertanleg verðmæti teljist til samfélagseigna (þjóðareignir/almannaeignir), hver megi sýsla með eignirnar og hvernig.
Það er öllum ljóst að vel orðuð grunnskilgreining í stjórnarskránni sem undirliggjandi lagagreinar vísa í með nánari skilgreiningum væri strax mikil framför. Þannig lagatenging getur t.d. styrkt verulega eignarskilgreiningu fyrsta kafla núverandi laga um stjórn fiskveiða og slegið föstu hver á auðlindina, hver ráðstafi henni og hvernig.
Við þetta má bæta að í stjórnarskránni þarf að vera betri trygging en nú (40. gr.) gegn siðlausri einkavæðingu, þ.e. hvaða skilyrða sé krafist fyrir einkavæðingu m.t.t. stöðu og hlutverks eignarinnar í samfélaginu. Slíkt ákvæði getur vísað í undirliggjandi stjórnsýslulög með nánari útfærslu en stjórnsýslulögin verða að eiga trausta stoð í texta stjórnarskrárinnar. Þarna má hugsa sér ýmis skilyrði svo sem ekkert afsal án undanfarandi kosningar um málið, kvöð um formlega, ítarlega, opna umræðu af tilteknu umfangi innan hlutaðeigandi samfélags og svo framvegis.
Orðaval í stjórnarskrá
Með hugtakinu samfélagseignir í þessari grein er átt við bæði snertanleg og huglæg verðmæti þjóðar og stjórnkerfis, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og smærri félagseininga svo sem sjálfseignarstofnana og félagasamtaka. Orð skýra misvel hugsun í lagatexta. Í núverandi umræðu um stjórnarskrána er mjög kallað eftir að skjalið sé á eðlilegu nútímamáli en útskýri samt ítarlega þann vilja sem þjóðin hefur um sín stjórnmál. Stjórnlagaráð verður því að velja af kostgæfni orðin í nýju stjórnarskrána. Þetta á ekki síst við um það sem hér er nefnt samfélagseignir. Þar er óhjákvæmilegt að huga vandlega að merkingu orðanna því þau munu hafa víðtæk áhrif á komandi árum og við viljum sjá bestu mögulega sátt um eignarhald og meðferð þeirra verðmæta sem heyra undir okkar sameiginlegu umráð, hvort sem það eru fiskistofnar eða bókasöfn.
Lengi hefur umræðan um þessi mál verið kennd við „þjóðareign" og fyrir flestum liggur beinast við að nota það orð í stjórnarskránni. Hafa menn þá helst í huga auðlindir eins og fiskistofna og vatn. En nægir það? Viljum við undanskilja þessu ákvæði eignir smærri eininga þjóðarinnar eins og sveitarfélaga? Hvar eiga mörkin að liggja? Sé orðið sundlaug prófað sést strax að fæstar opinberar sundlaugar teldust þjóðareign en allar eru þær samfélagseign. Eignir samfélagsins eru þannig misréttháar fyrir stjórnarskránni eftir orðavali. Með þetta í huga hlýtur Stjórnlagaráðið að spyrja sig hvaða hugtök henti best í stjórnarskrárákvæði um samfélagseignir. Á ákvæðið aðeins að taka til stærstu eigna (þjóðareign) eða er æskilegt að það taki einnig til hinna smærri (samfélags-/almannaeign)?
Ákvæði um þessi efni í nýrri stjórnarskrá þurfa að vera skýrt andsvar við einkaeign, aðgreina með skýrum hætti andstæða merkingu einka- og samfélagseigna og vernda samfélagið gegn misferli með sameignir sínar. „Samfélagseign" er dæmi um hugtak sem nær mjög vel utan um breytileg tilvik sameignarlegra verðmæta, bæði þau stærstu (sjávarauðlind) og þau minnstu (sundlaug). Hugtakið á við um öll verðmæti, stór og smá, sem ekki eru í hreinni einkaeign. Svipað má segja um orðið „almannaeign".
Með þessu erindi er ákall ræðumanns frá Austurvelli haustið 2008 ítrekað til Stjórnlagaráðs.
Með kveðju.
Gylfi Garðarsson
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.