Réttmæt krafa hinnar kristnu kirkju
Daði Rafnsson
- Heimilisfang: Skeiðarvogur 1
- Hagsmunaaðilar: MA-nemi í alþjóðasamskiptum
- Skráð: 07.06.2011 10:56
Erindi til A-nefndar Stjórnlagaráðs.
Kristin trú er mið-austurlensk menningararfleifð Íslendinga. Hún átti uppruna sinn og uppgang fyrir botni Miðjarðarhafs fyrir þúsund árum og var tekin upp á Íslandi vegna áhrifa hnattvæðingar þess tíma. Kristnin varð trú þeirra sem byggðu land vegna þess að hún skipti máli pólitískt og viðskiptalega í samskiptum við erlend ríki, ekki síst hina nýkristnu norrænu konunga.
Síðan Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld hafa átt sér stað siðbót og upplýsing í veröld mannanna. Hugtakið þjóð eins og við þekkjum það í dag varð til löngu seinna og hefur teygst til og frá í tímanna rás. Íhaldssemi, hræðsluáróður, völd og pólitík hafa þó valdið því að það hefur gengið illa að skilja milli ríkis og kirkju.
Það stingur eflaust marga að líkja þessu skrefi við afnám þrælahalds en líkindin eru þau að mannréttindi einstakra hópa eru gerð veigameiri en annarra með þjóðkirkju. Þótt kirkjunnar menn og konur haldi öðru fram þá er þeim gefið mikið vald og forskot umfram aðra. Trúfélög sem boða réttlæti, umburðarlyndi og kærleika eru mun marktækari ef þau eru ekki hluti af valdastétt ríkisins.
Að á Íslandi ríki trúfrelsi ætti að vera réttmæt krafa hinnar kristnu kirkju, enda eru það réttindi sem trúfélög eiga ekki vís víðast hvar um veröldina. Að ríkið styðji ekki við eitt lífsskoðunarfélag umfram önnur ættu jafnframt að teljast eðlileg mannréttindi á okkar tímum, og réttlátt framhald fyrir okkur sem deilum tilvist okkar hér á landi.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.