Þjóðaratkvæði um eignarrétt

Árni B. Helgason
  • Heimilisfang: Brautarholti 2
  • Skráð: 06.06.2011 10:50

Þjóðaratkvæði um eignarrétt?

Ólafur G. Einarsson, fyrrum bæjarstjóri, alþingismaður, ráðherra og loks alþingisforseti, greiddi atkvæði gegn tillögu á Alþingi undir árslok 1983 þess efnis að lýsa auðlindir innan fiskveiðilögsögu Íslands þjóðareign, með svohljóðandi greinargerð: „Íslendingar hafa helgað sér landgrunnið allt með gögnum þess og gæðum. Tillagan er því óþörf. Ég segi nei.“ Var og tillagan felld.

1. janúar 1984 tók gildi afdrifarík breyting á lögum frá 1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (samkvæmt lögum nr. 82/1983). Fékk hæstvirtur sjávarútvegsráðherra þá heimild til að deila heildarafla fiskveiðiársins milli skipa, m. a. með hliðsjón af þriggja ára afla skipanna, þ.e. áranna 1981-1983, heimilaði og lagabreytingin jafnvel sölu aflans og leigu þótt ekki einu sinni veiddur væri!

Lagabreytingin gilti til eins árs en var síðan endurnýjuð ár hvert í lítt breyttri mynd til ársloka 1987, og hafa svo mörg vötn runnið til sjávar. Með lögum nr. 3, 1988, tekur gildi ný heildarlöggjöf um stjórn fiskveiða þar sem þykir þó vissara að árétta að fiskstofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar - sem sagt ekki eign einhverra tré- eða járnkláfa, svo sem ýmsir vildu þó meina - enda og meginreglan áfram skýr, að einungis skyldi fiskveiðiréttindum úthlutað til eins árs í senn - og skyldu lögin nú gilda til ársins 1990. Þegar þá er komið, árið 1990, og enn með heildarlögum, þeim er nú gilda, lögum nr. 38/1990, og þó varla fyrr en með breytingu á þeim lögum fyrir u.þ.b. hálfum áratug, sbr. lög nr. 116/2006, kom síðan heilagsandalega ákvæðið, þ.a.s. að úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum myndaði ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum...

31. janúar 2011 ritar Sigurður Líndal prófessor um 'Merkingarlausa stjórnarskrá' í Fréttablaðinu á bls. 13 (http://vefblod.visir.is/index.php?s=4768&p=107187). Tæpitungulaust hefur Sigurður það svo eftir Jóhönnu Sigurðardóttur að eitthvað sem hún kalli íhald sé skíthrætt við að stjórnlagaþing samþykki ákvæði um að auðlindir verði þjóðareign.

Tískuorð kallar Sigurður það reyndar, að „auðlindir verði þjóðareign“ - sem sé einkum jarðhiti, vatnsafl og nytjastofnar á Íslandsmiðum - og má vissulega til sanns vegar færa að þessi tíska spyr ekkert endilega að því hvort lendur og lóðir eða einhverjir silungapollar séu yfirleitt í opinberri eign frekar en í einkaeigu.

Sannarlega ekkert ótrúlegt eða ótrúverðugt í þessum málflutningi prófessors Sigurðar, eða hvað, og hlytu þó ekki heldur að fara að lyftast brúnirnar á íbúum Kristjaníu í Kaupmannahöfn fyrst svo léttvæg rök giltu um rétt - eða með orðum Sigurðar um fiskveiðirétt:

„Með veiðireynslu öfluðu menn sér upphaflega veiðiréttinda með námi eða töku á eigendalausum verðmætum - fiski - sem síðar voru nánar afmörkuð með lögum þegar nauðsynlegar reyndist að takmarka sókn í nytjastofnana.“

Fyrstur kemur, fyrstur fær, kunna þau að hafa sagt, þarna við síkin í Kaupmannhöfn, og kunna að hafa slegist um íbúaréttinn í upphafi í yfirgefnum herbúðunum... en Íslendingur þurfti aðallega að vera hliðhollur sínum stjórnmálasamtökum eða vera í réttri fjölskyldu, til að svokallaðan auðlindarrétt mætti hefja yfir náungakærleikann til eins árs í senn, þó nú væri, og þó þar með jafnvel ævarandi - réttara sagt átti þó reyndar fleyið, hvað það annars væri kallað, bátur, skip, togari - jafnvel tappatogari - að eiga allan rétt, að fyrstu lögum, líkt og væri pípan hasseigandans...

Merkingarlaus orð og margræð einkenna mjög marga lagasetningu á Íslandi og hafa lengi gert. Í skjóli merkingarleysisins þrífst einmitt helgunin. Skýrasta dæmi um það er kannski helgun landgrunnsins, sem kostaði heilu kynslóðirnar þó þvílíkt kjaftæði að örgrannt er um hvort muni nokkur lengur eftir því, jafnvel ekki prófessorar, jafnvel ekki emeritusar, hve margræð merkingin svo reyndist okkur öllum. Hvað þá að fjöldinn allur atvinnulausra í Grimsby og Hull og Feedwood muni nú lengur nokkuð, hvað þá um feðranna dáð. Eða hver skyldu nú muna, hvað þá vita, að jafnvel færri en 10 íslenskar fjölskyldur hefðu verið að biðla til mest alls réttar þeirra breskra, sem þó aflað hefðu sér aldalangrar veiðireynslu, og þar með veiðiréttinda, jafnvel ævarandi, eftir prófessor Líndal að dæma?

Það er nú samt svo á okkar tíð, og það samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, að 200 mílna efnahagslögsaga Íslendinga er vissulega viðurkennd - og er þar af leiðandi alls ekki eigendalaus. Fyrir eigninni liggja þinglýstir samningar er nær öll ríki jarðar hafa gerst aðilar að, og er þar þó hvergi getið um sérstaka eign sérútvalinna sveitarfélaga, hlutafélaga, samvinnufélaga, hvað þá einstaklinga. Það er svo að sjálfsögðu á hendi hvers ríkis að gera samninga um nýtingarrétt sýnist því svo - jafnvel um eignarrétt ef því byði svo við að horfa, vildi það semja um aflát auðlindar, að teknu tilliti til laga, að sjálfsögðu, og jafnvel stjórnarskrár...

Prófessor Sigurður ruglar all rækilega saman veiðiréttindum frumstæðustu manna sem koma að vannýttu og eigendalausu svæði, svo sem Ísland er talið hafa verið við landnám, við lagaleg réttindi nútíma Íslendinga, sem, t.d. sem heild, eru þó aðilar að hafréttarsáttmálum og meira að segja aðilar að samþykktum Alþingis, burtséð frá hvað þingið annars hringlar með stjórnarskrá - og hegningarlög.

Þegar einn okkar helstu lögspekinga ýjar að því að margra áratuga áuninnin fiskveiðiréttindi Íslendinga séu eign jafnvel örfárra sem numið hafi eigendalaus verðmæti eða beinlínis hafi tekið sér þau, og forsætisráðherra þjóðarinnar metur síðan sömu réttindi ekki meira en svo að atkvæðisbærir Íslendingar gætu einfaldlega kosið um - með einföldu jái eða nei - hvort eignarréttindi þeirra tilheyrðu þeim sjálfum eða einhverjum sérútvöldum í þjóðaratkvæði...

Hljótum við þá ekki hér og nú að nema staðar og huga að lagagreinum, sbr. stjórnarskrá:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir... “

Hafi íslenskur almenningur látið eign sína af hendi - hvert er þá verðið? Eða þarf ekki til þess lagafyrirmæli og því skyldi ekki hafa komið fullt verð fyrir? Eða hafa forsætisráðherrar íslensku þjóðarinnar virkilega átt hlut að því að láta eign þjóðarinnar af hendi án þess að verð kæmi fyrir - hvað þá fullt verð? Og það jafnvel með fulltingi virtustu lögspekinga þjóðarinnar? Og mæla svo jafnvel fyrir um þjóðaratkvæði - þvert ofan í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar! Eða væri Jóhanna t.d. tilbúin að sæta þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort hún ætti sína íbúð eða einfaldlega við - sjálf árans elsku þjóðin?

X. kafli íslenskra hegningarlaga um landráð:

86. gr. Hver, sem sekur gerist um verknað, sem miðar að því, að reynt verði með ofbeldi, hótun um ofbeldi, annarri nauðung eða svikum að ráða íslenska ríkið eða hluta þess undir erlend yfirráð, eða að ráða annars einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, skal sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða ævilangt.

Ljóslega hefur Alþingi Íslendinga ráðið hluta ríkisins undan forræði þess, ekki ólíkt og Penelópa hefði játast biðlum sínum - og þó vissulega og einungis til eins árs í senn, í senn, í senn..!

Með pólítíkusa sína að vopni fóru íslenskir útgerðarmenn síst ólíkt að árið 1983 og hippa- og blómabörnin sem lögðu undir sig Kristjaníu í Kaupmannahöfn góðum áratug fyrr. Látlaus dýrkun á sjómennsku hafði ekki síður sterk áhrif, líkt og hass væri handa þjóðinni, jafnvel að hefði mátt ætla að sjálft LÍÚ væri komið til að sigra, sífellt biðlandi, jafnvel grenjandi eins og verst uppaldasti krakki.

En sé skýr eignarréttur ekki fyrir hendi - þá er rétturinn einfaldlega þjóðarinnar, svo sem komið hefur á daginn t.d. í hinum ýmsu þjóðlendumálum. Sé réttur ekki skýr og einhlítur, skiptir engu máli hver biðlar, né hve lengi, hvað þá hve biðlarnir séu margir, svo sem Odysseifur sýndi fram á og sannaði, reyndar löngu fyrir burð þessarar þjóðar og kjölturakka hennar. Telji grátkór einhverra útgerðarmanna sig eiga auðlindir heillar þjóðar, þá hlýtur sá sami kór einfaldlega að verða svara fyrir hvort ráðið hafi einhvern hluta ríkisins undan forræði þess, og þá jafnframt hvort sé tilbúinn til að sæta fangelsi ekki skemur en 4 ár eða jafnvel ævilangt.

Kemur þá jafnframt til kasta þeirra alþingismanna er lögleysuna leiddu - allt frá sjávarútvegsráðherra Íslands er fékk framgengt flutningi verulegra verðmæta frá þjóðinni til fjölskyldu sinnar á haustþinginu 1983, þjóðinni að sjálfsögðu bótalaust, til þeirra er síðan hafa samþykkt eignaupptökuna með ótal lagabreytingum, og að því er virðist alveg kinnroðalaust - Jóhanna og Steingrímur.

Eða til hvers að semja nýja stjórnarskrá sé slík skrá til þess eins að fótum troða? Eða eigi einfalt þjóðaratkvæði að skera úr um sérstakar undanþágur sérútvalinna frá almennum eignarrétti, því þá ekki allt eins að taka skrefið til fulls og einfaldlega stjórnarskrábinda krónískan grátkór kjölturakka þjóðarinnar, t.d. með þeim hætti að skilgreina LÍÚ sem fríríki? En auðvitað haldi þjóðin svo áfram að kjósa og kjósa, hafi svo hver við sitt að una, við sitt hæfi, ekkert síður en forseti vor á hverjum tíma.


Árni B. Helgason
Brautarholti 2
105 Reykjavík

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.