Um samband ríkis og kirkju

Ólafur Jón Jónsson
  • Heimilisfang: Engjasel 63, 109 R.
  • Skráð: 31.05.2011 00:27

Þegar fjallað er um samband ríkis og kirkju í tengslum við endurskoðun á stjórnarskrá, þá er eitt atriði sem vegur langþyngst og það er réttur hvers einstaklings til trúfrelsis, hvort sem er til trúar eða vantrúar.

Með því að fjarlægja úr stjórnarskrá öll ákvæði sem varða þjóðkirkjuna sérstaklega, en halda inni og styrkja þau ákvæði sem tryggja öllum þetta frelsi, er verið að stuðla að heilbrigðara þjóðfélagi sem einkennist af jöfnuði. Að hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá brýtur á réttindum þeirra sem annað tveggja trúa ekki eða taka ekki afstöðu til trúar. Slíkt ákvæði þjónar bara þeim hluta þjóðarinnar sem trúir, en hver er tilgangurinn? Af hverju þarf eitt afbrigði átrúnaðar sérstaka vernd ríkisins? Gegn hvaða öflum stendur þessi átrúnaður svo veikur fyrir að hann þarf fulltingi ríkisvaldsins í vörnum sínum? Ég fullyrði að helstu meinsemd þjóðkirkjunnar sé í raun að finna innan vébanda hennar sjálfrar í hópi þess fólks sem telur hana svo veika, hefur í raun svo litla trú á henni, að henni verði ekki lífs auðið nema undir verndarvæng ríkisins. Þetta fólk er helsti dragbítur þjóðkirkjunnar í dag og það á ekki að binda birtingarmynd fordóma þess og vantrúar í stjórnarskrá.

Ég bendi á áhugaverða mynd (http://en.wikipedia.org/wiki/File:State_Religions.png) á wikipedia.org, en hún sýnir yfirlit yfir þau lönd sem enn hafa þjóðkirkjur. Þetta er fámennur klúbbur og það fækkar óðum í honum. Íslendingar eiga að skipa sér í raðir þeirra sem meta trúfrelsi að verðleikum og skera á tengsl ríkis og kirkju því trúfrelsi er ekki einungis frelsi til þess að velja sér yfirnáttúrulegan átrúnað, það er í jafn ríkum mæli frelsið til þess að hafna öllum átrúnaði eða hreinlega standa algjörlega á sama um trú. Stjórnarskrárverndaður átrúnaður gagnast aðeins hluta þjóðarinnar á meðan fullkomið trúfrelsi gagnast henni allri.

Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp nútímalegt viðhorf þegar kemur að trúmálum og fylgjum í fótspor þeirra þjóða sem stigið hafa það heillaskref að koma á fullkomnu trúfrelsi. Það væri nöturlegt og ömurlegt hlutskipti að daga uppi sem nátttröll í samfélagi þjóðanna með ríkisverndaðan átrúnað á meðan framsæknar þjóðir hafa tryggt þegnum sínum eðlilegt frelsi í trúmálum.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.