Þjóðareign
Þorbergur Þórsson
- Heimilisfang: Hringbraut 115
- Skráð: 30.05.2011 19:38
Til Stjórnlagaráðs. Um þjóðareign.
Í umræðum um þjóðareign er gjarna talað um að þjóðareign sé merkingarlaust hugtak. Þó hafa Þingvellir kallast þjóðareign samkvæmt lögum drjúgan hluta tuttugustu aldar, eins og nýlega hefur verið minnt á. Þá hefur verið sagt að þjóðareign merki ríkiseign og þar með hafi hugtakið prýðilega merkingu. Í framhaldi hefur enn fremur verið bætt við, að með því að kveða á um að aldrei megi selja eða veðsetja þær ríkiseignir, sem séu þjóðareignir, séu viðkomandi ríkiseignir orðnar að raunverulegri þjóðareign.
Ég tel afar æskilegt að kveðið verði á um þjóðareignir í stjórnarskrá og kveðið skýrt á um eignarhald á umhverfi okkar. Mig langar að benda á eina útfærslu þjóðareignar, sem ég hef ekki séð annars staðar, en ég sagði frá í grein í Mbl. 2009. Hugmyndin er sú að þjóðareignir geti í vissum tilvikum verið eignir, sem ríkisborgararnir eiga hlutdeild í meðan þeir eru lífs, en þær erfist til þjóðarinnar að þeim gengnum. Ég vitna beint í grein mína í Mbl. 12. feb. 2009:
„Hugmyndin er einfaldlega sú að í sumum tilvikum geti verið heppilegt að koma eignarhaldi á verðmætum á borð við aflakvóta, orkuauðlindir og hugsanlegar olíuauðlindir úti fyrir ströndum landsins þannig fyrir, að þær verði ávallt í sameiginlegri eigu íslenskra ríkisborgara, þeirra sem á lífi eru hverju sinni, og þannig að allir ríkisborgararnir eigi jafnan hlut í þeim. Með öðrum orðum verði eignarhald einstakra borgara á þjóðareignum óaðskiljanlegt frá ríkisborgararétti þeirra. Þeir gætu ekki selt þessar eigur, en þeir gætu hins vegar leigt afnot þeirra til tiltekins tíma. Við andlát einstakra borgara erfi því allir ríkisborgarar hinn látna jafnt. Eignin væri þannig bundin lífi ríkisborgaranna, væri lífstíðareign. Hlutur í þjóðareigninni kviknaði við fæðingu en félli niður við andlát. Barnmargar fjölskyldur ættu því meiri hlut í þjóðareigninni en barnfáar fjölskyldur og einhleypingar.
Til þess að tryggja að kostir einkaframtaksins næðu fram að ganga við ráðstöfun þjóðareigna þyrfti að koma á fót leigumarkaði með þær, hverja fyrir sig. Þannig gæti til að mynda virkjanafyrirtæki í eigu ríkisins orðið að virkjanafyrirtæki í eigu þjóðarinnar með þeim hætti, að ríkisborgararnir eignuðust sinn lífstíðarhlut í virkjanafyrirtækinu, sem þeir gætu svo leigt út til fjárfesta og framtaksmanna í landinu, sem tækju til við að fjárnýta fyrirtækið og greiddu leigugjald fyrir þann rétt. Upplýsinga- og tölvutæknin kæmi við sögu í þessu máli með þeim hætti, að einkafyrirtæki, t.d. fiskmarkaðir eða bankar, tækju að sér að sjá um milligöngu með leiguréttindin. Vel mætti hugsa sér að einstaklingar leigðu út sinn hlut til tíu eða tuttugu ára í senn með milligöngu þessara stofnana til að draga úr kostnaði sem fylgir þessum leiguviðskiptum. Kaupendur tækju á sig þá áhættu sem felst í því, að þegar eigendur réttindanna deyja, falla réttindin niður. Sú áhætta myndi endurspeglast í leiguverðinu. Huga þyrfti vel að viðskiptakostnaði við útfærslu þessarar hugmyndar.
Hugmyndin hefur að mínu viti þann augljósa kost, að ýmsar verðmætar eigur ríkisins gætu verið í eigu þjóðarinnar með þessum hætti – en jafnframt þyrfti ekki að láta ríkisvaldið um að ráðstafa þeim, heldur væri að nokkru leyti unnt að nýta kosti einkaframtaksins. Auk þess hefur hugmyndin þann kost að jafna tekjur fólks og leiða til þess að arður af viðkomandi auðlind rennur augsýnilega til allra þegnanna. Samband almennings við þessar auðlindir myndi aukast, t.d. má ætla að almenningur fylgdist betur en ella með góðri meðferð þeirra og nýtingu.“
Þetta þjóðareignarhugtak er annars eðlis en hugtakið um ævarandi ríkiseign, sem ekki má veðsetja. Það á að mínu viti betur við um auðugar og endurnýjanlegar náttúruauðlindir, en óendurnýjanlegar. Vera má að Stjórnlagaráð geti nýtt þetta hugtak í frumvarpi sínu til nýrrar stjórnarskrár.
Reykjavík, 30. maí 2011
Þorbergur Þórsson
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.