Þjóðkirkjufyrirkomulagið og deilumál

Egill Óskarsson
  • Heimilisfang: Heiðarhjalli 27
  • Skráð: 29.05.2011 15:30

62. greinin

Hlutverkið sem fulltrúar í Stjórnlagaráði hafa tekið að sér er ekki lítið eða léttvægt. Ráðið vinnur með æðsta plagg stjórnkerfisins, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Tillögur ráðsins að breytingum þurfa því að vera vel útfærðar og á bak við þær á að vera skýr hugsun.

Það er ljóst að hinir og þessir hópar vilja breyta einstaka hlutum og koma ákvæðum um sín hugðarefni inn í stjórnarskrána. Margt af því sem Stjórnlagaráð þarf að fjalla um er umdeilt og líklegt til þess að vekja deilur. Er þar hægt að nefna t.a.m. hverjar þær breytingar á stjórnkerfi landsins sjálfu sem lagðar verða til, ákvæði um þjóðareign á auðlindum og breytingar á kosningaframkvæmdum.

Þrátt fyrir að um þessi mál verði alveg örugglega deilur ætlar og mun Stjórnlagaráð fjalla um þau óhikað og leggja fram sínar tillögur. Enda er það hlutverk ráðsins. Og þess vegna getur ráðið ekki skýlt sér á bak við það að önnur mál séu líkleg til að vekja deilur þegar tillögur koma um breytingar á þeim.

Hér er ég að vísa til þjóðkirkjufyrirkomulagsins, en önnur mál geta einnig fallið þarna undir. Ef að meðlimir Stjórnlagaráðs heykjast á því að fjalla af kostgæfni og sanngirni um það hvort að 62. grein núverandi stjórnarskrár sé eðlileg í nútímaþjóðfélagi vegna þess að líklegt er að hún veki deilur og taki tíma er ráðið um leið að segja okkur sem finnst þetta mál snúast um grundvallar mannréttindi að við höfum rangt fyrir okkur. Að þetta mál sé léttvægara en önnur umdeild mál sem fjallað verður um. Ég er ekki viss um að það samræmist hlutverki Stjórnlagaráðs að greina væntingar fólksins í landinu til mismunandi málaflokka niður eftir mikilvægi.

Í umræðum um þjóðkirkjufyrirkomulagið er yfirleitt vísað til hefðar og sögu, og miðað við að meirihlutastuðningur hefur verið við aðskilnað ríkis og kirkju í könnunum Capacent/Gallup samfleytt í hátt í tvo áratugi má líka benda á að þarna virðast hagsmunir minnihluta eiga að ráða. En ætli Stjórnlagaráð sér að gera tillögur um t.a.m. auðlindir landsins út frá mannréttindum og heilbrigðri skynsemi hlýtur að vera hægt að gera kröfu um sömu forsendur til allrar umfjöllunar ráðsins.

Mannréttindi og heilbrigð skynsemi ættu að vera leiðarljós ekki bara Stjórnlagaráðs heldur þjóðarinnar allrar. Það er mín von að Stjórnlagaráð muni setja gott fordæmi með því að setja sérhagsmuni og hefðarrök til hliðar og leiða inn nýjar og betri forsendur í umræðum sínum.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.