Réttur lögreglu til að vera við almennar samkomur
Smári McCarthy
- Heimilisfang: Hringbraut 53, 107 Reykjavík
- Skráð: 27.05.2011 19:29
Ég geri athugasemd við 8. gr mannréttindakaflans eins og hann nú stendur þar sem segir:
„Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.“
Þetta er gríðarlega hættuleg setning og er bein takmörkun á mannréttindum. Það vantar bæði að skilgreina hvað lögregla sé og hvað almennar samkomur séu til að þetta sé ekki galopið fyrir misnotkun valdstjórnar.
Hvenær verður samkoma óalmenn? Ef til dæmis samtök halda opið hús með kökum og pólitískum umræðum, mega lögreglumenn sitja á fremsta bekk? Mættu lögreglumenn koma inn á skemmtistaði án heimildar? Mættu þeir koma í afmælisveislur barna?
Þetta er allt of rúmt ákvæði og það er engin sérstök ástæða fyrir því að þetta ætti að vera inni – allur sá réttur sem lögregla þarf er nú þegar til í öðrum ákvæðum eða ætti að vera skilgreindur í kafla um framkvæmdarvald. Í flestum löndum hefur það þótt eðlilegt að gera greinarmun milli almenningsrýma og annarra rýma, og að sú takmörkun sem lögð er upp í 4. grein mannréttindakaflans sé túlkuð á sem víðastan hátt.
Ég hvet Stjórnlagaráð að íhuga mjög alvarlega að fjarlægja þessi orð áður en að skaði hlýst af þeim.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.