Félagafrelsi

Jóhannes Ágústsson og Jórunn Jóhannesdóttir
  • Skráð: 25.05.2011 13:14

Erindi/tillaga til Stjórnlagaráðs stjornlagarad.is; skrifstofa@stjornlagarad.is
Ofanleiti 2, 103 Reykjavík

Við undirrituð skorum hér með á Stjórnlagaráð að taka til endurskoðunar ákvæði stjórnarskrárinnar
um félagafrelsi. Endurskoðunin hafi eftirfarandi að markmiði:

Í fyrsta lagi að mönnum sé gert það algjörlega frjálst að ákveða í hvaða félögum og samtökum þeir kjósi að vera félagar í.

Í öðru lagi að enginn fullveðja einstaklingur verði sjálfkrafa skráður í félagasamtök t.d. fyrir tilstilli opinberra stofnana, án vitundar eða vilja viðkomandi. Til þess að sjálfráða einstaklingur sé skráður í félagasamtök skal ætíð krafist virkrar aðgerðar af hálfu viðkomandi, staðfestingar og undirskriftar.

Í þriðja lagi að ríkisvaldið hætti og verði síðan bannað að halda opinberar skrár yfir félagsaðild manna t.d. skrár yfir þá sem eru gyðingatrúar.

Rökstuðningur
Því miður gerir núverandi stjórnarskrá það mögulegt að skrá menn í félagasamtök án samþykkis þeirra og jafnvel gegn vilja þeirra sjálfra, þjóni slíkt hagsmunum annarra. Að okkar mati hlýtur hér að vera um að ræða skýlaust brot á mannréttindum. Sjálfráða einstaklingar eru með þessu sviptir þessu sjálfræði sínu. Sé maður t.d. ráðinn til starfa sem kennari er hann án umsvifa sjálfkrafa skráður sem félagsmaður í Kennarasambandi Íslands, sama gildir um alla aðra launþega og viðkomandi launþegasamtök. Í undantekningartilellum gefst mönnum þó sá möguleiki að velja á milli stéttarfélaga.

Við fæðingu eru börn skráð af fulltrúum ríkisvaldsins, hinu opinbera, í trúfélag móður, sé hún í slíkum félagsskap. Þegar síðan barnið verður fullveðja við 18 ára aldur heldur það áfram að vera skráð í trúfélag móður, nema viðkomandi einstaklingur grípi til virkra aðgerða og segi sig skriflega úr viðkomandi trúfélagi. Banna þarf ríkisvaldinu slík afskipti af trúfélagsaðild manna. Það eru sjálfsögð mannréttindi að fullveðja einstaklingar séu ekki skráðir í félagasamtök án virkrar aðgerðar af þeirra hálfu, staðfestingar og undirskriftar.

Stofnun á vegum ríkisvaldsins, innanríkisráðuneytisins, sem einnig fer með lögreglumál, Þjóðskrá, heldur uppi skráningu á trúfélagsaðild manna á Íslandi. Slíkt er að sjálfsögðu brot á mannréttindum. Trúmál eru einkamál hvers og eins í lýðræðisþjóðfélagi og skal ríkisvaldið ekki hafa nein afskipti af því hvaða trúarbrögð þegnarnir kunna að aðhyllast hver fyrir sig. Slík mannréttindabrot skulu því bönnuð í stjórnarskrá.

Því færum við fram þetta erindi að við trúum því að Stjórnlagaráð sé sama sinnis og sendum það hér með inn í þeirri einlægu von að við megum búa við stjónarskrá hver grundvallist á mannréttindum.

Með vinsemd og virðingu,

Jóhannes Ágústsson og Jórunn Jóhannesdóttir

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.