Flokksframboð og persónuframboð
Jóhannes Ágústsson og Jórunn H. B. Jóhannesdóttir
- Skráð: 24.05.2011 15:23
Erindi/tillaga til Stjórnlagaráðs stjornlagarad.is; skrifstofa@stjornlagarad.is
Ofanleiti 2, 103 Reykjavík
Flokksframboð og persónuframboð
Ég undirrituð/aður skora hér með á Stjórnlagaráð að taka til endurskoðunar ákvæði stjórnarskrárinnar um kjör alþingis- og sveitarstjórnarmanna. Endurskoðunin hafi það að markmiði að framboð til Alþingis og sveitarstjórna geti um það valið hvort þau taka þátt í kosningum sem flokksframboð eða persónuframboð. Með flokksframboði er átt við að sæti á Alþingi og í sveitarstjórnum séu bundin ákveðnum stjórnmálaflokki, með persónuframboði að sæti þessi séu bundin ákveðnum einstaklingum.
Rökstuðningur við tillögu:
Stjórnmálaþátttaka á Íslandi hefur um áratugaskeið verið grundvölluð á tilveru stjórnmálaflokka. Það heyrir til undantekninga hafi menni boðið fram einir sér með það að markmiði að fylkja kjósendum um persónu sína. Samtímis því sem flokksframboð eru einkennismerki íslenskra stjórnmála ber svo við að, samkvæmt stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, þá eru alþingis- og sveitarstjórnarmenn lausir allra mála hvað varðar flokksframboð þau sem staðið hafa á bak við þá í kosningum, samtímis því sem kjörstjórn úrskurðar um réttmæta setu þeirra á Alþingi eða í sveitarstjórnum. Alþingis- og sveitarstjórnarmenn geta þannig að eigin vilja, í samræmi við eigin sannfæringu hverju sinni, fært sig milli flokka á Alþingi eða í sveitarstjórnum ellegar starfað þar sem utanflokka. Kjörnir fulltrúar þessir, ef fulltrúa skyldi kalla, nema ef til vill fulltrúa eigin sannfæringar, geta einnig að eigin vilja snúist gegn þeim flokksframboðum sem borið hafa þá á höndum sér í sæti alþingis- eða sveitarstjórnarmanns. Þar geta þeir starfað af hinum mesta fítonskrafti gegn þeim stjórnmálaflokkum sem þeir þannig áður kölluðu sína og gert þeim allt til bölvunar eftir því sem í þeirra valdi stendur hverju sinni sem einn 63, 15, 11, 9, 7, eða jafnvel 5 alþingis- eða sveitarstjórnarmana. Þetta vil ég ekki banna en ég vil að aðrir möguleikar séu einnig fyrir hendi.
Stjórnmálaflokkar á Íslandi eru nær undantekningalaust lýðræðislegar opnar hreyfingar kjósenda og jafnframt tæki þeirra, mynduð í því augnamiði að ná fram markmiðum þeim sem greint er frá í lögum og stefnuyfirlýsingum flokkanna, á lýðræðislegan hátt, í lýðræðislegu starfi og á lýðræðislegum forsendum. Með því að kjörnir alþingis- og sveitarstjórnarmenn, í sannfæringarnauð sinni, snúi þetta verkfæri úr höndum flokkanna í beinni andstöðu við vilja þeirra og beiti því gegn þeim, beina þeir spjótum sínum gegn grundvallarmannréttindum lýðræðisþjóðfélags. Grundvallarmannréttindi þessi felast í skýlausum rétti alþýðu að mynda stjórnmálasamtök, taka þátt í kosningum og tryggja þar með markmiðum stjórnmálasamtakanna fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum. Þegar alþingis- eða sveitarstjórnarmenn snúast gegn flokksframboðum sínum vega þeir með afgerandi hætti gegn grundvallarmannréttindum, lýðræði og rétti kjósenda. Slík framkoma leiðir til þjóðfélagslegrar upplausnar og vantrúar á möguleika lýðræðis og afturhvarfs til andlýðræðislegra stjórnarhátta. Ég hvert Stjórnlagaráð til þess að hafna slíkri öfugþróun og snúast gegn henni af fullum krafti með því að leggja grundvöll að stjórnarskrárákvæði sem gefur möguleika á flokksframboðum. Vegur lýðræðis er eini færi vegurinn till farsællar framtíðar. Ég bind vonir við að Stjórnlagaráð sé sama sinnis.
Með óskum um gott gengi,
Jóhannes Ágústsson
Jórunn H. B. Jóhannesdóttir
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.