Kosningar

Hafsteinn Sigurbjörnsson
  • Heimilisfang: Höfðagrund 14 300 Akranes
  • Hagsmunaaðilar: Eldri borgari
  • Skráð: 22.05.2011 22:28

Kosningar

Ágætu stjórnlagafulltrúar. Fyrsta skrefið að auknu lýðræði, þ.e. að þjóðin fái meiri áhrif á hverjir verði kosnir til Alþingis og í sveitarstjórnir, er afskaplega einfalt, það er að önnur málsgrein 82 gr. í lögum nr. 24 frá 16. maí 2000 um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna verði sett í stjórnarskrá Íslands.

Í 82. gr. annarrar málsgreinar segir: Vilji kjósandi breyta nafnaröð á þeim lista sem hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa þriðja í röðinni o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.

Öll 82. greinin er þannig:
Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf þess lista á kjörseðlinum sem hann vill kjósa.
Vilji kjósandi breyta nafnaröð á þeim lista sem hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa þriðja í röðinni o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.

Þar sem kosið er um lista, er þarna sagt á mjög auðskilinn hátt að kjósandi má raða nöfnum í töluröð eftir sínu höfði á þann lista sem hann kýs.

Í 52. gr. sömu laga er lýsing á kjörseðlinum og þar segir meðal annars: Fyrir framan bókstaf hvers lista, sem skal vera stór og greinilegur og standa fyrir miðjum listanum, skal vera ferningur. Niður undan bókstafnum skulu vera nöfn frambjóðenda í réttri röð ásmt stöðu eða starfsheiti og heimili ef nauðsyn þykir til auðkenningar. Þetta er innan sviga og verður að skoða sem lítils háttar ábendingu um uppröðun.

Í lögum um sveitarstjórnarkosningar frá 1996 er aðeins á einum stað minnst á röðun á framboðslista, það er í 32. gr. annarrar málsgreinar, sem er þannig:
Greina skal í auglýsingu bókstaf framboðslista og nöfn frambjóðenda á hverjum lista í réttri röð.
Þarna er aðeins talað um að nöfn skuli vera í réttri röð, ekkert hvers konar röð, stafrófsröð, aldursröð, töluröð eða einhverri annarri röð.

Samkvæmt mínum skilningi þarf engu að breyta í 82. gr., aðeins koma henna í stjórnarskrána og með því festa það lýðræðislega form í sessi að flokkarnir tilnefni menn á lista, sem kjósendur síðan raða á listann eftir sínu höfði eins og 82. greinin lýsir.

Ef af þessu yrði þá næðist fyrsti áfangi að persónukjöri og þar með auknu lýðræði hjá þjóðinni.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.