Áhrif fjármálavalds á lýðræði takmörkuð
Júlíus B. Kristinsson
- Heimilisfang: Melgerði 17, 108 Reykjavík
- Skráð: 20.05.2011 07:15
Lagt er til að fyrirtækjum, stofnunum og samtökum verði gert óheimilt samkvæmt stjórnarskrá að veita beina og óbeina fjárhagslega styrki til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka. Einungis einstaklingar megi styrkja stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka.
Greinargerð.
Eitt af grundvallaratriðum í stjórnskipun Íslands er að einungis persónur hafa rétt til að kjósa. Fyrirtæki, stofnanir og samtök hafa ekki kosningarétt. Það má segja að þetta sé hluti af mannréttindum okkar.
Raunveruleikinn er hins vegar sá að það er farið á svig við þetta grundvallaratriði með því að fyrirtæki, stofnanir og samtök geta stutt við einstaka frambjóðendur og stjórnmálaflokka með fjárframlögum. Grunnurinn af hinu stjórnmálalega valdi liggur í stjórnmálaflokkunum og hjá einstökum stjórnmálamönnum. Grundvallarhætta á spillingu felst í tengslum stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka við fjármálavaldið, ekki síst fjármálavald fyrirtækja og samtaka.
Það að banna fyrirtækjum, stofnunum og samtökum að veita beina og óbeina fjárhagslega styrki til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka samrýmist þeirri grundvallar hugsun að einungis einstaklingar hafa kosningarétt og minnkar hættu á spillingu í grunnstoðum stjórnmálalífsins þótt þessi hætta verði aldrei útilokuð.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.