Verndun og nýting vatnsverndarsvæða

Sigurður R. Þórðarson
  • Skráð: 18.05.2011 08:55

Erindið, sem ekki hefur hlotið náð fyrir augum umhverfisyfirvalda í landinu, fjallar í stuttu máli um miklar áhyggjur undirritaðs vegna ábyrgðarlausrar umgengni við einstaka náttúruauðlind sem enn þá telst vera í eigu íslensku þjóðarinnar. Ef þessari auðlind, sem sótt er að úr öllum áttum, verður spillt vegna heimsku, gáleysis eða venjulegs valdhroka sveitarstjórna eða skipulags- og umhverfisyfirvalda í landinu gæti tekið áratugi ef ekki aldir að endurheimta einstök gæði og hreinleika kaldavatnslinda borgarbúa í Gvendarbrunnum, Heiðmörk og Kaldárseli.

Samkvæmt fornum bókum má ráða að Íslendingum hafi jafnvel fyrir landnám verið kunn einföld náttúrulögmál, samkvæmt hendingu úr Hávamálum þar sem segir; „Á skal að ósi stemma“, sömuleiðis voru svokallaðir „brunnmigar“ ekki almennt í miklu áliti. Hvorugt virðist íslensk stjórnsýsla hafa meðtekið eða hugsanlega er henni nákvæmlega sama hverning þjösnast er á náttúru landsins, eins og nýleg dæmi bera vitni um. Þar er m.a. átt við verksmiðjuframleidda dioxin-eiturefnaframleiðslu við sorpbrennslu á nokkrum stöðum á landinu.

Á sama hátt virðast samtíðarmenn Guðmundar biskups góða á síðmiðöldum hafa gert sér fulla grein fyrir mikilvægi hreinleika þess vatns sem streymdi fram neðanjarðar í áttina að núverandi höfuðborgarsvæði landsmanna. Annars hefði vísast ekki verið talið nauðsynlegt að hann blessaði og fæli kaldavatnslindirnar í Heiðmörk almættinu til verndar. Þetta var einmitt á svæðinu þar sem síðan heita Gvendarbrunnar í Heiðmörk þar sem Orkuveita Reykjavíkur dælir upp 800 sekúndulítrum af vatni sem að hreinleika og gæðum telst einstakt á heimsvísu.

Forystumenn er stýrðu litlu bæjarfélagi sem Reykjavík var í upphafi nýliðinnar aldar voru hins vegar með á nótunum þegar þeir réðust í það stórvirki að leggja vatnsleiðslu í trérörum frá Gvendarbrunnum til þorpsins í Kvosinni. Þetta var svar manna sem gerðu sér grein fyrir alvarleika og afleiðingum þess að neyta mengaðs drykkjarvatns, sem árlega hafði valdið örkumli og dauða allt að 120 manns á ári, í bæjarfélagi sem enn taldi innan við 10.000 íbúa. Þetta manntjón var bein afleiðing saurgerlamengunar frá brunnvatni sem híft var upp úr brunnum, oft staðsettum við eða undir ræsum þar sem klóakafurðum bæjarbúa var fleytt út í nærliggjandi skurði. Þeir sem kynnu að hafa áhuga á að kynna sér þessa sögu taugaveiki og afleiddra sjúkdóma er bent á gagnmerkt rit Orkuveitunnar um veitustofnanir borgarinnar.

Samkvæmt síðari tíma umfangsmiklum (Hydrogeology) rannsóknum, auk kortlagningu straumstefnu lindarvatns með gerð grunnvatnsrennslis líkana, voru hin fyrri framantalin atriði staðfest af vísindamönnum hjá verkfræðistofu Vatnaskila og ekki síst sérfræðingum Orkustofnunar, þeirra dr. Kristjáns Sæmundssonar og dr. Freysteins Sigurðssonar. Engu að síður telja umhverfisyfirvöld sig þess umkomin að hunza umsagnir þessara einstaklinga, þegar einstaklingar, sveitarfélög og skipulagsyfirvöld að því er virðist sýna engan áhuga á að hlífa vatnsverndarsvæðum borgarinnar á nokkurn hátt.

Mín tillaga sem leikmanns, borgarbúa og starfsmanns fyrirtækis sem síðan 1992 hefur byggt upp útflutningsiðnað með átöppun lindarvatns, þar sem hráefnið kemur frá Gvendarbrunnum, er eftirfarandi:

Að Stjórnlagaráð leggi til og samþykki sértæka grundvallarlöggjöf um verndun og nýtingu þessara svæða þar sem lögð verði áhersla á eftirfarandi atriði:

 

  • Að almenn umferð um svæðið frá Keili, um Kaldársel, Heiðmörk, Gvendarbrunna, Sandskeið, Jósepsdal að Hellisheiði verði takmörkuð eins og verða má.
  • Að langtímamarkmið verði að allur búnaður til skíðaiðkana í Bljáfjöllum verði fluttur á önnur heppilegri svæði.
  • Að sumarbústaðabyggðir sunnan Suðurlandsvegar frá Geithálsi og upp fyrir Sandskeið verði settar undir mjög strangt eftirlit varðandi frárennslismál.
  • Að sérstök heimild torfæruakstursklúbba fyrir æfinga- og keppnisaðstöðu í miðju vatnsverndarsvæði borgarinnar í Jósepsdal, verði afturkallað.
  • Að nýting Hellisheiðarsvæðisins (vestanverðu) til orkuframleiðslu, verði tryggð með mjög nákvæmum rannsóknum sem gætu stuðlað að nauðsynlegum aðgerðum sem gætu minnkað eða helst útilokað mengun af völdum brennisteinsvetnis eða öðrum efnaúrgangi frá jarðgufum.

 

Undirritaður telur að flest framangreindra atriða geti eftir atvikum fallið undir 179 gr. almennra hegningarlaga um meiri háttar brot gegn verndun umhverfis. Sjá grein þar sem fjallað er um málefnið í Morgunblaðinu 28. maí 2010.

Sömuleiðis er haft eftir Páli Stefánssyni umhverfisverkfræðingi í Mogunblaðsviðtali; Grunnvatnið er sameiginleg auðlind. Þar er m.a. haft eftir Páli,

„Á sama hátt og það er sjálfsagt mál að fólk hafi rétt á að anda að sér góðu og heilnæmu lofti“ telur hann nauðsynlegt að verja með ákvæðum í stjórnarskrá rétt einstaklinga til þess að hafa aðgang að þessum lífsgæðum hliðstætt og gert er við önnur lífsgildi eins og t.d. eignarrétt og frelsi til athafna. Vatn og loft eru grundvallarforsendur lífsins.

Með von um að erindið, sem er mjög brýnt fyrir alla Íslendinga, muni verða tekið fyrir af hálfu Stjórnlagaráðs. Þannig að koma megi í veg fyrir að sjálfskipaðir embættismenn geti valdið allri þjóðinni skaða, sem seint eða aldrei fengist bættur. Íslendingar þurfa ekki á endurteknum hallærum af mannavöldum að halda.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.