Kjördæmaskipan

Sigurður Ingólfsson
  • Heimilisfang: Háaleitisbraut 26
  • Skráð: 16.05.2011 10:09

Ágæta stjórnlagaráðsfólk

Hér vil ég koma á framfæri við ykkur tveim greinum um kjördæmaskipan sem birtust á Mbl.is blog eftir undirritaðan. Þetta er slóðin http://siggus10.blog.is/blog/siggus10/

Ég vona að þau sem fjalla um kjördæmaskipan renni yfir þetta.

STJÓRNLAGAÞING OG KJÖRDÆMASKIPAN Mbl.is blog 8.9.2010

Það stefnir í stjórnlagaþing og þá kemur ekki til með að vanta hugmyndir frá okkur bloggurum. Fjallháir staflar af tillögum eru efalaust þegar til frá þjóðfundum undanfarinna missera og margar þeirra efalaust góðar. Ekki veit ég hvort þessi tillaga mín um nýja kjördæmaskipun er þar inni en ég má til með að láta hana flakka, ekki síst til að losna við hana, og það er svo annarra að huga að því hvort hún er nýtileg.

Kjördæmaskipan verður efalaust á dagskrá, allt frá því að hafa landið eitt kjördæmi og upp í óbreytt ástand. Varla verður kjördæmum fjölgað frá því sem nú er. Tillaga mín er að landið verði tvö kjördæmi og þá sem næst því að vera jafn mannmörg. Þetta næst með því að Reykjavíkurkjördæmin tvö ásamt Mosfellsbæ og Norðvesturkjördæmi verði að einu kjördæmi. Hitt kjördæmið verði þá gert úr núverandi Suðvestur- (án Mosfellsbæjar) Suður- og Norðausturkjördæmi. Hvort kjördæmi hefði þá um 95.000 kjósendur svo jafnara gæti það ekki orðið. Til að hafa oddatölu þingmanna yrði það að ráðast hvort kjördæmið hefði einum þingmanni fleira og það yrði það kjördæmi sem hefði fleiri greidd atkvæði. Það er of mikil breyting í einu stökki að gera landið að einu kjördæmi. Með þessu fyrirkomulagi tel ég að koma megi í veg fyrir frekara kjördæmapot og kosningaloforð sem með öðru eru langt komin með að setja þjóðina á hausinn.

LANDIÐ SEM TVÖ KJÖRDÆMI Mbl.blog 19.11 2010

Það styttist í stjórnlagaþingskosningar og þá kemur ekki til með að vanta hugmyndir frá okkur bloggurum. Margar tillögur eru þegar til frá þjóðfundum undanfarinna missera og margar þeirra efalaust góðar. Ekki veit ég hvort þessi tillaga mín um nýja kjördæmaskipun er þar inni en ég má til með að láta hana flakka og það er svo annarra að huga að því hvort hún er nýtileg.

Ný kjördæmaskipan verður efalaust á dagskrá stjórnlagaþingsins og hugmyndir um að hafa landið sem eitt kjördæmi og halda óbreyttri skipan. Varla verður kjördæmum fjölgað frá því sem nú er. Tillaga mín er sú að landið verði tvö kjördæmi með næstum jafnan fjölda íbúa í hvoru þeirra.

Kjördæmi A yrði þannig: Reykjavíkurkjördæmin tvö ásamt Mosfellsbæ úr Suðvesturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi.

Kjördæmi B yrði þannig: Suðvesturkjördæmi að undanskildum Mosfellsbæ, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Hvort kjördæmi hefði þá um 100.000 kjósendur. Kjördæmið sem hefði meiri kjörsókn fengi þá einum þingmanni fleira til að ná oddatölu þeirra. Það er of mikil breyting að gera landið að einu kjördæmi í einu stökki. Þetta nýja fyrirkomulag á kjördæmaskipan ásamt jöfnun atkvæða, sem er auðveld í kjölfarið, tel ég að leiði fljótt til mun farsælli stjórnarhátta.

Viðbót 14.5 2011

Ef landið verður gert að einu kjördæmi tel ég það leiða til sofandaháttar og metnaðarleysis hjá þingmönnum sem gætu orðið of margir á höfuðborgarsvæðinu á kostnað landsbyggðarinnar. Alltaf er gott að hafa „samkeppni“ milli kjördæma og stökkið úr núverandi skipan í eitt kjördæmi er alltof stórt skref.

Með bestu kveðjum og með von um að heill og farsæld fylgi ykkur í mikilvægum störfum.

Sigurður Ingólfsson
Háaleitisbraut 26 Rvk.
sigurdur@talnet.is

 

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.