Athugasemdir við tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur

Hjörtur Hjartarson
  • Heimilisfang: Hringbraut 87, 107 Reykjavík
  • Skráð: 15.05.2011 22:08

Ég vil gera fjórar athugasemdir við tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings, sem stjórnlaganefnd lagði fyrir Stjórnlagaráð:

1. Í skýrslu sinni segir stjórnlaganefnd að þjóðaratkvæðagreiðslur séu „kostnaðarsamar og tímafrekar og undantekning frá almennum reglum fulltrúalýðræðis“. Einnig, að sjá verði til þess að fámennir þrýstihópar geti ekki knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um mál. Nefndin telur því „að ekki komi til greina að miða við lægra hlutfall en 15% kjósenda“, það er, að undirskriftir 15% kjósenda þurfi til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Í samræmi við þessi viðhorf gera báðar tillögur nefndarinnar um þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings, eða þjóðarfrumkvæði, (valkostur 1 og valkostur 2) ráð fyrir umræddri kröfu um 15% lágmark.

Í fjölþjóðlegu yfirlitsriti um lýðræðismál, Direct Democracy. The International IDEA Handbook, segir, að í löndum þar sem gerðar séu kröfur um undirskriftir fleiri en 15% kjósenda, séu þjóðaratkvæðagreiðslur nánast óþekktar – orðin tóm. Jafnframt segir, að strangar kröfur um fjölda undirskrifta séu til þess fallnar að hygla rótgrónum stjórnmálaflokkum og öflugum sérhagsmunasamtökum.(1)



Tillögur stjórnlaganefndar eru því, að þessu leyti, lítt lýðræðislegar og í raun varasamar. Ekki ætti að koma til greina að miða við HÆRRA hlutfall kjósenda en 15%. Þjóðaratkvæðagreiðslur, eins og hér um ræðir, eiga að vera lýðræðislegt úrræði fyrir almenna borgara, ekki valdatæki í höndum fjársterkra sérhagsmunasamtaka, eða  stjórnmálaafla sem skammta sjálfum sér af almannafé.

Stjórnlagaráð þarf að gera hóflegri og lýðræðislegri kröfu um fjölda undirskrifta kjósenda en tillögur stjórnlaganefndar gera ráð fyrir.

2. Í valkosti 2 gerir stjórnlaganefnd ráð fyrir að kjósendum sé ekki unnt, „með bindandi hætti, að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málefni sem Alþingi hefur ekki afgreitt“.  Ekki er gert ráð fyrir að almenningur geti kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem Alþingi hefur ekki fjallað um og tekið afstöðu til.



Þjóðaratkvæðagreiðslur, sem eiga að vera að frumkvæði almennings, er ekki rétt að binda eingöngu við mál sem Alþingi afgreiðir. Með því fyrirkomulagi hefur almenningur sjálfur ekkert dagskrárvald og í raun ekkert frumkvæði. Hann getur aðeins brugðist við.

Einn megintilgangur þess að viðhafa þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings er, að þessi sami almenningur geti komið málum á dagskrá, ekki síst málum sem rótgrónir pólitískir flokkar vanrækja, ef til vill vísvitandi, eða láta sig litlu varða.(2)

Tillaga stjórnlaganefndar, sem felst í valkosti 1, er því mun betri að þessu leyti.

3. Athugavert er að valkostur 1 gerir ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðsla sé aðeins „bindandi þegar hún fjallar um gildi tiltekinna laga ... .“ Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings ættu alltaf að vera bindandi, og eru það nær alls staðar þar sem þær eru tíðkaðar, enda mjög letjandi fyrir kjósendur ef svo væri ekki.(3)


4. Í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur er nauðsynlegt að gera ráðstafanir til þess að tryggja að fjölmiðlar sinni lýðræðislegum skyldum. Þar eiga Íslendingar langt í land, sbr. tillögu Lýðræðisfélagsins Öldu til Stjórnlagaráðs, „Aðgengi að fjölmiðlum“.
-------------------------------

(1) "In countries with signature thresholds of more than 15 per cent of registered electors, almost no initiatives will qualify to go forward to a vote. In particular, high signature thresholds will provide preferential access to initiative rights for very strong political organizations (parties and large interest groups) and transform initiative rights into instruments of power for larger groups or organizatins." Sjá Direct Democracy. The International IDEA Handbook. International Institute for Democracy and Electoral Assistance. Stokkhólmi 2008, bls. 70. [Handbókina má sækja á eftirfarandi vefslóð: http://www.idea.int/publications/direct_democracy/index.cfm].

(2) Direct Democracy. The International IDEA Handbook, bls. 65.

(3) Direct Democracy. The International IDEA Handbook, bls. 80.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.