Alþing, dýravernd, beint lýðræði, ráðherrar, dómarar, sýslumenn, landið eitt kjördæmi, aðskilnaður ríkis og trúfélaga, fjöldi kjörtímabila þingmanna og forseta, jöfnun lífeyrisréttinda, persónukjör

Friðgeir Haraldsson
  • Skráð: 12.05.2011 21:13

 

Hef mikinn áhuga á breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins, enda kominn tími til
og langar mig að koma með eftirfarandi hugmyndir:

1. Að nafni þingsins verði breytt úr þgf. Alþingi í nf. ALÞING, sem er miklu virðulegra og á við um „nýja“ Ísland. Ekki var sagt forðum Kjalarnesþingi eða Þorskafjarðarþingi.

2. Að hlutur málleysingja verði tryggður, t.d. að allir sem sjá um lifandi skepnur þurfi að fá tilskilin leyfi að þeir séu hæfir til slíks svo og að grasbítar verði hafðir í afgirtum hólfum, en fái ekki að ráfa óhindrað yfir lendur lands og gjarnan yfir á annarra manna lönd, eins og tíðkast í öllum nálægum löndum. Meira að segja hirðingjar í Biblíunni hirtu um búsmala sinn.

3. Að reynt verði að koma á sem beinustu lýðræði, en nú eru um 220.000 auðkennislyklar í notkun á landinu og um 70.000 rafræn skilríki og því lítill vandi að sannreyna nöfn svo og að safna saman stórum hluta kjósenda með tiltölulega litlum tilkostnaði, en aukning í rafrænum skilríkjum er um 5-8.000 á mánuði.

4. Að ráðherrar veljist ekki úr röðum fulltrúa á löggjafarþingi, t.d. yrði heilbrigðisráðherra kosinn af heilbrigðisstéttum landsins eða fulltrúum þeirra, og menntamálaráðherra úr röðum kennara o.s.frv. og myndi þá verða klippt á tengingu á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds.

5. Að dómarar og sýslumenn yrðu kosnir af lögfræðingum þessa lands.

6. Að landið verði eitt kjördæmi (svipað margir og í Árósum í Danmörku), sem myndi jafna atkvæðarétt um alla framtíð og koma í veg fyrir kjördæmapot og spillingu – sjá t.d. Héðinsfjarðargöng (en margir fyrrum samgönguráðherrar komu úr því kjördæmi). Þau kostuðu um 14.000.000.000,- og skv. tölum fara um 2 bílar um göngin á klst. á tímabilinu kl. 23.00-07.00. Þetta er álíka mikið og hin gleymda Sundabraut á að kosta.

7. Aðskilja ríki og trúfélög.

8. Að þingmenn og forseti sitji hámark 3 kjörtímabil og æðstu stjórnendur ríkis að hámarki 10 ár.

9. Að jafna eins og kostur er lífeyrisréttindi þannig að fólk hljóti og njóti afrakstur ævistarfs síns á áþekkum kjörum.

10. Lifandi vera kýs flokk á þing (sem er ekki lifandi) og svo eiga flokkar að setja þeim lifandi leikreglur, væri ekki kjörið að kjósa beint á þing, einstaklinga.

Mörgu mætti svo sem bæta við (t.d. um embætti forsetans), en læt hér staðar numið að sinni.

Baráttukveðjur,

Friðgeir.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.