Um umhverfisverndarákvæði og tillögu stjórnlaganefndar

Guðmundur Hörður Guðmundsson
  • Heimilisfang: Lynghagi 6, 107 Reykjavík
  • Skráð: 09.05.2011 23:40

Meðfylgjandi eru athugasemdir við tillögur stjórnlaganefndar um umhverfisverndarákvæði í stjórnarskrá:

1. Tillagan byggir á mannlægri (e. anthropocentric) nálgun. Það segi ég vegna orðalagsins og vegna þess að umhverfisverndarákvæðið er haft í mannréttindakaflanum. Nálgunin er sú að náttúran sé til fyrir manninn, hvort sem það er til nýtingar eða verndar, en hún eigi sér ekki sjálfstæðan tilverurétt. Ekvadorar sömdu nýja stjórnarskrá árið 2008 þar sem fjallað er um réttindi náttúrunnar í sérstökum kafla. Bólivía hefur tekið svipuð skref og hugmyndin hefur verið rædd á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Sjá nánar:
http://www.rightsofmotherearth.com/ecuador-rights-nature/
http://www.wired.com/wiredscience/2011/04/legal-rights-nature-bolivia/
http://therightsofnature.org/harmony-with-nature-un/

2. Ég undrast þetta orðalag tillögunnar: „Tryggður skal í lögum réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis.“ Þetta er að mínu mati orðinn svo sjálfsagður réttur nú þegar að hann þarf varla staðfestingar við í stjórnarskrá. Eðlilegra væri að ákvæðið fjallaði um frumkvæðisskyldu stjórnvalda til að veita upplýsingar vegna mengunar eða mengunarhættu sem gæti hugsanlega haft áhrif á líf og heilsu. Nýlegt dæmi um díoxínmengun frá sorpbrennslustöðinni Funa sýnir svart á hvítu að skyldan þarf að hvíla hjá stjórnvöldum.

3. Í tillögunni er ekki fjallað um kynslóðavíddina, þ.e. að við nýtingu auðlinda þurfi að gæta að rétti komandi kynslóða. Hugmyndin um rétt komandi kynslóða er eitt meginstef sjálfbærrar þróunar. Þess vegna þætti mér furðu sæta ef ekkert yrði fjallað um þann rétt í umhverfisverndarákvæði stjórnarskrár.

4. Ekkert er fjallað um mikilvægar meginreglur umhverfisréttarins í tillögunum, t.d. mengunarbótaregluna og varúðarregluna. Það er næstum því sambærilegt því að fjalla ekki um tjáningarfrelsi eða trúfrelsi í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar.

5. Í tillögunum er fjallað um lýðræðislegar aðferðir á mjög íhaldssaman hátt. Þar segir að tryggja skuli í lögum rétt til upplýsinga um áhrif framkvæmda og kost á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið. Þetta er uppskrift að óbreyttu ástandi þar sem fyrirtæki vinna umhverfismat og sveitarfélög skipulög sem almenningur fær að gera athugasemdir við. Þannig yrði áhrifaleysi almennings í umhverfismálum viðhaldið. Það hefði verið framsæknara að leggja til að kjósendur gætu farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um skipulag sveitarfélaga eða fyrirhugaðar virkjanir yfir ákveðinni stærð. Á þessu sviði er ekki nóg að almenningur fái að knýja fram þjóðaratkvæði um lagafrumvörp, eins og núverandi tillögur gera ráð fyrir, þar sem Alþingi fjallar ekki lengur um einstaka virkjanir. Ákvarðanir um virkjanir eru teknar hjá sveitarfélögum og orkufyrirtækjum.

6. Nefndin gerir ekki tillögu um ákvæði um vernd ósnortinna víðerna. Ég hvet Stjórnlagaráð til að leggja til nokkurs konar „forever wild“ ákvæði, sem kvæði á um bann við frekari skerðingu víðerna, annaðhvort á landinu öllu eða á hálendinu. Það mætti rökstyðja slíka tillögu með ýmsum rökum, jafnt fagurfræðilegum sem efnahagslegum.

Sjá nánar:
http://www.adirondack-park.net/history/political/threats.html

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.