Þjóðkjörið framkvæmdavald - Tveggja turna pólitík

Ingólfur Harri Hermannsson
  • Skráð: 09.05.2011 11:07

Reykjavík 9.5.2011  

Kæru ráðsfulltrúar.

Vegna umræðu um þjóðkjörið framkvæmdarvald langar mig að biðja ykkur að íhuga vel hvers konar stjórnmálaumhverfi ný stjórnarskrá mun mynda.

Það hljómar fátt lýðræðislegra en að þjóðin fái að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu. Hins vegar leiðir slíkt fyrirkomulag oftar en ekki af sér tveggja turna kerfi þar sem tveir öflugir flokkar, eða í besta falli flokkablokkir, skiptast á að fara með völdin í krafti naums meirihluta, ef ekki minnihluta atkvæða.

Minni flokkar, sem þó gætu notið stuðnings tuga þúsunda Íslendinga, ættu ekki möguleika í kosningu til forsætisráðherra/forseta. Kjósendur slíkra flokka þurfa því að velja á milli að kasta atkvæði sínu eða kjósa flokk sem þeir styðja ekki í raun, en telja aðeins skárri kost en hinn stóra flokkinn.

Þegar þessir tveir flokkar hafa fest sig í sessi er lítið sem getur haggað þeim og hvor þeirra sem verður við völd mun frekar treysta þetta tveggja turna kerfi en að eiga á hættu að þurfa að deila völdum með minni flokkunum.

Spilling er oft fylgifiskur svona kerfis, því svo lengi sem báðir flokkarnir eru álíka spilltir eiga þeir möguleika á að tryggja sér stjórnarráðið. Satt að segja þarf flokkur í þessari stöðu aðeins að vera næstversti kosturinn í augum meirihluta þjóðarinnar, eða jafnvel minnihluta eftir kosningakerfum, til þess að vinna forsætisráðherrastólinn.

Hvort sem þú, kæri ráðsfulltrúi, deilir þessari sýn minni á ókosti þjóðkjörins framkvæmdarvalds eða ekki bið ég þig að íhuga vel hvernig umhverfið muni þróast árum og áratugum eftir að þið ljúkið ykkar vinnu.


Kveðja,

Ingólfur Harri Hermannsson.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.