Hernaður

Þór Vigfússon
  • Heimilisfang: Hraun 1 765 Djúpavogi
  • Skráð: 05.05.2011 12:00

Hernaður

Mín ósk er að skoðað verði hvort hægt sé að setja á einhvern hátt inn í stjórnarskrá:

Að enginn íslenskur ríkisborgari megi bera vopn hvorki í friðar- né hernaðarlegum tilgangi.
Að landið verði gert herlaust og öll umferð hertóla verði bönnuð innan 200 mílna landhelgi.

Umræða um her og varnir eru að mínu mati á villigötum. Það má ekki gleyma að það eru gífurlegir hagsmunir í húfi t.d. hjá hergagnaframleiðendum og hjá mörgum þjóðum er stríðsrekstur stór hluti af hagkerfi þeirra.

Ég vil að þessi mál séu rædd eins og þau eru, ekki að það séu þeir sem hagsmuni hafa sem stýri umræðunni og segi fólk eins og mig barnalegt og að við skiljum ekki alþjóðamál.

Það er látið eins og það séu eðlileg samskipti þjóða á milli að vera í hernaðarbandalagi og hluti af nauðsynlegri utanríkisstefnu. Það verður að ræða þetta á mannamáli, ekki slá ryki í augu okkar almennings með tali um samstarf, vinaþjóðir og bandalög.

Það er heldur ekki heiðarlegt að blanda hernaði eða hertólum saman við björgunarstörf og öryggi t.d. sjómanna. Það er talað um að sá sem er á móti hernaði sé á móti þyrlubjörgunarsveit og öðrum björgunarsveitum. En þetta er tvennt ólíkt. Um þessar mundir er talað um að við þurfum að efla varnir þar sem siglingar um norðurhöf séu að aukast og mikilvægi þess að vera í Nato hafi aldrei verið meira. Auðvitað nýtist þessi mannskapur og tól til björgunarstarfa, en það réttlætir ekki tilvist þeirra.

Eina leiðin að friði er að banna allan hernað. Það á að spyrja: Vilt þú senda barn eða barnabarn þitt í her eða í stríðsátök? Sá sem segir nei við þessari spurningu getur ekki stutt að aðrar þjóðir geri það í staðinn.

Eða er í lagi að drepa börn og barnabörn þeirra vondu ef maður er svo heppinn að vera í liði hinna góðu?

Þetta er kallað mikil einföldun á flóknu máli, en það er það ekki. Málið er ekki flóknara en þetta. Umræðan hefur fengið að þróast svo lengi án gagnrýni og friðarsinnar hunsaðir eða jafnvel kallaðir landráðamenn og hryðjuverkamenn.

Hvernig er komið fyrir okkar þjóð þegar þingmenn eru að ræða í alvöru á Alþingi um aðstöðu fyrir vopnlausar herþotur?

Það má ekki fara eftir efnahag okkar hvort við styðjum stríðsrekstur eða ekki.

Það hefur verið gortað af því að við höfum bannað kjarnavopn. Bann við kjarnorkuvopnum er bara sýndarmennska og breytir engu um hernaðarbrölt heimsins.

Við getum snúið við blaðinu og hafið friðarferli í heiminum með góðri stjórnarskrá.


Þór Vigfússon
Sólhól, Djúpavogi.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.