Fátækt
Ísleifur Gíslason
- Heimilisfang: Básbryggju 3
- Hagsmunaaðilar: BÓT aðgerðahópur um BÆTT samfélag
- Skráð: 29.04.2011 16:58
Eins og alþjóð ætti að vera kunnugt hefur fátækt verið falið vandamál á Íslandi um áratugaskeið en hefur nú birst í öllum sínum ljótleika eins og sjá má dag eftir dag í blaðagreinum og vefskrifum.
Á fundi BÓTar 19. apríl 2011 samþykkti stjórn að Stjórnlagaráði yrði send viðfest tillaga að breytingu á 76. grein núgildandi stjórnarskrár með von um að málið fái verðskuldaða umfjöllun Stjórnlagaráðs.
Við í BÓT gerum okkur fulla grein fyrir því að tillaga okkar er nokkuð róttæk en í ljósi þeirrar neyðar sem hér á landi er að verða almenn og þess að 76. greinin er vita gagnslaus í núverandi mynd, vonum við að meðlimir Stjórnlagaráðs skoði tillöguna með jákvæðu hugarfari.
Viðtakandi þessa bréfs er vinsamlega beðinn að fjölfalda þessar síður og afhenda meðlimum ráðsins til umfjöllunar.
Með innilegri von um úrbætur í málefnum fátækra,
fh. BÓTar Ísleifur Gíslason
Básbryggju 3
110 Reykjavík
Tillaga að breytingu á 76 gr. núgildandi stjórnarskrár lýðveldisins Íslands
Úr núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands:
76. gr. [Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.]1)
1)L. 97/1995, 14. gr.
Breytt grein verði í mannréttindakafla nýrrar stjórnarskrár:
(nýtt númer greinar.) [Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.
Viðkomandi ráðuneyti skal skylt að birta árlega, fyrir 1. desember, raunhæf neyslu/tekjuviðmið sem verði lágmark bóta til þeirra sem getið er hér að ofan.
Óheimilt er að rýra ofangreindar bætur með skattlagningu eða á neinn annan hátt (samanber lækkun barnabóta húsaleigubóta eða annarra þeirra uppbóta sem bótaþegi á með réttu).
Óheimilt er aðilum vinnumarkaðarins að semja um laun undir neyslu/tekjuviðmiðum viðkomandi ráðuneytis og skuli þau einnig vera frí við skattlagningu sbr. hér að ofan.
Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.
Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.]1)
1)L. 97/1995, 14. gr.
Ummæli
Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.
Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.