Forseti

Kristinn Már Ársælsson
  • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
  • Skráð: 29.04.2011 15:41

Ágæta stjórnlagaráð.

Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður

[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]

Forseti

Alþingi kýs forseta og varaforseta úr röðum ráðherra einu sinni á ári. Enginn má sitja sem forseti lengur en eitt ár í senn. Forseti stýrir ríkisstjórnarfundum og kemur fram fyrir Íslands hönd við hátíðleg tækifæri. Hann hefur engin völd umfram aðra ráðherra og sinnir ráðherraembætti sínu á meðan hann er forseti. 

Greinargerð

Lýðræðisfélagið Alda hefur valddreifingu að leiðarljósi. Það er því andstætt markmiðum félagsins að viðhalda forsetaembættinu í núverandi mynd. Félagið leggur til að tekið verði upp sama kerfi og í Sviss þar sem dregið er úr völdum forseta og hann gerður að fundarstjóra á ríkisstjórnarfundum og táknrænum fulltrúa ríkisins. Forseti hefur engin völd umfram aðra ráðherra. Alþingi kýs forseta einu sinni á ári og þannig dreifast skyldur hans á fleiri hendur. Vald hans til að leggja lagafrumvörp í dóm almennings er fært yfir til almennings og þingmanna. Hér má kynna sér stjórnarskrá Sviss á ensku (http://www.admin.ch/org/polit/00083/index.html?lang=en)

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.