Borgaraþing

Kristinn Már Ársælsson
  • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
  • Skráð: 29.04.2011 15:40

Ágæta stjórnlagaráð.

Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður

[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]

Borgaraþing

Löggjafarvaldinu er heimilt að framselja vald sitt að hluta til borgaraþinga sem mönnuð eru öðrum en kjörnum fulltrúum og slembivalsfulltrúum á þingi. Fulltrúar á borgaraþing skulu valdir með hlutbundinni kosningu og/eða slembivali. Þriðjungur þingmanna og 8% atkvæðisbærra manna geta krafist borgaraþinga um brýn málefni.

Greinargerð

Í sönnum lýðræðisríkjum á aðkoma almennra borgara að ákvarðanatöku að vera tryggð. Sem stendur hefur almenningur fá úrræði utan almennra þingkosninga fjórða hvert ár. Víða um heim eru haldin borgaraþing þar sem ákvarðanir eru færðar í opið lýðræðislegt ferli með aðkomu almennra borgara og má í því sambandi nefna tvö dæmi:

a. Stór hluti fjárhagsáætlunar brasilísku borgarinnar Porto Alegre hefur verið ákveðinn í þátttökuákvörðunarferli þar sem um 8% borgarbúa taka árlega þátt í ferlinu. Í borginni búa um 1,4 milljónir manna og hefur þessi aðferð verið notuð frá lokum 9. áratugar síðustu aldar með góðum árangri.

Meðal þeirra breytinga sem leitt hafa af lýðræðisvæðingunni eru:

I. Spilling hvarf, enda ferlið opið og gagnsætt - engar leiðir innan kerfisins til þess að lauma fjármagni til tengdra aðila.

II. Fjármagn fluttist í meira mæli til fátækari svæða frá ríkari svæðum.

III. Grasrótarstarf efldist verulega, fólk tók sig saman um að stofna félög um forgangsröðun verkefna innan hverfa og svæða borgarinnar.

b. Í Bresku Kólumbíu í Kanada var ákveðið að gera breytingar á kosningalöggjöfinni og farin sú leið að skipa slembivalsþing. Þar voru valdir með handahófi úr þjóðskrá 160 borgarar (með jöfnu kynjahlutfalli) sem komu saman og unnu tillögu sem svo var lögð fram í fylkiskosningu.

Í íslensku stjórnarskránni eru engin ákvæði sem heimila ríkisvaldinu að framselja vald sitt til lýðræðislega kjörinna borgaraþinga. Mikilvægt er að slíku ákvæði verði komið inn í stjórnarskrá til að tryggja möguleikann á lýðræðislegri ákvarðanatöku í þátttökuferlum og/eða slembivalsþingum.

Gert er ráð fyrir að borgararþing sé kölluð saman þegar ræða þarf stór mál sem krefst víðtækara samráðs við almenning en Alþingi býður upp á. Þá eru haldnir umræðu- og kynningarfundir um allt land, víðtæk umræða og kynning fer fram í fjölmiðlum, fulltrúar valdir til þess að endurspegla ólíka hópa meðal almennings og langur tími gefinn til þess að ljúka ferlinu. Mælst er til þess að borgaraþing séu einnig kölluð saman í málum á sveitarstjórnarstigi.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.