Aðgengi að fjölmiðlum

Kristinn Már Ársælsson
  • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
  • Skráð: 29.04.2011 15:35

Ágæta stjórnlagaráð.

Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður

[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]

 Aðgengi að fjölmiðlum

  1. Framboðum í alþingiskosningum skal tryggður jafn, nákvæmlega tilgreindur og víðtækur aðgangur að útvarpi og sjónvarpi, og öðrum áhrifaríkustu fjölmiðlum hverju sinni, til þess að kynna stefnumál sín.
  2. Framboðum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að ráðstafa tiltekinni hámarksfjárhæð í pólitískar auglýsingar í kosningabaráttu, það er á tilteknu tímabili í aðdraganda kosninga.

Greinargerð

  1. Útvarp og sjónvarp eru áhrifaríkustu fjölmiðlar samtímans. Með því að tiltaka einnig áhrifaríkustu fjölmiðla hverju sinni, er tryggt að löggjafinn geti brugðist við breytingum í fjölmiðlun og metið stöðuna á hverjum tíma. Víðtækur aðgangur felur í sér að löggjafinn þurfi hugsanlega að leggja lýðræðislegar skyldur á herðar fleiri fjölmiðlum en þeim sem eru í eigu hins opinbera. Kosningar í fjölmennustu sveitarfélögum landsins eru undirorpnar sömu baráttuaðferðum og kosningar til Alþingis og þurfa því að lúta svipuðum reglum. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.
  2. Ákvæðið er sett til þess að hemja fjárþörf stjórnmálasamtaka og framboða, og stuðla að því að pólitískum sjónarmiðum sé ekki mismunað um of í krafti peninga. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft.

Almennar forsendur

Auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi eru dýrar, og peningar og valdaaðstaða geta ekki ráðið úrslitum í kosningabaráttu, eigi slík barátta að heita lýðræðisleg. Jafnræði er grundvallaratriði. Eins mega áhrifamestu fjölmiðlar ekki verða háðir auglýsingatekjum frá tilteknum stjórnmálasamtökum. Þessi sjónarmið eru almennt viðurkennd í lýðræðisríkjum og af fræðimönnum.

Ísland sker sig algerlega úr í hópi Evrópuríkja að því leyti að hér er stjórnmálasamtökum heimilt að auglýsa í ljósvakamiðlum án nokkurra takmarkana. Slíkt fyrirkomulag hefur leitt til andlýðræðislegrar mismununar og espað fjárþörf stjórnmálaflokka óeðlilega.

Gamalgrónu stjórnmálaflokkarnir hafa tekið sér sífellt meira fé úr almannasjóðum og skuldsett sig ótæpilega í kosningum. Almennt hafa þeir gert sig háða peningaöflum í samfélaginu með hörmulegum afleiðingum. Við því þarf að bregðast.

Ný framboð til Alþingis standa við þessar aðstæður afar illa að vígi. Hiklaust má segja að um kerfisbundna útilokun nýrra framboða sé að ræða. Jafnvel má tala um valdaeinokun gamalgróinna stjórnmálaflokka í þessu sambandi.

Ráðandi stjórnmálasamtök hverju sinni eru, eðli máls samkvæmt, óheppileg og vanhæf til þess að setja grundvallarreglur sem fyrrnefnd ákvæði fela í sér.

Af ofangreindum ástæðum er brýn nauðsyn að setja í grundvallarlög skýr ákvæði sem tryggja að sett verði almenn lýðræðisleg löggjöf um pólitískar auglýsingar og kynningar í öflugustu fjölmiðlum.

Fordæmi

Bandaríkin, og örfá ríki önnur, leyfa að stjórnmálaflokkar kaupi sér pólitískar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi í kosningabaráttu. Slíkar auglýsingar eru yfirleitt bannaðar eða um þær gilda strangar reglur. Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru dæmi um lönd sem banna slíkar auglýsingar alveg.

Pólitískar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi geta sannarlega unnið gegn lýðræðislegum tilgangi kosninga og lýðræði almennt. Hins vegar má gagnrýna hve illa öflugustu fjölmiðlar samtímans eru nýttir til þess að efla lýðræði. Með sjónvarpi og útvarpi er hægt að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegu starfi og kosningum svo um munar. Fjölmiðlar geta stuðlað að betri upplýsingagjöf og almennt upplýstari kjósendum, ef rétt er að málum staðið.

Í Bretlandi eru keyptar pólitískar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi bannaðar. Hins vegar er stjórnmálaflokkunum úthlutað tilteknum tíma í helstu ljósvakamiðlum til þess að kynna stefnumál sín og sjónarmið. Svipað fyrirkomulag er t.d. á Írlandi og í Frakklandi. Í Portúgal er lögð sú lýðræðislega skylda á alla ljósvakamiðla að gefa stjórnmálaflokkum tiltekið pláss til kynningar. Svipuð regla var tekin upp á Ítalíu árið 2002. Í Grikklandi mega stjórnmálaflokkar eyða tiltekinni hámarksfjárhæð í auglýsingar, sem þó má ekki nema meiru en 20% af heildarútgjöldum við kosningabaráttu.

Á þennan hátt má fara land úr landi í Evrópu og allt ber að sama brunni: Ísland er viðskila við önnur ríki álfunnar þegar kemur að pólitískum auglýsingum í ljósvakamiðlum, þessum grundvallarþætti í hverju lýðræðisríki.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.